Fara í efni
Pistlar

Gífurrunnar

TRÉ VIKUNNAR - LXXXV

Vistkerfi andfætlinga okkar í Ástralíu eru um flest ákaflega ólík því sem við eigum að venjast. Í því stóra landi má finna fjölbreytta vist, allt frá eyðimörkum til regnskóga. Mörgum þykir þó hin svokallaða runnavist, sem heimamenn kalla mallee, einna merkilegust. Þar eru miklir þurrkar en bæði dýralíf og jurtir eru mjög fjölbreytt á svæðinu. Lykiltegundir í þessum vistkerfum eru allskonar runnar af ætt gífurviða eða Eucalyptus. Að öllu jöfnu mynda þeir þó ekki einstofna tré eins og ættkvíslin gerir víðast hvar, heldur runna. Þá köllum við gífurrunna. Þessi pistill er um þá.

 

Sólbakaður, rauður jarðvegur sem er dæmigerður fyrir Ástralíu og fjölbreyttur runnagróður þar sem gífurrunnar skipa veglegan sess. Myndina á Marc Anderson og birti hana hér.

Tenging

Gífurrunnar eru okkur flestum framandi runnar sem geta sumir hverjir náð um 9 metra hæð. Fræðiheiti ættkvíslarinnar er Eucalyptus. Við höfum áður fjallað um ættkvíslina sem þeir tilheyra. Fyrst fjölluðum við um eina tegund gífurviða sem við köllum regnbogagífur, Eucalyptus deglupta og svo birtum við pistil sem fjallar um ættkvíslina í heild. Nú er komið að runnunum og seinna munum við birta pistil um merkilega sögu ættkvíslarinnar og að lokum segjum við frá stærstu tegund hennar. Meira hefur ekki verið ákveðið en ræðst sennilega af viðtökum.

Úti í hinum stóra heimi er þessi hópur stórra og smárra runna nefndur mallees og sama heiti er notað á vistkerfin sem hann skapar. Það er vel þekkt að hópur trjáa hefur sama nafn og vistkerfin sem hann myndar. Má nefna leiruviði og leiruviðarskóga sem dæmi. Hvoru tveggja kallast mangrove á mörgum tungum eins og við sögðum frá í pistli okkar um þá.

Með vísun í heiti ættkvíslarinnar á íslensku köllum við þessar áströlsku tegundir gífurrunna. Það er ágætt nafn og má líta á sem vísun í hvað runnarnir eru gífurlega tröllslegir, en gífur er gamalt heiti á tröllskessum. Vistkerfin mætti nefna gífurrunnavist.

 

Dæmigerðir gífurrunnar. Þessir eru að vísu í Ameríku þar sem þeim hefur verið plantað. Myndin fengin héðan.

Útlit

Þetta eru þær tegundir gífurviða, Eucalyptus spp. sem mynda nær alltaf margstofna runna frekar en einstofna tré. Þær lifa í hálfgerðum eyðimörkum í Ástralíu. Runnarnir geta orðið nokkuð háir miðað við tré og runna sem við þekkjum á Íslandi. Þeir verða sjaldan hærri en 9 metrar en það köllum við klárlega tré á Íslandi. Algengast er að þeir séu 2-6 metrar á hæð. Einnig eru til tegundir sem að jafnaði eru innan við 2 metrar á hæð.

Laufkrónan er stundum með regnhlífarlagi eins og við þekkjum hjá akasíum í Afríku (það má reyndar minna á að í Ástralíu vaxa miklu fleiri tegundir akasíutrjáa en í Afríku) og fleiri tegundum sem vaxa þar sem sól er jafnan hátt á lofti. Þessi tré, eða runnar, skyggja á um 20-70% af jörðinni undir krónunni. Það kemur öllu lífi vel, því þarna getur orðið býsna heitt í ástralskri sól og skugginn er því kærkominn og mikilvægur. Það er lítil hjálp í því að vita að hitinn er 40°C í forsælu ef engin er forsælan.

Stofnarnir hjá mörgum tegundum vaxa upp af sérstökum hnýðum sem minna á risastóra lauka eða kartöflur. Á ensku kallast þeir lignotuber og ef til vill getum við kallað þá trjáhnúða eða trjáhnýði. Í þessari grein tölum við um hnýði því það hugnast okkur betur. Þau eru sérstaklega heppileg til að geyma vatn og safna því þegar tækifæri bjóðast. Þetta er mikilvægt til að lifa af á svæðum þar sem vatn er af mjög skornum skammti.

 

Hér er muninum á hefðbundnum trjám og gífurrunnum útskýrður á myndrænan hátt. Myndin fengin héðan úr grein um dýralífið í gífurrunnavist. Eins og sjá má vaxa gífurrunnar upp af trjáhnýum.

Í almennu lýsingunni á ættkvíslinni sögðum við frá því að lauf gífurtrjáa eru oftast lensulaga. Helstu undantekningarnar þar á er einmitt að finna meðal runnanna. Þar eru jafnvel til tegundir með nánast hringlaga eða hjartalaga lauf. Þau form er eins langt frá því að minna á lensur og hugsast getur. Rétt er þó að halda því til haga að sumir gífurrunnar hafa lensulaga laufblöð eins og algengast er innan ættkvíslarinnar.

 

Eucalyptus stricta er ein af þeim tegundum sem mynda þessi runnasamfélög. Þessi tegund verður um 5–7 m á hæð og lifir aðeins í suðausturhluta Nýja-Suður-Veils í Ástralíu. Það er töluvert langt frá flestum öðrum gífurrunum eins og sjá má á útbreiðslukortinu hér aðeins neðar. Með því að hafa fá lauf sparast mikið vatn en þá dregur einnig úr ljóstillífun. Myndin frá Wikipediu en hana tók Peter Woodard.

Garðrækt

Gífurrunna má stundum finna í görðum þar sem loftslag hentar. Þeir þola klippingu vel og hægt er að rækta margar tegundir hvort heldur sem lítil tré eða stífklippta runna. Klipptir runnar geta verið mjög þéttir. Einnig er hægt að klippa margar tegundir þannig að þær myndi lágvaxin tré. Það getur verið miklu heppilegra en að rækta hin stóru gífurtré. Stór tré henta ekki endilega í hefðbundna, litla garða.

 

Gífurrunni af tegundinni E. synandra er stundum ræktaður í görðum. Eins og sjá má er hann ein af þeim tegundum sem hafa lensulaga blöð. Myndina tók Sally Boussoualim og birti á síðunni Nuts about Gums.

Vatnsskortur 

Rótarhnýði gífurrunna, skipta miklu máli þegar kemur að því að lifa af hina heitu sumarmánuði. Þau geta nefnilega geymt vatn. En meira þarf til. Við ljóstillífun tapast vatn úr plöntunum. Því heitara sem er, þeim mun meira vatn gufar upp í gegnum loftaugu blaðanna. Til að bregðast við þessu hafa gífurrunnar þróað fjölbreyttar aðferðir. Eins og við þekkjum þá snúa fjölmargar plöntur blöðum sínum í átt að sólu til að nýta orku hennar sem best. Sumir gífurrunnar geta farið þveröfugt að. Þegar vatn skortir geta þeir snúið laufblöðum sínum þannig að jaðrarnir snúa í átt að sólinni en ekki blaðið sjálft. Í huga okkar, sem búum svona norðarlega á hnettinum, hljómar þetta næstum eins og hvert annað gabb, en svo er ekki. Runnarnir snúa blöðunum þvert á sólarljósið.

Svo hafa vísindamenn áttað sig á fleiri lausnum. Sumir runnarnir hafa brugðist við þessum vanda með því að ljóstillífa bara á morgnana og á kvöldin þegar ekki er of heitt. Þannig sparast mikið vatn.

Önnur tré taka upp á því að rúlla eða vefja upp laufunum þegar heitast er. Dregur það mjög úr vatnstapi. Almennt eru gífurrarunnar með minni lauf en stóru trén af sömu ættkvísl og þau eru að auki vaxborin. Allt hjálpar þetta til við að draga úr vatnstapi.

 

Mynd sem sýnir hvernig sumir gífurrunnar minnka vatnstap með því að rúlla upp laufunum þannig að loftaugu (stomata) á neðra borði blaðanna snúa inn. Þá gufar vatnið ekki út í loftið. Myndin fengin héðan.

Annað atriði sem hjálpar mörgum gífurrunnum til að spara vatn er að þeir hafa þykk, leðurkennd laufblöð sem halda vel í vökva, næstum eins og þekkist hjá sumum öðrum eyðimerkurtegundum eins og blaðkaktusum. Svo má einnig fækka laufunum ef þurrkarnir eru miklir eins og E. stricta gerir á myndinni hér að ofan.

 

Sandstormur úr eyðimörkinni. Gífurrunnar geta lifað af á ótrúlega þurrum stöðum en jafnvel þeir lifa ekki af ef landið er of þurrt. Hamfarahlýnun ógnar tilvist þeirra. Myndin fengin héðan.

Einangrun

Myndin hér að ofan sýnir nær samfellda eyðimörk þar sem nánast ekkert líf er að finna. Jarðvegur á suðvesturhorni Ástralíu er bakaður af sól og snauður af næringarefnum. Þar er gróður alveg einstakur. Þrátt fyrir erfið skilyrði eru þar um 12 þúsund plöntutegundir og 87% þeirra eru einlednar og vaxa hvergi annars staðar. Þetta er næstum eins og hlutfallið sem finna má á sumum eyjum fjærri meginlöndum. Ástæðan er sú að fyrir um fimmtíu milljónum ára lá grunnsævi yfir hluta Ástralíu og Vestur-Ástralía var þá eyja. Því varð þróunin allt önnur á því svæði en öðrum fylkjum þessa stóra lands. Veðurfarsbreytingar urðu til þess að hafið þornaði upp og eftir varð stór eyðimörk. Hinni fornu einangrun er enn viðhaldið að mestu með þessari stóru eyðimörk (Attenborough 1995). Í þessum pistli okkar um stafafuru segjum við frá því hvað einangrun skiptir miklu máli í tengslum við þróun og myndun nýrra plöntutegunda. Þetta svæði er mjög gott dæmi um slíkt. Nyrst í fylkinu er gróður með allt öðrum brag en þar á milli er eyðimörk. Aðeins á suðausturhorni fylkisins er samgangur gróðurs frá þessari fornu eyju yfir í annað fylki og er hann svo lítill að hann sést ekki á meðfylgjandi korti. Aftur á móti sést þessi samgangur á kortinu í næsta kafla. Allt útlit er fyrir að gífurrunnar hafi fyrst orðið til á þessari fornu eyju en þeir hafa borist í meira mæli yfir í aðra hluta Ástralíu en aðrar plöntur í hina áttina.

 

Kort af Ástralíu sem við fengum héðan. Fylkið Vestur-Ástralía er merkt með heilum línum. Drapplituðu svæðin sýna þurrustu svæðin. Suðvesturhornið er aðskilið frá öðrum svæðum álfunnar af eyðimörk. Fróðlegt er að bera þetta kort saman við kortið af útbreiðslu runnavistkerfanna þar sem gífurrunnar finnast.

Vist

Á tungu heimamanna í Ástralíu er notað sama orðið yfir þessi dæmigerðu vistkerfi og notað er á runnana sjálfa. Þeir kalla þetta umhverfi the mallee.

Vistkerfin sem gífurrunnarnir hrærast í eru að jafnaði sendin og flöt. Þau geta náð yfir mjög stór svæði og myndað einsleitt runnalandslag án mjög hávaxinna trjáa. Í slíkum vistkerfum getur verið ákaflega villugjarnt. Sums staðar má svo finna sandöldur sem eru ógrónar með öllu. Þetta tvennt, villugjarnt kjarr og sandöldur, hræddi margan landkönnuðinn og landnemann hér á árum áður enda hurfu margir þeirra og fundust ekki aftur.

 

Svæði þar sem gífurrunnar móta vistkerfin í Ástralíu. Á svörtu svæðunum er fátt annað en svona vistkerfi en á kortið eru einnig merkt svæði þar sem þau eru algeng en skiptast á við aðrar vistgerðir. Þau svæði eru í sömu litum og sebrahesturinn Depill. Myndin fengin héðan.

Annars vísum við í pistil okkar um ættkvíslina í heild til frekari upplýsinga um mikilvægi ættkvíslarinnar í náttúrunni. Þó er sá munur á að þessi vistkerfi eru talin í meiri hættu en vistkerfi gífurtrjáa. Gífurrunnavist er bæði flókin og viðkvæm. Þar er mikla fjölbreytni að finna í dýralífi og ýmsum lífsformum en mikil hætta steðjar að. Hætturnar stafa fyrst og fremst af auknum hita og ofnýtingu í tengslum við landbúnað.

 

Það getur verið villugjarnt í skógum þótt útsýnið sé ekki truflað af stórum trjám. Inn á milli má sjá lauflausa stofna. Myndin fengin héðan.

Frá því að evrópskir landnemar settust að í Ástralíu er talið að þriðjungur allra spendýra sé við það að hverfa ef þær eru ekki horfnar nú þegar úr þessari vist. Vel á annan tug plantna er talinn í hættu eftir að farið var að beita búsmala á gífurrunnavistkerfi. Jarðvegurinn þarna er sendinn og þurr og sums staðar mjög basískur. Annars staðar er hann svo grunnur að litla rótfestu er að fá og sums staðar er hann töluvert saltur, enda var þarna grunnt innhaf eins og áður segir. Undir þessum gífurrunnum vaxa ýmsar tegundir sem háðar eru skuggavarpi trjánna og því hvernig trén auðga umhverfið með aðstoð rótarsveppa. Þar má finna runna af öðrum ættkvíslum, grastegundir og ýmsar aðrar jurtir. Á milli þeirra má svo oftast sjá beran og gróðurlausan jarðveg.

Vegna þess hve þurrt er á svæðinu tekur það dauð laufblöð oft langan tíma að brotna niður þannig að plönturnar geti endurnýtt næringarefnin. Árleg úrkoma á þessum slóðum er um 225-400 mm á ári. Mest af úrkomunni fellur á veturna en þeir eru stuttir og svalir. Svo tekur við langt, þurrt og heitt sumar. Veðurfarsbreytingar af mannavöldum auka enn á hitann og stytta hina svölu, röku vetrarmánuði. Þar með eykst álagið á kerfin og þau verða enn viðkvæmari fyrir ofnýtingu og hverskyns áföllum.

 

Gífurrunnar af ýmsum gerðum. Myndin fengin héðan en þar má sjá nokkrar af þeim fjölmörgu fuglategundum sem lifa á þessum slóðum.

Kjarr- og skógareldar

Á þessum þurru heimaslóðum gífurrunnanna eru skógareldar tíðir. Margar tegundir af stórum gífurtrjám hafa tiltölulega litla krónu sem er efst á trjánum og þangað kemst eldurinn ekki. Þannig geta trén varið viðkvæmasta hluta sinn þegar eldar eira engu á jörðinni undir krónunni. Gífurrunnarnir geta ekki beitt þessum vörnum. Þeir eru of lágvaxnir til þess. Þeir eiga önnur tromp uppi í erminni. Eins og áður segir vaxa þeir gjarnan upp af sérstökum trjáhnýðum. Hnýðin þola mikinn hita og eru neðan jarðar. Hjá þessum runnum gerist það iðulega að stofnarnir brenna og fuðra upp. Svo spretta upp nýir stofnar frá rótarhnýðunum eins og ekkert sé sjálfsagðara. Þannig endurnýjast trén þótt þau brenni. Hvernig metum við aldur slíkra trjáa? Er rétt að miða við trjáhnýðin eða stofnana? Á Íslandi er vel þekkt að birki getur endurnýjað sig á sambærilegan hátt þegar stofnarnir brenna. Sennilega er það vegna þess að sjaldnast verða eldarnir jafn ákafir hér á landi og þarna fyrir sunnan. Þess vegna lifir birkirótin þótt birki myndi ekki rótarhnýði.

 

Skógar- og kjarreldar eru hluti af gífurrunnavist. Myndin fengin héðan en hana tók Louse Denton.

Þessir eiginleikar, að ráða við að endurnýja sig hratt og vaxa mikið, gerir það að verkum að sumum tegundum er plantað víða um heiminn til eldiviðarframleiðslu. Það þarf bara að planta einu sinni svo sjá runnarnir um að vaxa upp aftur og aftur þegar stofnarnir eru nýttir. Svona eldiviðarskóga af áströlskum tegundum má meðal annars finna í Austur-Afríku, Suður-Ameríku og Suðaustur-Asíu, langt utan við náttúrulega útbreiðslu tegundanna.

Teikning sem sýnir hvernig nýr vöxtur sprettur upp úr sofandi brumi þegar börkurinn hefur sviðnað og skemmst. Myndin fengin úr grein sem ber heitið: Mallee plants Adapting to hot and dry conditions

Margir gífurrunnar búa yfir öðru varnarkerfi til að lifa af skógarelda. Undir berkinum eru svokölluð sofandi brum. Þegar skógareldar herja á slík tré brennur allt laufið og börkurinn sviðnar. Eftir standa naktir stofnar sem líta út fyrir að vera steindauðir. Undir berki þeirra eru lifandi brum sem opnast og trén taka aftur upp sinn græna lit.

Svo eiga sumir runnarnir það sameiginlegt með mörgum trjám innan ættkvíslarinnar að skógareldar opna fræhylkin. Í sumum tilfellum hafa fræhylkin fallið af áður en eldar kvikna og eru jafnvel komin ofan í jörðina. Við hamfarir skógareldanna verða miklar breytingar í jarðveginum. Lífrænt efni brotnar niður og bætist við hann í einhvers konar ofurskömmtum. Virkar það sem áburðargjöf fyrir snauðan jarðveginn og hjálpar til við endurnýjun gróðurs. Attenborough (1995) segir frá því að talið sé að kemísk efni í reyknum frá skógareldunum smeygi sér niður í efstu jarðvegslögin. Þegar næst rignir, hvenær sem það verður, leysir vatnið upp þessi efni og þau komast inn í fræin. Það eru þessi efni sem valda því að fræin spíra þegar rignir. Ef rignir án þess að skógareldar hafi geisað spíra fræin ekki enda er þá ekkert pláss fyrir nýjar plöntur og næring af skornum skammti. Þegar þetta varð ljóst gátu fræðingar í grasagörðum um heim allan fengið áströlsk fræ til að spíra sem áður gekk ekkert að vekja til lífsins. Reyk er einfaldlega blásið yfir fræin áður en þeim er sáð og þau síðan vökvuð.

Eftir að eldhafið hefur slokknað er landið eyðilegt að sjá. Fljótt fara þó ný fræ sumra tegunda að spíra ef og þegar rignir en sum trén eru lifandi, þótt ótrúlegt sé. Fyrri myndin fengin héðan.

Seinni myndin sýnir kjarrskóg hálfu ári eftir skógarelda. Þá sést endurnýjunin vel. Flest trén eru lifandi. Sum vaxa upp frá rótarhnýðum, önnur hafa lifandi brum undir sviðnum berkinum og fræ sumra tegunda hafa beðið eftir tækifærinu. Seinni myndin er frá Bigstock en hana á Daria Nipot.

Frumbyggjarnir í Viktoríu

Þegar Evrópubúar námu land í Ástralíu bjó þar fyrir fólk eins og alkunna er. Fylkið Viktoría var þar ekki undantekning, en þar eru einmitt miklir kjarrskógar af gífurrunnum. Ekki er annað að sjá en frumbyggjarnir hafi lifað ágætu lífi í árþúsundir á þessum slóðum þótt lífsbaráttan hafi verið hörð. Þeir höfðu ekki fasta búsetu heldur færðu sig til innan svæðisins eftir árstíðum. Á hverjum tíma reyndu þeir að vera þar sem helst var von til að finna vatn. Þeir lærðu líka hvernig hægt væri að ná vatninu úr rótarhnýðunum ef allt annað þraut. Nú á dögum lifa flestir frumbyggjar Ástralíu í borgum, rétt eins og þeir aðfluttu. Enn má þó finna sérstakar frumbyggjabyggðir í Viktoríu. Þær finnast meðal annars á svæðum sem kallast Boora Boora, Wamba Wamba og Watty Watty (The Australian National Botanic Gardens 2004). Í þessum byggðum er lagt mikið upp úr því að halda í hefðirnar án þess að íbúarnir neiti sér um kosti þeirrar menningar sem landnemar frá Evrópu hafa byggt upp.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hvar er hinn sanni jólaandi?

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
06. desember 2024 | kl. 06:00

Grenivík

Jón Óðinn Waage skrifar
04. desember 2024 | kl. 13:00

Jólatré við JMJ og Joe's

Sigurður Arnarson skrifar
04. desember 2024 | kl. 10:30

Snjóhúsin

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
02. desember 2024 | kl. 11:30

„Pabbi lestu fyrir mig“ – „Mamma lestu með mér“

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
01. desember 2024 | kl. 10:00

Öskudagurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
01. desember 2024 | kl. 06:00