Fara í efni
Pistlar

Fluguveiðimaðurinn mikli

Loks kom að því að mágur minn gat ekki lengur setið undir því að í fjölskyldu hans væri svo forhertur veiðidólgur að hann beitti bara spúnum eða lifandi ánamöðkum. Hann krafðist þess að fá að kenna mér að veiða með flugustöng að siðaðra manna hætti.

Kennslan hófst inni í stofu hjá mér sama kvöld og fjölskyldan gaf mér fjaðrandi flugustöng, flugubox með sérvöldum flugum, flugubuxur, flugustakk, fluguhatt og flugufleyg í afmælisgjöf. Fyrsta skrefið var að kenna mér að halda á stönginni.

Ég á afmæli í október og var svo sannarlega ekki setið auðum höndum mánuðina áður en veiðitímabil hófst. Þegar ég komst upp á lag með réttu tökin á stönginni hófst afar krefjandi kastþjálfun. Fyrstu köstin voru innandyra en þegar voraði og stærstu skaflarnir voru bráðnaðir færðist kennslan út á lóð.

Sumarið kom og ár fóru að opnast. Mági mínum hafði tekist það illmögulega og að margra mati það óhugsanlega: að gera mig að frambærilegum fluguveiðimanni. Ég var orðinn býsna lipur með stöngina úti í garði, gat svippað út línunni, látið hana smella nettum kossum á rabarbarabeðið eða þrætt hana niður eftir þröngum og bugðóttum stígnum á milli rifsberjarunnanna.

Nú var að því komið að ég fengi að spreyta mig í raunheimi laxveiðiánna. Keypt var rándýrt veiðileyfi í þekktri fluguveiðiá hér í nágrenninu. Við brunuðum austur í sýslu á jeppa mágs míns með fullfermi af fluguveiðigræjum og báðir í einstöku fluguveiðiskapi.

Eftirvæntingin var mikil þegar áin birtist. Við ókum beint að fyrsta veiðistaðnum. Þar skipaði mágur minn mér að fara út úr bílnum með mínar fluguveiðigræjur og hefja veiðiskapinn. Hann ætlaði að aka aðeins lengra niður með ánni og kanna aðstæður þar.

Ég setti saman stöngina og hóf þegar köst með miklum fótasveigjum, bakfettum og handaslætti. Mér fannst ég verða var við sporðaköst í ánni strax í fyrstu tilraun. Þegar ég bjó mig undir að gera aðra atlögu heyrði ég í bíl og leit upp á vegarslóðann. Þar reyndist ekki vera mágur minn á ferðinni í gamla lúna veiðibílnum sínum heldur glansandi svartur reinsróver, svo stífbónaður að ekkert ryk tolldi á honum.

Þegar glæsijeppinn staðnæmdist fyrir aftan mig stigu út tveir spengilegir fluguveiðimenn, angandi af fengsæld, báðir landsþekktir veiðigarpar, annar stjörnulögfræðingur en hinn stjörnuflugmaður.

Ég ákvað að sýna þessum stertimennum að sunnan hvernig alvörukarlar hér fyrir norðan bæru sig að í laxveiðinni, flýtti mér að koma út línunni og lét hana dansa um hylinn eins og kínverska ballerínu. Þegar ekki kom fiskur á gerði ég aðra tilraun og að þessu sinni fór færið eins og hvirfilvindur um hylinn. Var stundum engu líkara en þrjár stengur væru á lofti í senn. Þriðju atlöguna gerði ég í návist hinna sunnlensku oflátunga og liðaðist línan þá mjúklega eftir yfirborði vatnsins eins og skautakóngur á ís. Ýkti ég hreyfingarnar með snöggum hoppum og kippum sem aðkomuspjátrungarnir höfðu ábyggilega aldrei séð áður.

Enginn fékkst fiskurinn þrátt fyrir mikilfengleg tilþrif. Dró ég þá inn línuna svipbrigðalaus og snéri mér að gestunum. „Þessi fluga er stundum erfið í þessari átt,“ sagði ég með fagmennskuglott á vörunum.

Á því augnabliki, þegar línan var nánast öll inndregin að stangarenda, blasti við nöturlegur sannleikurinn. Engin fluga var á – og hafði aldrei verið.

Annar spjátrunganna úr höfuðborginni dró þá úr pússi sínu fluguboxið mitt og sagði: „Við mættum mági þínum hérna neðar við ána og hann bað okkur í guðanna bænum að færa þér þetta, þú gætir ekkert veitt því þú værir algjörlega flugulaus.“

Svavar Alfreð Jónsson er sjúkrahúsprestur

Ylfingur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
14. október 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Aðalstræti 13

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
13. október 2024 | kl. 20:00

Ellefu bækur í jólagjöf

Jóhann Árelíuz skrifar
13. október 2024 | kl. 06:00

Hryllilega skemmtileg hryllingsbúð

Rakel Hinriksdóttir skrifar
12. október 2024 | kl. 18:00

Kjaftagleiðir Akureyringar

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
12. október 2024 | kl. 06:00

Eltu drauminn þinn – því draumar geta ræst

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
11. október 2024 | kl. 06:00