Fara í efni
Pistlar

Feimni

Fræðsla til forvarna - XXII

Feimni er eitt af dularfullum fyrirbærum mennskunnar, tilfinning sem hefur áhrif á líðan og hegðun, mótuð af menningu og uppeldi en einnig bundin í erfðir.
 
Rannsóknir á erfðaefninu sýna breytileika í framleiðslu boðefna eins og Serotonin, GABA og Dópamín og sennilega er feimni stýrt með taugaþráðum sem eiga upptök í litlum frumuhnoðum efst í heilastofni sem liggja til allra hluta heilans eins og símkerfi og hafa þar áhrif á tilfinningu eða hegðun. Þræðirnir liggja líka niður í mænu og hafa áhrif á úttaugakerfið og þess vegna roðnar sá feimni og hendurnar titra. Sálfræðilegar kenningar benda á tengsl feimni við lágt sjálfsmat og kvíða. Við vitum vel hvað feimni er ólík eftir menningarsvæðum og tísku. Áhrif þeirra feimnu í mannhafinu eru að auka mildi, djúphugsun, tilfinningasemi og löngun til að efla hlut eða líðan annarra.
 
Það eru fordómar að þeir feimnu, sem virðast svo lokaðir, hugsi lítið eða séu heimskir. Gáfur þeirra eru eins og hinna og oftar en ekki hugleiða þeir hlutina dýpra.
 
Við getum öll orðið feimin við framandi aðstæður eða þegar við hittum einhvern í fyrsta sinn. Oftast er feimnin mest í bernsku og mildast með aldri og þeirri félagslegu þjálfun sem fæst í eðlilegum samskiptum í fjölskyldu, í skólanum, í tónlistarnáminu og þátttöku í samfélaginu hvort sem það er í íþróttum, við að syngja í kór, í starfi stjórnmálaflokks eða að dansa tangó. Þannig ná flestir góðum tökum á feimninni fyrir þrítugt og hafa á henni ágæta stjórn þó þeir geti við vissar aðstæður enn funduð fyrir henni. Ef feimnin er sterk eða verulega truflandi er hún oftast flokkuð sem félagsfælni og meðferðarmöguleikar eru margir og horfur mjög góðar. Ég hef sjálfur séð ungt fólk sem varla getur tjáð sig af feimni og hefur nánast þagað öll unglingsárin en opnar sig skyndilega og talar og tjáir sig og blómstrar á skömmum tíma. En það er bara eitt af mörgum kraftaverkum sem geðlæknirinn fær að sjá í starfi sínu.
 

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Apótekaralakkrísinn

Jóhann Árelíuz skrifar
08. september 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Litli-Hamar

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
07. september 2024 | kl. 15:15

Sjálfbærni

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
07. september 2024 | kl. 09:00

Hvað er svona merkilegt við það?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
07. september 2024 | kl. 06:00

Samfélagsábyrgð fyrirtækja

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
06. september 2024 | kl. 22:00

Eftir þann fund var ég orðinn KA-maður

Orri Páll Ormarsson skrifar
06. september 2024 | kl. 08:30