Fara í efni
Pistlar

EXIT

Nýtt ár er gengið í garð. Þó tíminn streymi jafnt og þétt eru áramót tilefni til að staldra við, átta sig á því sem að baki er og horfa fram á veginn. Þá er hægt að hugleiða vonir sínar og drauma, jafnvel setja sér markmið og strengja heit. Áramótunum fylgir þannig bæði uppgjör og endurnýjun. Uppgjörinu geta tengst alls kyns tilfinningar; sorg, vonbrigði og reiði, en líka þakklæti, stolt og væntumþykja. Endurnýjuninni fylgir von, góður ásetningur og frelsi undan gömlum hindrunum. Áramótin eru því tilefni til að endurnýja kjark og áræði.

Á fyrstu dögum nýs árs steig einmitt fram kjarkmikil kona, Vítalía Lazareva, og sagði frá kynferðisofbeldi sem hún mátti þola af hendi nokkurra karlmanna sem eiga það sameiginlegt að vera í valda- og áhrifastöðum í þjóðfélaginu, auk þess að vera á aldur við foreldra hennar. Það er að sjálfsögðu ekki nýtt að þolandi komi fram opinberlega en það sem er nýtt, nú á nýju ári, er að innan sólarhrings eða svo voru karlarnir allir búnir að stíga til hliðar eða farnir í leyfi frá störfum. Segja má að þeir hafi gengið rakleitt að útgöngudyrunum, rétt eins og þar hefði staðið ljósaskilti með áletruninni EXIT.

Í umræðunni um þessa atburði hefur verið vakin athygli á því að þetta sé til marks um ákveðinn árangur í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Viðmið hafa þokast til og almenn viðhorf eru að breytast, sem kemur meðal annars fram í því að það er fyrirtækjum ekki lengur í hag að stjórnendur þeirra sitji áfram eftir að hafa verið sakaðir um athæfi af því tagi sem Vítalía lýsti. Siðferðisvitund almennings hefur áhrif á hagsmuni fyrirtækja; ef þau misbjóða henni geta þau haft miklu að tapa. Næsta skrefið er að fyrirtækin bregðist við um leið og þau fá vitneskjuna, en bíði ekki eftir að málið fari í fjölmiðla.

Einnig hefur verið bent á að mál þetta veki hugrenningatengsl við norsku sjónvarpsþáttaröðina EXIT, sem lýsir lífsháttum nokkurra auðmanna þar í landi. Þetta eru leiknir þættir, ekki heimildamynd, en eru þó byggðir á viðtölum við fólk úr þessu umhverfi frá vorinu 2017, rétt áður en #Metoo bylgjan fór af stað. Ég hafði ekki séð þættina en umræðan vakti forvitni mína og notaði ég því tækifærið í kvefpest nú um helgina (Covid neikvæður þó) og horfði á alla fyrstu þáttaröðina.

Skemmst er frá að segja að þættirnir lýsa stórfelldu siðleysi fjögurra „vina“ sem ekki vita aura sinna tal og virðast telja sig hafna yfir öll siðferðisviðmið, ekki síst þegar kemur að samskiptum við konur. Ég segi „vina“ vegna þess að samband þeirra á meira skylt við það sem Aristóteles kallaði nytsemisvináttu og ánægjuvináttu en sanna vináttu. Það sem drífur vinskapinn áfram er ásókn hvers og eins í nytsemi og nautnir, frekar en að þeir yrðu tilbúnir að standa með hver öðrum ef af því hlytist hvorki ánægja né nytsemi. Sjálfhverfa þeirra og firring kemur einnig fram í botnlausri kvenfyrirlitningu.

Því fer fjarri að frásögn Vítalíu lýsi öllu því sem sjá má í sjónvarpsþáttunum EXIT. En það eitt að hugrenningatengslin vakna er óhugnanleg staðreynd.

Sigurður Kristinsson er heimspekingur og prófessor við Háskólann á Akureyri.

Skógarjaðrar

Sigurður Arnarson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:30

Svona bara af því bara

Sigurður Ingólfsson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:02

Fannfergi

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. mars 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Spítalavegur 15

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
24. mars 2024 | kl. 19:00

Gleðispillirinn og neyslunöldrarinn kveður sér hljóðs

Rakel Hinriksdóttir skrifar
23. mars 2024 | kl. 06:00

Eins gott að þú baðst ekki um bjúgu!

Orri Páll Ormarsson skrifar
22. mars 2024 | kl. 10:30