Fara í efni
Umræðan

Er Norðurland sprungið?

Í skýrslu KPMG sem gefin var út í síðustu viku og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum kemur fram að miðað við hraðan viðsnúning ferðaþjónustunnar og væntingar um aukin umsvif um Akureyrarflugvöll sé Norðurland ekki í stakk búið til að taka við þeim fjölda gesta sem vonir eru um að heimsæki landshlutann.

Framboð hótelherbergja á Norðurlandi var í sögulegu hámarki síðastliðið sumar og samkvæmt opinberum gögnum var nýtingarhlutfall hótelherbergja í landsfjórðungnum rúm 83% í júlí síðastliðnum. Samkvæmt samtölum við markaðsaðila virðist nýtingarhlutfall stærri hótela þó vera vanmetið, sér í lagi þeirra sem staðsett eru í stærri þéttbýliskjörnum og á vinsælum ferðamannastöðum, en þessi hótel virðast hafa verið nánast uppbókuð síðasta sumar.

Fjöldi ferðamanna

Á árunum 2017-2019, eða áður en Covid-19 faraldurinn skall á, var sá fjöldi ferðamanna sem kom til landsins í gegnum Keflavík á bilinu 2,0-2,3 milljónir á ári. Ferðamönnum fækkaði um allt að 75% á meðan faraldrinum stóð en nú hefur ferðaþjónustan tekið hraðar við sér en nokkur þorði að vona og útlit er fyrir að fjöldi ferðamanna verði um 1,7 milljónir á þessu ári. Flestir greiningaraðilar virðast vera nokkuð sammála um að fjöldinn muni aukast í um 2,0 milljónir á næsta ári og verði á bilinu 2,2-2,5 milljónir á árunum 2024-2025.

Ferðamálastofa hefur þó sett fram sviðsmynd þar sem áætlað er að ferðamenn kunni að vera allt að 3,0 milljónir árið 2025. Til að landið geti tekið á móti slíkum fjölda gesta eru tveir þættir taldir afar mikilvægir – annars vegar að ferðamönnum verði dreift betur um landið, t.a.m. í gegnum Akureyrar- eða Egilsstaðaflugvöll og hins vegar að dreifing þeirra yfir árið verði jafnari en verið hefur.

Komi stærstur hluti ferðmanna áfram í gegnum Keflavíkurflugvöll yfir sumarmánuðina er óvíst að innviðir höfuðborgarsvæðisins, t.a.m. gistirými, geti tekið við slíkum fjölda (nýting hótelherbergja var yfir 90% síðasta sumar) á meðan nægt gistipláss er til staðar á landsbyggðinni utan háannatíma.

Aukinn áhugi á Norðurlandi

Norðurland er sífellt að verða eftirsóknarverðari áfangastaður erlendra ferðamanna, beint flug til Akureyrarflugvallar hefur aukist og tilkoma NiceAir gefur tilefni til enn frekari bjartsýni.

Í kjölfar afléttinga sóttvarnaraðgerða fóru ferðamenn að flykkjast til landsins og hefur eftirspurn eftir gistingu aukist allverulega eftir því sem liðið hefur á árið. Fjöldi gistinátta erlendra ferðamanna fór að taka við sér í febrúar mánuði og frá júní á þessu ári hafa hafa þær verið fleiri en þekktist á árunum 2017-2019 og á það jafnt við um Norðurland sem og á landsvísu.

Með hliðsjón af væntingum um komur erlendra ferðamanna, hve lengi þeir kunna að dvelja og hlutdeild Norðurlands í heildargistináttafjölda er áætlað að gistinætur erlendra ferðamanna geti orðið allt að 300 þúsund á ári á næstu árum.

Covid-19 hafði einnig mikil áhrif á ferðamynstur Íslendinga, en til að mynda var fjöldi gistinátta innlendra ferðamanna um 40 þúsund í júlí 2020 samanborið við 6 þúsund á árinu 2019. Fjöldi innlendra gistinátta mun að öllum líkindum fara fækkandi á næstu misserum í samanburði við síðastliðin tvö ár, en þó eru vísbendingar um að innlend eftirspurn verði sterkari en hún var fyrir faraldur og talið er að gistinætur innlendra ferðamanna kunni að vera á bilinu 90-100 þúsund árlega.

Að lokum hefur beint flug um Akureyrarflugvöll aukist á síðustu misserum og vonir standa til að fjögur flugfélög muni fljúga um Akureyrarflugvöll á árinu 2023 og fljúga til átta áfangastaða. Sé tekið mið af þeim flugferðum sem komnar eru í sölu auk væntinga flugfélaganna fyrir árið 2023 eru vonir um að allt að 16 þúsund erlendir farþegar muni koma beint til Akureyrarflugvallar á næsta ári. Slíkur fjöldi kallar á allt að 60-65 þúsund gistinætur – en ætla má að um helmingur þeirra falli til yfir háannatíma, þ.e. á tímabilinu júní til ágúst.

Byggt á forsendum og væntingum um komur erlendra ferðmanna til Íslands, innlenda eftirspurn og beint flug til Akureyrarflugvallar eru vísbendingar um að gistirými á Norðurlandi anni ekki þeim fjölda ferðamanna sem áætlað er að komi á Norðurlandið. Gangi áætlanir eftir liggur fyrir að nánast hvert einasta hótelherbergi á Norðurlandi þyrfti að vera í notkun yfir sumarmánuðina 2023 til að anna þeim fjölda gesta sem áætlaður er.

Hvert viljum við stefna?

Samkvæmt opinberum gögnum hefur framboð hótelherbergja aldrei verið meira, engu að síður virðast stærri hótel á svæðinu vera nánast fullbókuð yfir háannatíma en með hliðsjón af hröðum viðsnúningi ferðaþjónustunnar og áætlunum flugfélaga virðist Norðurland ekki í stakk búið til að taka við þeim fjölda sem vonast er eftir að heimsæki landshlutann yfir sumarmánuðina.

Aftur á móti verður að horfast í augu við það að á Norðurlandi er veruleg árstíðarsveifla og því er talið afar mikilvægt að hér muni eiga sér stað samstillt átak allra aðila sem að ferðaþjónustunni koma. Á það við um hagsmunasamtök, ferðaþjónustuaðila almennt og sveitarfélögin á svæðinu sem þurfa að vinna markvisst að eflingu ferðaþjónustunnar utan háannar.

Ferðaþjónustan í heild sinni, þar með talið ofangreindir aðilar, þarf að fara í ákveðna stefnumótun, setja sér stefnu til framtíðar en jafnframt þora að standa með henni og styðja með nauðsynlegu en þolinmóðu fjármagni. Um er að ræða langtímasýn sem án vafa mun borga sig til lengri tíma litið, fyrirtækjunum sjálfum, viðkomandi sveitarfélögum sem og íbúum þeirra og almenningi til heilla.

Guðmundur Freyr Hermannsson er verkefnastjóri á ráðgjafarsviði KPMG á Akureyri

Kennaradeilan haustið 2024

Ólafur Kjartansson skrifar
14. október 2024 | kl. 09:00

Opið bréf til borgarstjóra Reykjavíkurborgar

Hlín Bolladóttir skrifar
13. október 2024 | kl. 18:30

Fullkomlega óskiljanlegt

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
12. október 2024 | kl. 17:30

Sam­eigin­legt verk­efni okkar allra

Ingibjörg Isaksen skrifar
11. október 2024 | kl. 19:50

Með fjöreggið í höndunum

Hlín Bolladóttir skrifar
11. október 2024 | kl. 16:15

Kostnaður ofbeldis

Alfa Jóhannsdóttir skrifar
11. október 2024 | kl. 14:45