Fara í efni
Minningargreinar

Einar Valmundsson

Frændi minn Einar Valmundsson er látinn í hárri elli. Elín Björg amma mín og Einar voru systkinabörn. Samband þeirra var náið enda kom Einar á barnsaldri í fóstur á heimili hennar í Þorsteinshúsi í Hrísey og síðar ólst hann upp að mestu hjá ömmu og afa Filippusi. Því var Einar
uppeldisbróðir móður minnar.

Þegar Einar var að komast á fullorðinsaldur réð ung kona, Hallfríður Sigurgeirsdóttir, sig í vist í Þorsteinshús. Þau felldu hugi saman og
hófu búskap í Hrísey en fluttu síðar til Akureyrar. Þau hjón eignuðust fimm börn sem hafa gefið af sér fríðan flokk afkomenda.

Þegar Halla lést í desember 2022 minntumst við Ella systir mín hennar fyrir hlýjan faðm og hjarta fullt af væntumþykju. Alla tíð var kært á
milli Einars og Höllu og ömmu, mömmu og systra hennar. Þau hjón reyndust þeim dýrmætir bakhjarlar, ekki síst þegar sorgin knúði dyra
við fráfall afa langt um aldur fram.

Ég minnist Einars einnig með þakklæti. Hann var raunar örlagavaldur í mínu lífi því hann réð mig í vinnu sextán ára gamlan í handlang hjá
Trésmiðjunni Reyni, þar sem hann var einn eigenda. Þetta voru mín fyrstu alvöru skref á vinnumarkaði enda vinna sem skipti máli að mínu
viti. Það var nóg að gera í byggingavinnunni og sumrin mín á Reyni voru viðburðarík og mótandi. Iðnaðarmennirnir voru vinnusamir og við
verkamennirnir þurftum að hafa okkur alla við til að skila okkar verki. Einar var hins vegar ávallt hæglátur og fátt virtist geta
raskað ró hans sama hvað gekk á. Sennilega fékk ég þá hugmynd á þessum árum að leggja fyrir mig tækninám þó starfsferillinn hafi síðar leitt mig inn á aðrar brautir. Ég er Einari ávallt þakklátur fyrir að gefa mér þetta tækifæri og þátt hans í að koma mér til manns.

Þegar ég man fyrst eftir mér höfðu Einar og Halla búið sér fallegt heimili í Suðurbyggð 10 og þar bjó Einar til dauðadags. Við Ella systir komum oft í heimsókn og þá gjarnan í fylgd með mömmu sem ræktaði gott samband við fjölskylduna í Suðurbyggð. Sigurgeir, yngsti
sonur þeirra hjóna, var nokkrum árum eldri en ég. Ég leit mikið upp til Geira, sem var skarpgreindur og skemmtilegur við yngri
frændsystkini sín. Það var mikið áfall þegar hann fórst af slysförum rúmlega fertugur að aldri. Minningin um góðan dreng lifir. 

Heimsóknirnar í Suðurbyggð eru mér minnisstæðar því hjá Einari og Höllu ríkti alltaf ró og notalegt andrúmsloft þó fjölmennt væri á
heimilinu. Hjá þeim var snoturt og öllu haganlega fyrirkomið, innanhúss sem utan. Einar hafði nostrað við húsið sem hann byggði sjálfur og bæði hlúðu þau að garðinum af mikilli smekkvísi. Hundurinn Bósi var aðdráttarafl fyrir ungviðið en yfirleitt kúrði hann sem næst Einari og lét sér fátt um finnast þó gesti bæri að garði.

Nú er Einar lagður upp í sína hinstu för og hefur sameinast Höllu sinni á nýjan leik. Ég minnist þeirra hjóna með hlýju og færi Valmundi, Sólveigu, Steinunni, Filippusi, Kristjönu og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Hermann Örn

Árni Björn Árnason

Juan Ramón skrifar
10. maí 2024 | kl. 12:30

Árni Björn Árnason

Höskuldur Þórhallsson skrifar
10. maí 2024 | kl. 12:30

Árni Björn Árnason

Tinna og Telma skrifa
10. maí 2024 | kl. 12:30

Árni Björn Árnason

Steinunn Glóey, Fanney Björg og Þórhallur Árni skrifa
10. maí 2024 | kl. 12:30

Sigurður Hermannsson

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
07. maí 2024 | kl. 11:00