Bryndís Baldursdóttir
Elsku mamma.
Það er svo óraunverulegt að skrifa þessi orð og þó að þau verði alltaf of fátæk til að lýsa allri þeirri ást sem þú barst til okkar, þá geymum við í hjörtum okkar minningarnar sem þú skapaðir og öll þau stóru & litlu augnablik sem við áttum saman.
Þú kenndir mér svo margt og ég mun aldrei gleyma þegar við ræddum fegurðina í hversdagsleikanum í göngutúrunum okkar. Þú bentir mér á að meta það sem skiptir raunverulega máli eins og samveru, kærleikann, gleði og virðingu. Sem er svo sannarlega mikilvægt í þessu lífi.
Innst inni var ég auðvitað að vonast eftir miklu lengri tíma með þér og svo gerðist allt svo hratt. Það er ekki langt síðan þú sast við hlið mér þegar ég lá inni á SAk og ég sá þig með tárin og áhyggjurnar í augunum. Nú, síðustu mánuðina, héldum við í hönd þína og reyndum að sýna þér sömu ást og umhyggju. Sjúkrahúsdagarnir eru búnir að vera alltof margir hjá þér á lífsleiðinni og sumir mjög langir, verkjaðir og erfiðir en jafnvel á þeim tíma sýndir þú sama styrk og reisn og þú barst alla ævi og sögnin að „kvarta“ er ekki til í þinni orðabók. Þú gerðir alltaf allt fyrir alla og vildir ekkert til baka og skildir eftir djúp spor í hjörtum svo margra sem urðu á vegi þínum.
Þú elskaðir okkur svo heitt og svo djúpt og það sást í öllu sem þú gerðir. Hvort sem það var smáatriði í hversdagsleikanum eða hvernig þú sagðir nafnið okkar. Alltaf með hlýju, alltaf með alvöru. Það var aldrei vafi um það hversu mikils við máttum vænta af þér og hversu dýrmæt við vorum í þínum augum. Strákarnir mínir dýrkuðu þig frá degi eitt enda viðstödd fæðingu þeirra beggja. Þeir munu alltaf muna eftir ömmu dreka sem hló með þeim, gaf þeim faðmlög, peninga, bjó til kakó og túnfisksalat og sagðir þeim sannleikann, jafnvel þegar hann var beiskur en alltaf kom þín skoðun fram. Þú varst þeirra skjól og það skín í gegnum sögurnar sem við segjum núna þegar við minnumst þín enda gafstu þeim öryggi, hlátur og endalausa ást sem gleymist aldrei. ALDREI.
Þú varst svo mikið meira en bara móðir eða amma. Þú varst kletturinn okkar, ljósið og leiðbeinandi rödd sem talaði hreina íslensku og lést engan vaða yfir þig, okkur eða aðra. Alltaf hreinskilin, sanngjörn og samt svo hörð en mjúk þar sem það skipti mestu máli.
Ég sakna þín meira en orð ná að lýsa en ég er líka óendanlega þakklát fyrir hverja mínútu sem ég fékk með þér. Ég er svakalega heppin að hafa fengið þig sem móðir. Það var besta gjöf lífsins að eiga þig og pabba sem foreldra og ég er mjög þakklát fyrir allt.
Takk • Fyrir lífið sem þú gafst mér og strákunum.
Takk • Fyrir kærleikann sem þú gafst okkur öllum.
Takk • Fyrir að grípa mig aftur og aftur.
Takk • Fyrir að kenna mér að vera sterk.
Takk • Fyrir að hvetja mig í að fylgja eigin sannfæringu í öllum mínum skrefum í lífinu.
Takk • Fyrir að þekkja mig út og inn. Líka þegar ég setti upp grímuna.
Takk• Fyrir að koma svo áfram í draumum okkar næstu àrin.
Og síðast en ekki síst ...
TAKK fyrir að knúsa Helga frá okkur.
Ég veit að það var yndislegt og kærkomið faðmlag fyrir þig elsku mamma.
Hvíldu í friði • Við elskum þig • Alltaf.
Vilhelm Guðmundsson
Vilhelm Guðmundsson – lífshlaupið
Sigurður Ólafsson
Sigurður Ólafsson