Fara í efni
Íþróttir

„Best fyrir okkur sem fjölskyldu“

Sandra María Jessen og unnusti hennar, Tom Luca Küster, með dótturina sem fæddist í september. Hún h…
Sandra María Jessen og unnusti hennar, Tom Luca Küster, með dótturina sem fæddist í september. Hún heitir Ella Ylví Küster. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

„Lífið snýst ekki bara um fótbolta eftir að maður eignast barn. Þá spila fleiri þættir inn í þegar þarf að ákveða hvar maður ætlar að spila. Við sem fjölskylda ákváðum að þetta væri best fyrir okkur,“ sagði Sandra María Jessen, fótboltakonan snjalla, í samtali við Akureyri.net á dögunum, eftir að hún skrifaði undir samning við Þór/KA til tveggja ára.

Sandra María, sem verður 27 ára eftir fáeina daga, hóf ung að leika með meistaraflokki Þórs/KA. Hún varð Íslandsmeistari með liðinu 2012 og 2017 en hélt í víking eftir sumarið 2018; hefur síðan verið á mála hjá Bayer Leverkusen í Þýskalandi. Sandra María eignaðist sitt fyrsta barn í september á síðasta ári; stúlku sem hlaut nafnið Ella Ylví Küster.

Gott að öllu leyti!

„Ég þekki auðvitað allt og alla hér á Akureyri og veit út í hvað ég er að fara; ég veit að hér fáum við mikinn stuðning frá fjölskyldu og vinum og Tom, kærastann minn, hefur alltaf langað að búa í útlöndum þannig að okkur fannst þetta kjörið tækifæri til að prófa eitthvað nýtt saman. Svo finnst mér líka alveg ótrúlega spennandi að taka þátt í því flotta verkefni sem framundan er að byggja upp gott lið með öllum ungu stelpunum í Þór/KA,“ sagði Sandra María.

Kærastinn, Tom Luca Küster, er Þjóðverji sem Sandra kynntist eftir að hún hóf að leik með Bayer í Leverkusen.

Söndru stóð til boða nýr samningur við Bayer en er ánægð með ákvörðunina um að flytja til Íslands. „Það hefur gert mér mjög gott að vera í Þýskalandi. Ég er rosalega ánægð með þá ákvörðun að fara út á sínum tíma; ég hef þróast og bætt mig sem leikmaður og á sama tíma hef ég þroskast sem einstaklingur. Svo kynntist ég auðvitað Tom og við eignuðumst dóttur okkar, þannig að þetta reyndist að öllu leyti góð ákvörðun!“

Spennt að sparka aftur í bolta

Dóttirin, Ella Ylví, fæddist 8. september. „Ég spilaði síðast fótbolta í desember 2020 og komst svo að því hér heima á Íslandi milli jóla og nýárs að ég væri ólétt,“ segir Sandra. Eftir að dóttirin fæddist í haust einbeitti Sandra sér alfarið að því að hugsa um fjölskylduna og lagði fótboltann algjörlega til hliðar. „Eftir það fór ég að hlaupa og hreyfa mig, gera styrktaræfingar og þess háttar. Ég er ekki farin að gera neitt með bolta en finn strax að ég er að komast í betra form og það hvetur mig mjög áfram. Ég hef alltaf þurft að hafa lítið fyrir því að koma mér í góða æfingu og hef alltaf verið í góðu standi; það er því krefjandi áskorun að koma sér í stand núna! En það er gott að finna að maður er að bæta sig með hverri vikunni og ég er mjög spennt að fara að sparka í bolta aftur.“

Miklar breytingar

Sandra segir mikinn mun á fótboltanum hér heima og í Þýskalandi, helst að því leyti að úti sé gríðarleg áhersla lögð á leikskipulag – taktík. „Leikurinn þar er rosalega taktískur og mikil áhersla lögð á tækniatriði og alls konar litla hluti. Hér heima er meira um að menn séu í geggjuðu formi; ég held reyndar að engir séu í jafn góðu formi og Íslendingar! Ég held það sé gott fyrir alla að prófa eitthvað nýtt og hvet alla til þess; það gerði mér mjög gott að kynnast fótboltanum í Þýskalandi.“

Mjög miklar breytingar hafa orðið á liði Þórs/KA á þeim þremur árum sem liðin eru síðan Sandra fór utan. „Það eru ekki margar enn í liðinu sem ég spilaði með 2018. Það er samt alls ekki neikvætt; ekki má gleyma því að ég var mjög ung þegar ég kom upp í meistaraflokk og þá var líka uppbyggingartímabil í gangi. Ég byrjaði líka ung að þjálfa og nú eru stelpur í liðinu sem ég þjálfaði í yngri flokkunum! Þannig þekki ég þær og það verður gaman fyrir mig að taka þátt í þessu verkefni núna, sem reyndari leikmaður en áður og ég vona að reynsla mín og þekking hjálpi öðrum leikmönnum við að taka næstu skref. Ég hef horft á æfingar og fylgdist með liðinu á meðan ég var að spila úti og veit að hér er nógur efniviður; mikið af efnilegum og flottum stelpum, en það þarf að vinna rétt með efniviðinn og ég er mjög spennt að fá að taka þátt í spennandi og krefjandi verkefni.“

Sandra María Jessen heim til Þórs/KA

Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður Þórs/KA, og Sandra María „handsala“ samninginn.

Sandra María með þjálfurum Þórs/KA; Perry Mclachlan vinstra megin og Jón Stefán Jónsson til hægri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.