Fara í efni
Íþróttir

María Gros seld frá Linköping FC

María Catharina Ólafsdóttir Gros í leik með Linköping. Myndin er af Facebook-síðu LFC.

Akureyringurinn María Catharina Ólafsdóttir Gros, fyrrum leikmaður Þórs/KA, er á leið frá núverandi félagi sínu í Svíþjóð. Félag hennar, Linköping FC, tilkynnti í morgun á vef sínum og samfélagsmiðlum að hún hafi verið seld frá félaginu. Ekki kom þó fram í tilkynningu félagsins hvert hún hafi verið seld, en samkomulag klárt „sem allir þrír aðilarnir eru ánægðir með,“ eins og segir í tilkynningunni. 

Linköping FC féll úr sænsku úrvalsdeildinni, Damallsvenskan, í haust. Í viðtali við vef Þórs/KA í haust þegar stutt var eftir af tímabilinu kvaðst María fyrst ætla að einbeita sér að því að klára tímabilið og reyna að hjálpa klúbbnum að halda sæti sínu, en myndi svo huga að sínum málum að keppnistímabilinu loknu. 

Þakklát fyrir tímann hjá Linköping

Linköping þakkar Maríu fyrir tíma hennar hjá félaginu, en hún kom þangað frá hollenska félaginu Fortuna Sittard sumarið 2024. María var markahæst í liði Linköping í fyrra og var bæði verðlaunuð af félaginu sem besti nýliðinn og verðlaunuð af stuðningsmönnum félagsins. Í tilkynningu Linköping FC er meðal annars haft eftir Adil Dzuho Kizil, knattspyrnustjóra LFC, að María hafi sýnt fram á hæfileika og þróað sig sem leikmann hjá félaginu og það geri þessa sölu mögulega og fær hún þakkir fyrir tíma sinn hjá félaginu.

María vakti verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína með Linköping FC og var verðlaunuð af félaginu og stuðningsmönnum í haust. Myndir: Linköping FC.

María kveðst sjálf þakklát fyrir tíma sinn hjá LFC. „Þetta hefur verið stór og mikilvægur kafli á mínum ferli og það er erfitt að kveðja. Félagið hefur hjálpað mér að vaxa sem leikmaður og sem manneskja,“ segir María í tilkynningu félagsins og þakkar öllum í kringum félagið.

126 leikir í efstu deildum fjögurra landa

María hefur áður spilað fyrir Þór/KA, Celtic FC í Skotlandi, Fortuna Sittard í Hollandi og svo Linköping FC í Svíþjóð, en öll þessi félög leika í efstu deild í sínum löndum. María á að baki 158 meistaraflokksleiki, þar af 126 leiki í efstu deildum Íslands, Skotlands, Hollands og Svíþjóðar. Leikirnir fyrir Þór/KA eru samtals 63, þar af 46 í efstu deild. María var í haust í fyrsta skipti valin í A-landsliðshóp Íslands fyrir umspilsleiki í Þjóðadeildinni gegn Norður-Írum, en kom þó ekki við sögu í leikjunum.