Blaklið kvenna best og Mateo þjálfari ársins
Meistaraflokkur kvenna í blaki er lið ársins 2025 hjá KA og þjálfari ársins hjá félaginu var kjörinn Miguel Mateo Castrillo en hann þjálfar bæði kvenna- og karlaliðs félagsins. Tilkynnt var um þessa niðurstöðu á afmælishátíð KA í dag. Þar var einnig greint frá því hver urðu fyrir valin sem íþróttafólk KA – sjá hér: Hallgrímur og Julia íþróttafólk KA 2025.
Þetta er í þriðja skipti sem Mateo er kjörinn þjálfari ársins hjá KA og í sjötta sinn sem sú nafnbót er veitt. Meistaraflokkur kvenna í blaki var nú kjörinn lið ársins hjá KA í annað skipti.
Kvennalið KA í blakinu er handhafi allra stóru titlanna í blakinu þetta árið; varð Íslands-, bikar- og deildarmeistari og auk ber auk þess titilinn Meistari meistaranna eftir að hafa unnið Völsung 3:0 í haust en Völsungur varð í 2. sæti Íslandsmótsins í fyrra.

Blakstelpurnar sem mættu á afmælishátíð KA í dag ásamt Miguel Mateo Castrillo, þjálfara ársins hjá KA:
„Í Unbrokendeildinni tapaði KA einungis tveimur leikjum af átján og tryggði sér deildarmeistaratitilinn eftir harða baráttu við Völsung. Í Kjörísbikarnum spilaði KA til úrslita við HK sem þær sigruðu eftir æsispennandi 5 hrinu leik þar sem Paula del Olmo var kosin besti leikmaðurinn. Í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn spilaði KA við Völsung og vann KA liðið það einvígi örugglega 3-0,“ segir á heimasíðu KA í dag.
Miguel Mateo Castrillo hefur verið potturinn og pannan í gríðarlegri velgengni meistaraflokksliða KA í blaki undanfarin ár en hann stýrir bæði karla- og kvennaliði félagsins, segir á vef KA í dag. Árangurs kvennaliðsins er áður getið en karlarnir urðu Íslands-, deildar- og bikarmeistarar.
Nánar hér um lið ársins og þjálfarann Miguel Mateo Castrillo.