Fara í efni
Íþróttir

Handbolti: KA/Þór aftur á sigurbraut

Tinna Valgerður Gísladóttir (nr. 5) og Lydía Gunnþórsdóttir (nr. 23) höfðu ástæðu til að fagna langþráðum sigri hjá KA/Þór. Mynd: Facebook-síða KA.

KA/Þór vann góðan sigur á spútnikliði ÍR í 12. umferð efstu deildar kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, í KA-heimilinu í gær. Lokatölur urðu 23:21 KA/Þór í vil og náði liðið þar með að jafna Hauka og Fram í 4.-6. sæti deildarinnar.

Eftir góða byrjun á Íslandsmótinu fataðist KA/Þór aðeins flugið í lok síðasta árs og eftir tap í fjórum síðustu leikjum var sannarlega kærkomið að landa sigri í þessum leik.

Heimakonur komu ákveðnar til leiks og voru skrefinu á undan gestunum í fyrri hálfleik. Staðan í leikhléi var 13:9 KA/Þór í vil.

Í seinni hálfleik söxuðu ÍR-ingar smám saman á forskotið og náðu að jafna metin þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka. Lokakaflinn var spennandi en KA/Þór náði að komast aftur fram úr gestunum og landa 23:21 sigri.

Næsti leikur liðsins er gegn margföldu meistaraliði Vals á útivelli næstkomandi laugardag.

Mörk KA/Þórs:  Susanne Denise Pettersen 6, Tinna Valgerður Gísladóttir 5, Unnur Ómarsdóttir 3, Trude Blestrud Hakonsen 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 2, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 1, Lydía Gunnþórsdóttir 1, Ólöf Kristín Þorsteinsdóttir 1.

Varin skot: Matea Lonac 12, Bernadett Leiner 1.

Mörk ÍR: Sara Dögg Hjaltadóttir 6, Vaka Líf Kristinsdóttir 5, Katrín Tinna Jensdóttir 3, Dagbjört Ýr Ólafsdóttir 2, Matthildur Lilja Jónsdóttir 2, Sylvía Sigríður Jónsdóttir 2, Sif Hallgrímsdóttir 1.

Varin skot: Sif Hallgrímsdóttir 8, Ingunn María Brynjarsdóttir 1.

Staðan í deildinni