Fara í efni
Íþróttir

Dagur Gautason er kominn heim í KA

Dagur Gautason í leik með ØIF Arendal í Noregi. Mynd af vef norska félagsins.

Handboltamaðurinn Dagur Gautason er orðinn leikmaður KA á ný eftir fimm og hálfs árs fjarveru skv. heimildum akureyri.net. Hann kemur frá norska liðinu ØIF Arendal og fullyrða má að þessi snjalli hornamaður verður KA-mönnum gríðarlegur styrkur.

Dagur, sem verður 26 ára eftir nokkrar vikur, hóf ferilinn í KA en gekk til liðs við Stjörnuna haustið 2020 þegar hann fór suður til náms. Dagur samdi síðan við norska liðið ØIF Arendal sumarið 2023, hann sló í gegn Noregi og var kjörinn besti vinstri hornamaður norsku deildarinnar á fyrsta keppnistímabili.

Dagur lék með franska stórliðinu Montpellier seinni hluta síðasta vetrar – var fenginn þangað eftir að sænski hornamaðurinn Lucas Pelle sleit hásin, og KA-maðurinn varð franskur bikarmeistari með liðinu. Hann samdi á ný við ØIF Arendal í Noregi í sumar og hefur staðið sig vel en liðinu hefur ekki gengið sem skildi.

KA er í fimmta sæti Olísdeildarinnar að 15 leikjum loknum og leikur í undanúrslitum bikarkeppninnar 26. febrúar.

  • VIÐBÓT – Frétt um félagaskipti Dags birtist á heimasíðu KA nánast á sama augnabliki og frétt akureyri.net. Smellið á myndina hér að neðan til að lesa fréttina á heimasíðu KA.

 

Dagur Gautason og Andri Snær Stefánsson fagna sigurmarki Dags á lokasekúndunni gegn ungmennaliði ÍBV í B-deild Íslandsmótsins í september 2017. Andri Snær er þjálfari KA í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson