Fara í efni
Pistlar

Afi í apóteki

Afar á sjötugsaldri geta átt á hættu að vera enn lengra utan við sig en yngri menn. Það verður til dæmis sífellt algengara að ég hyggist borga vörur við afgreiðsluborð með símanum mínum en gríp í tómt þegar ég seilist eftir honum. Það getur verið mjög vandræðalegt, ekki síst ef röðin er löng sem þarf að bíða á meðan ég hleyp út í bíl eftir símanum.

Enn neyðarlegra verður það ef ég kemst að því í bílnum að ég hafi gleymt símanum heima.

Til að fyrirbyggja þannig uppákomur hef ég komið mér upp ákveðinni tækni sem hefur ekki brugðist muni ég eftir að nota hana: Á leið minni frá bílnum inn í verslunina þreifa ég á vösunum til að finna fyrir símanum mínum. Ef þuklið gefur til kynna að vasarnir séu án síma sný ég snarlega við og sæki hann, í bílinn eða heim.

Með hverju árinu sem líður fjölgar heimsóknum afans í apótek. Nýlega átti ég erindi þangað og áður en ég lauk þar upp dyrum beitti ég tækninni góðu og renndi fingrum yfir frakkavasana. Þegar ég fann fyrir símanum í þeim vinstri réðst ég til inngöngu í verslunina og gekk glaðbeittur að afgreiðsluborðinu.

Indæl stúlka sótti það sem mig vanhagaði um og nefndi upphæðinu sem ég átti að greiða.

Ég stakk hendinni brosandi í frakkavasann vinstra megin og dró hróðugur upp símann enda hafði viðurvist hans verið sannreynd örskömmu áður. Þegar ég gerði mig líklegan til að leggja gripinn á kortalesarann hjá stúlkunni kom á hana skrýtinn svipur. Varð mér þá litið niður á símann minn.

Hann reyndist vera Sálmabók íslensku þjóðkirkjunnar.

Ég reyndi að telja mér trú um að eitt andartak hafi örlað á aðdáunarglampa í augum afgreiðslustúlkunnar því sá sem borgar fyrir meðulin sín með sálmabók hlýtur að hafa aðdáunarverða trú á mætti sálma.

Þegar mistökin voru orðin ljós öllum viðstöddum og sjálfum mér líka setti ég upp vandræðalegt afsökunarbros og þóttist töluvert hissa á þessum vitleysisgangi í mér. „Nei, ég get auðvitað ekki notað þetta,“ sagði ég og bætti við. „Ég skýst út í bíl eftir símanum.“

Um leið og ég snéri mér við rakst ég á mann sem stóð þar og hafði fylgst með þessum aðförum. Ég sýndi honum sálmabókina og sagðist hafa ruglast á henni og símanum mínum ofan í vasanum. Maðurinn setti upp ógurlegan undrunarsvip og sagði: „Nú, má ekki lengur borga hér með sálmabókinni?“

Svavar Alfreð Jónsson er sjúkrahúsprestur

Alsæll utan þjónustusvæðis

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Traust

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Niðurlægðir af reykingamönnum

Orri Páll Ormarsson skrifar
04. október 2024 | kl. 17:00

Skógar á mannlausu Íslandi

Sigurður Arnarson skrifar
02. október 2024 | kl. 09:30

Bleikur mánuður

Hildur Eir Bolladóttir skrifar
01. október 2024 | kl. 15:00

Nokkur heilræði varðandi gervigreind

Magnús Smári Smárason skrifar
01. október 2024 | kl. 09:30