Fara í efni
Minningargreinar

Aðalgeir Aðalsteinsson

Nú hefur sagnaþulurinn Aðalgeir Aðalsteinsson sagt sína síðustu sögu.  Eða hvað? Kannski er hann rétt að byrja. 

Tengdafaðir minn trúði því staðfastlega að annað líf taki við eftir jarðvistina. Hann þekkti nokkuð til annarra vídda enda var hann árum saman dyggur aðstoðarmaður þekktasta læknamiðils landsins. Og ef trú hans reynist rétt er hann kominn á annan stað. Þar veit ég að hann hefur frá mörgu að segja. Líkast til byrjar ferðasagan eitthvað á þessa leið: „Ég var víst búinn að vera nokkra daga á sjúkrahúsinu á Akureyri. Frostið hafði gengið niður og hún Stína mín var komin frá Ameríku og þá var mér ekkert að vanbúnaði. Þetta var að morgni þriðjudagsins 23. janúar. Klukkan var rétt að verða níu þegar ég lagði af stað, færið var gott og farið var að birta af degi.“ Sagan hefur síðan haldið áfram dágóða stund þar sem Aðalgeir hefur með sinni seiðandi en ákveðnu rödd lýst ferðalaginu ítarlega og  engu sleppt. 

Aðalgeir var maður allra góðra dygða og viðhafði ávallt þau gildi sem hann ólst upp við sem drengur í Reykjadalnum. Hann var afar nægjusamur og vildi helst ekkert af öðrum þiggja en rausnarlegur var hann við sitt fólk. Vinir hans á langri ævi, kórfélagar, samkennarar og vandamenn skipuðu stóran sess í lífi hans og hjálparhönd lagði Aðalgeir fram, hvenær sem hennar var þörf.

Tengdapabbi var afskaplega frændrækinn og mikill áhugamaður um ættir og uppruna allra sem á vegi hans urðu. Enginn sem hann hitti komst undan því að rekja ættir sínar og þannig gat Aðalgeir hafið líflegar samræður við ókunnugt fólk. Oftar en ekki var viðkomandi frænka hans eða frændi þótt tengingarnar væru stundum frekar langsóttar. Frá þessum „skyldleika“ sagði hann okkur oft með prakkaralegu glotti. Honum þótti það óneitanlega kostur ef fólk var ættað úr Þingeyjarsýslunum en best var ef hægt var að finna tengingu við Reykjadal.

Nú hefur Aðalgeir haft vistaskipti. Það var örugglega tekið vel á móti honum með hljómmikilli tónlist og kröftugum karlakór þar sem hann er kominn sinn stað í öðrum bassa.  

Ég minnist Aðalgeirs Aðalsteinssonar með sorg í hjarta, hlýhug og virðingu.

Þorsteinn G. Gunnarsson

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Ingibjörg Gústavsdóttir

Úlfar Bragason skrifar
19. ágúst 2024 | kl. 06:00