Fara í efni
Minningargreinar

Trausti Adamsson

Trausti Adamsson

Þegar ég rifja upp 27 ára viðkynningu og síðan vinskap við Trausta Adamsson er ég fullur þakklætis og virðingar fyrir mannkostum hans.

Árni bróðir minn og ég höfðum fest kaup á 20 tonna eikarbát með það markmiði að blása nýju lífi í skipið. Þó ekki til fiskveiða, heldur til að sigla honum við strendur Íslands í faðmi fjölskyldna okkar og upplifa náttúruna, nú að segja frá nýu sjónarhorni.

Við fengum ábendingu um að Trausti gæti gert það sem við hefðum í huga. Þegar ég spurði hann hvort hann væri til í tuskið með okkur bræðrum var svarið þetta: „Já, ég skal gera það. Skemmtilegasta sem ég hef gert er að byggja báta.“

Lítum stuttlega yfir sögu tréskipasmíða í landinu á 20. öld. Um 1930 hvöttu stjórnvöld til þróunar skipasmíða í landinu og reyndin varð sú að næstu áratugi óx tréskipaiðnaði slíkur fiskur um hrygg að hann varð samkeppnisfær við skip frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Norður-Þýskalandi og það styrkjalaust.

Svo gerðist hið óumflýjanlega þegar græðgisvæðingin náði nýjum hæðum. Þjóðin hafði náð að stöðva lítt heftar veiðar erlendra togskipa innan fiskveiðilögsögu sinnar og norsk- íslenska síldin varð úr sögunni um svipað leyti. En við sátum ein þjóða að landgrunninu. Í kringum 1970 hófst gengdarlaus skuttogaravæðing Íslendinga á botnfisktegundir okkar.

Ekki liðu mörg ár þar til stjórnvöldum varð ljóst að sjálfsstjórn okkar á fiskimiðunum leiddi af sér grafalvarlega ofveiði og við því varð að bregðast.

Lykilorðin urðu „minnkum flotann.“ Settur var á stofn 1990 opinber úreldingarsjóður, hverjum falið var að greiða fiskiskipaeigendum fyrir að selja skipin úr landi eða eyðileggja þau. Afleiðingin varð sú að nú tóku hin einstöku menningarverðmæti, eikarskip íslenskra fiskimanna að rjúka í reykjarstrókum út í loftin blá.

Þetta varð Trausta gríðarlegt áfall sem og öðrum tréskipasmiðum þjóðarinnar. Þeim sem til þekktu var ljóst að þegar hinn sjálfbæri íslenski skipasmíðaiðnaður var rotaður í einu höggi af lánastofnunum og ríkinu væri verið að binda endi á þúsunda ára þróun í smíði tréskipa. Ekki bætti það úr skák að nú dugði hinni nýju stétt bátasmiða hér stutt námskeið til að öðlast réttindi til að smíða hinn nýja plastbátaflota þjóðarinnar. Samanborið við að til að öðlast tréskipskipasmíðaréttindi þurfti fullt iðnnám.

Mér finnst eins og gerst hafi í gær að þeir feðgar Trausti og Stebbi komu til Húsavíkur til að leggja á ráðin með okkur bræðrum hvernig best færi á að breyta fiskilest bátsins í allt í senn, borðsal, eldhús og hvílur - á sjómannamáli kojur. Þessi heimsókn feðganna var um mitt sumar 1994 og þar hófst margra ára samstarf um að gera fyrrum fiskibáta að farþegaskipum.

Í okkar munni fengu þeir feðgarnir og þar með talinn Addi, sæmdarheitið proppar. Proppur er nákvæmur trétappi sem mikið magn er af í eikarbátunum. Rétt settur proppur í skipi er augnayndi.

Mótleikur Trausta var þegar við mættum til starfa á Óseyrarverkkstæði þeirra. „Þarna koma fernisbræður.“ Um fernisolíu var okkur Húsvíkingum tíðrætt því við notuðum þá náttúrulegu viðarolíu í ómældu magni.

Þeir sem manninn þekktu munu sjá hann fyrir sér með sitt fallega bros, kryddað grallaralegri glettni.

Svona var Trausti. Alltaf vingjarnlegur, gæddur einstakri vinnugleði og í raun hvers manns hugljúfi. Um sómamanninn Trausta munu áfram lifa margar góðar sögur.

Nafntogaður og umsvifamikill bátasmiður á fyrri hluta 20. aldar hét Nói og var hans athafnasvæði á Oddeyrinni. Um það leyti sem hugur þeirra Gulla og Trausta snerist frá húsasmíðum til bátasmíða leituðu þeir til Nóa eftir teikningum. Nói sagði þeim að þeir fengju engar teikningar hjá sér því hann hefði þær allar í hausnum. Það varð þá til þess að þeir tóku að leita í reynslubanka Nóa með því að vinna hjá honum og það varð þeim lærdómsríkur skóli og svo fór að Nói tók að kalla þessa ungu menn Fyglingana sína en úr hanns munni var það virðingar- og vináttumerki mikið.

Faðir minn Sigurbjörn lagði verkefnum okkar ómælt lið um margra ára skeið. Hann kunni vel að meta hið einstaklega skemmtilega skopskyn Trausta. Eitt sinn sagði Trausti pabba frá því að í einni af helgarferðum þeirra Gulla og Trausta með starfsmönnum sínum lá leið þeirra út á Flateyjardal. Þetta var snemma sumars, sól skein í heiði og náttúran skartaði sínu fergursta. Í hópnum ríkti mikil gleði og á þess tíma mælikvarða voru fararskjótum leiðangursins flestir vegir færir og skyldi nú aka yfir vaðið á Jökulsá. En þá kom babb í bátinn. Áin var í foráttuvexti og enganvegin bílfær. Nú voru góð ráð dýr, hvað skyldi til bragðs taka?

Þetta er allt í lagi sagði Trausti, við bara stökkvum yfir. Þá sagði Reynir bróðir hans „Ertu vitlaus maður og ætlar þú þá að stökkva fyrst?“ Já, sagði Trausti og bætti við „kemur þú ekki á eftir?“ Trausti var mikið heljarmenni og lét sér fátt fyrir brjósti brenna. Nú tók hann langt tilhlaup og stökk, en náði þó ekki nærri því út í miðja á, sem náði honum upp undir hendur.

Hann buslaði til baka skellihlæjandi og samferðamönnum var stórlega létt.

Þá spurði pabbi: „En stökk þá ekki Reynir á eftir?“

„Nei, hann vildi ekki stökkva, hann var á strigaskóm“, svaraði Trausti skælbrosandi.

Við hjónin þökkum samfylgdina og munum geyma með okkur allar hinar góðu minningar.

Hörður Sigurbjarnarson

Þorleifur Jóhannsson - minning

11. janúar 2021 | kl. 06:45

Þorleifur Jóhannsson

Inga Dagný Eydal skrifar
11. janúar 2021 | kl. 06:50

Ágúst H. Guðmundsson

Ásmundur Hreinn, Bjarni Ármann og Guðmundur Ævar Oddssynir skrifa
13. janúar 2021 | kl. 07:00

Þorleifur Jóhannsson

Símon Jón Jóhannsson skrifar
11. janúar 2021 | kl. 09:30

Þorleifur Jóhannsson

Sævar Benediktsson skrifar
11. janúar 2021 | kl. 10:30

Ágúst H. Guðmundsson

Guðrún Gísladóttir skrifar
13. janúar 2021 | kl. 07:00