Fara í efni
Minningargreinar

Tinna B. Malmquist Gunnarsdóttir

Elsku fallega vinkona mín

Hugtakið þeir deyja ungir sem guðirnir elska á svo sannnarlega vel við núna en samt svo óskiljanlegt. Mér finnst þetta óréttlátt og vont. Af hverju er Tinna tekin úr blóma lífsins frá börnunum sínum? Af hverju þurfa Jóna og Gunni að jarða stelpuna sína? Af hverju þurfa systkini hennar að kveðja hana í hinsta sinn núna þegar þau áttu eftir að gera svo margt saman? Af hverju þurfum við vinkonur hennar að halda áfram án hennar? Af hverju fá börnin hennar ekki að hafa klettinn sinn hjá sér lengur? Ég á erfitt með að botna neitt í neinu og mun aldrei skilja af hverju þetta þurfti að gerast. Ég er hálf ráðalaus og svörin við þessum spurningum mun ég aldrei fá.

Síðustu dagar hafa liðið hjá í móðu og minningarnar sækja endalaust á mig. Hugur minn hefur verið hjá yndislegu börnunum þínum þremur, Ívari, Mikka og Jónu Rún sem þú varst svo endalaust stolt af, foreldrum þínum og systkinum. Þið voruð ótrúlega samrýmd og flott fjölskylda sem ég var svo heppin að fá að vera partur af þegar við vorum að alast upp. Það eru margar minningar sem skjóta upp kollinum þegar ég hugsa til baka enda löng og falleg vinátta sem við áttum. Ég sé þig fyrir mér að stökkva upp stigann í Skarðshlíðinni í rauðu Adidas buxunum þínum, búin að bretta þær að lágmarki þrisvar sinnum í mittið en samt gekkstu enn á þeim. Þegar þú gösslaðist upp stigann þá brakaði svo mikið í ökklunum á þér að ég skildi ekki að þér væri ekki illt í fótunum, en svo var ekki. Á sama tíma þá langaði mig mjög mikið að það brakaði líka í mínum ökklum því það var bara eitthvað svo töff.

Vinskapur okkar hófst þegar við fengum báðar að fara með feðrum okkar á handboltaæfingar, það var svo gaman að fá að leika í höllinni eða skemmunni á meðan þeir gömlu sprikluðu. Árin í Glerárskóla, þaðan eru margar fallegar minningar frá grunnskólaárunum. Allar handbolta- og fótboltaæfingarnar og öll þau keppnisferðalög sem fylgdu.

Það voru margar ferðirnar sem við fórum í Essó nesti með tíkalla í poka svo þú gætir hringt í vini þína sem við kynntumst á handbolta eða fótboltamótum. Öll bréfin sem við sendum á milli, bæði þegar ég bjó í Svíþjóð og svo síðar þegar þú bjóst á Ísafirði.

Eftir að þú áttir Ívar þinn þá fórum við í sitthvora áttina en vissum alltaf af hvor annarri. Þú að ala hann upp og ég enn barnlaus og að finna þá leið sem ég ætlaði að feta en ég var alltaf ótrúlega stolt af þér. Árin liðu og sem betur fer þá tókum við upp þráðinn aftur og höfum hist reglulega síðan. Þær stundir með crewinu okkar eru dásamlegar og svo miklu mikilvægari núna en maður gat hugsað sér. Nú síðast í óvænta fertugsafmælinu mínu sem þið plönuðuð fyrir mig. Kveðjan frá þér í gestabókina er dýrmæt en ljúfsár núna. Þú minnist á allar milljón minningarnar sem við höfum átt saman og þær milljón sem við ætluðum að skapa í viðbót. Þær verða því miður ekki fleiri á þessari hringferð okkar saman á jörðu niðri en við munum skapa þær fleiri þegar kemur að okkar tíma aftur saman. Ég veit að þú munt fylgja okkur vinahópnum og vera með okkur í því sem við munum gera saman og trúðu mér þegar ég segi að þú verður alltaf með okkur í hjörtum okkar. Ég get einhvern veginn ekki hugsað mér hittingana án þín, þú varst á þinn einlæga hátt límið sem hélt okkur saman og áttir oftar en ekki frumkvæðið af þeim. Það verður enn mikilvægara að við höldum áfram að hittast og höldum minningu þinni þannig á loft í okkar innsta hring. Það sem ég mun sakna þín mikið elsku fallega Tinna mín.

Ef ég ætlaði mér að rifja upp allar stundirnar okkar hér þá yrði þetta að marga binda bókaflokki. Eins væri sumt alls ekki birtingarhæft. Allar þessar minningar mun ég ég geyma um alla tíð fyrir mig og rifja upp yfir bland í poka og eðlu og fá mér pepsi max fyrir þig þó svo að þú vitir að ég velji alltaf coke frekar. Það sem ég er þakklát fyrir vináttuna okkar.

Þessi kveðjustund er svo sannarlega ótímabær og ósanngjörn og eftir sitjum við með hjörtun brotin í milljón parta sem þekktum þig. Ég mun gera mitt besta til þess að standa þétt við bakið á fólkinu þínu og halda minningu um dásamlega mömmu, dóttur, systur og vinkonu á lofti. Þú fékkst ýmis verkefni í fangið en aldrei nokkurn tímann heyrði ég þig kvarta. Síðustu ár fannst mér þú gjörsamlega vera að blómstra og það skein af þér, þú varst að rækta sjálfa þig og það sást langar leiðir.

Uppáhaldslagið okkar sumarið eftir fermingu var I´ll be missing you. Ég hef ekki enn fengið mig til þess að hlusta á lagið, ég er ekki tilbúin í það. Ég ætla senda þér lagið nú þegar ég kveð þig og hafa það lokaorð mín til þín.

Elska þig alltaf elsku fallegi engillinn minn.

Þín vinkona,

Inga Dís

Þór Sigurðsson

Valgerður H. Bjarnadóttir skrifar
10. júní 2024 | kl. 11:00

Þór Sigurðsson

Kristín, Sigurður og Herdís skrifa
10. júní 2024 | kl. 10:30

Þór Sigurðsson

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 10:30

Þór Sigurðsson

Hörður Geirsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 09:30

Þór Sigurðsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 06:00

Þór Sigurðsson – lífshlaupið

10. júní 2024 | kl. 06:00