Fara í efni
Minningargreinar

Þorleifur Jóhannsson

Á Þorláksmessu andaðist minn ljúfi bróðir, Þorleifur Jóhannsson, Leibbi trommari, eftir stutta en snarpa baráttu við krabbamein. Við vorum bara tveir bræðurnir í Klettaborginni á Akureyri en alla tíð var mjög gott í bræðralagi okkar. Leibbi var sex árum eldri en ég og hann var því stóri bróðir minn sem ég setti allt traust á í barnæsku. Þrátt fyrir þennan aldursmun vorum við samrýndir og brölluðum margt saman. Snemma átti tónlist huga Leibba allan, hann lærði ungur á harmóniku en fljótlega vaknaði áhugi hans á trommuleik og það varð hans aðalhljóðfæri þótt hann væri einnig vel liðtækur á gítar og önnur hljóðfæri. Þrettán ára varð hann trommuleikari í bítlahljómsveitinni Bravó sem meðal annars gerði garðinn frægan þegar þeir hituðu upp fyrir bresku hljómsveitina Kinks á tónleikum í Austurbæjarbíói í Reykjavík árið 1965. Það var ekki ónýtt að vera litli bróðir Leibba í Bravó. Síðar leik Leibbi í nokkur ár með Hljómsveit Ingimars Eydal, Upplyftingu og ýmsum fleiri hljómsveitum ævina á enda.

Leibbi var ljúfmenni, skemmtilegur og vinmargur. Ég man hann aldrei reiðan þótt auðvitað gæti honum mislíkað og sárnað eins og öðrum. Hann lærði húsgagnasmíði og var handlaginn og listfengur, margir fallegir smíðisgripir sem hann gerði prýða heimili mitt. Þá var hann góður teiknari, teiknaði meðal annars mig og fleiri skólasystkini mín í Carmínu, útskriftarbók MA-stúdenta. Síðustu átján árin starfaði Leibbi við smíðakennslu í VMA. Honum leið vel í því starfi og lynti einstaklega vel við nemendur sína. Oft bárum við saman bækur okkar um kennslu og skólastarf. Fyrir ári fór Leibbi á eftirlaun og hugðist sinna hugðarefnum sínum en sá tími varð styttri en við var búist.

Í gegnum tíðina ferðuðumst við bræður talsvert saman og nærvera hans var alltaf góð og skemmtileg. Við vorum búnir að skipuleggja sérstaka ferð til Skotlands en slógum henni á frest vegna heimsfaraldursins. Leibbi hafði góðan húmor, sá oft hið skondna í aðstæðum lífsins og oft hlakkaði ég til þess að segja honum eitthvað skemmtilegt sem ég hafði heyrt. Þótt við byggjum hvor á sínu landshorninu sóttum við hvor annan reglulega heim og töluðum oft saman í síma og þá dugði yfirleitt ekki minna en klukkutími. Leibbi var einn af þeim mönnum sem alltaf var hægt að leita til í stóru sem smáu og við vorum trúnaðarvinir alla hans ævi. Hann var einstakur fjölskyldumaður og börnin hans nutu góðs af því. Mér þótti ekki vænna um nokkurn mann, fyrir utan börnin mín, en hann. Hann var líka góður frændi og dætrum mínum þótti einstaklega vænt um hann. Elsku Ellen, Rakel, Agnes, Einar Freyr og Sverrir Freyr, við Salka María og Sara Björt vottum ykkur okkar innilegustu samúð og biðjum góðan guð að styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.

Elsku bróðir minn með ljónshjartað, gangi þér vel á guðs vegum og við hittumst svo aftur í Nangiala þegar þar að kemur.

Símon Jón.

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Freyja Rögnvaldsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Daníel Snorrason

Valur Ásmundsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 09:45

Daníel Snorrason

Björn Björnsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 06:05

Daníel Snorrason – lífshlaupið

04. apríl 2024 | kl. 06:00