Þorgerður Stefanía Halldórsdóttir

Það er alltaf sárt þegar ástkærir vinir eða ættingjar fara yfir móðuna miklu en nú er komið að slíkri stund þegar ég þarf að kveðja eina af mínum kærustu konum eftir erfið veikindi.
Gerða, Þorgerður Stefanía Halldórsdóttir kom fyrst inn í líf mitt þegar bróðir minn kom með hana heim til að kynna hana fyrir foreldrum okkar sem verðandi eiginkonu. Í augum 7 ára barns var hún sannkölluð prinsessa með sitt síða fallega hár, ljómandi bros og titrandi augu. Hún var þó aldrei hjálparvana prinsessa sem sat með hendur í skauti og beið eftir björgun heldur var hún ráðagóða hetjan sem bjargaði sér sjálf.
Gerða varð ekki bara mágkona mín heldur líka stóra systir, vinkona, ráðgjafi og hjálparhella í gegnum þá rúmu fimm áratugi sem við áttum saman. Hún var einstök kona sem þrátt fyrir ýmis áföll í lífinu var alltaf jákvæð, hvetjandi og til í glens og grín. Ekki vantaði heldur hjálpsemina og þegar ég flutti aftur norður nýútskrifaður kennari með nokkurra vikna son í fanginu var það hún sem passaði hann fyrir mig allan fyrsta veturinn meðan ég var í stundakennslu.
Bróður mínum var Gerða yndisleg eiginkona og vinur og þau studdu vel við hvort annað í gegnum brimskafla lífsins hvar sem þau voru stödd þá stundina, hérlendis eða erlendis og saman voru þau höfðingjar heim að sækja og við áttum með þeim margar góðar stundir á Akureyri, Svíþjóð og Spáni.
Gerða var frábær mamma og síðar umhyggjusöm amma og langamma sem elskaði að vera með fólkinu sínu, bjóða í mat, kaffi eða gott spjall þar sem hún var bæði ákaflega góður hlustandi og einstaklega hreinskilin.
Gerða var sérlega laghent, smekkleg og dugleg í öllu sem hún tók sér fyrir hendur hvort heldur sem það var á vinnumarkaðnum eða heima fyrir og má þar nefna allar fallegu flíkurnar sem hún saumaði og prjónaði í gegnum tíðnina.
Elsku Brói, Villa, Helena og Halla María, missir ykkar og fjölskyldna ykkar er mikill en við eigum öll dásamlegar minningar um einstaka hetju sem kenndi okkur svo margt.
Halla, Stefán og fjölskylda


Þorgerður Stefanía Halldórsdóttir – lífshlaupið

Heimir Þorleifur Kristinsson

Heimir Þorleifur Kristinsson

Heimir Þorleifur Kristinsson – lífshlaupið
