Þorgerður Stefanía Halldórsdóttir

Elsku mamma mín,
Þegar ég sest niður til að skrifa til þín er þakklæti það fyrsta sem kemur upp í hugann. Þakklæti fyrir að hafa fengið að vera dóttir þín, fyrir hlýtt og gott uppeldi sem einkenndist af ást, umhyggju og samveru. Þú varst með svo stórt og fallegt hjarta, umvafðir alla með hlýju, brosinu þínu og nærveru þinni.
Líf þitt var litríkt, með hæðum og lægðum eins og hjá flestum en þú tókst á við áskoranir með ótrúlegri seiglu, gleði og krafti. Þú varst sannur nagli, bognaðir sjaldan, kvartaðir nánast aldrei og varst alltaf jákvæð. Húmorinn var aldrei langt undan, jafnvel á erfiðustu stundum. Fáir bera með sér þann styrk sem þú sýndir í veikindum þínum.
Þú varst lífsglöð, vildir hafa fólkið þitt í kringum þig og njóta lífsins. Þú varst glæsileg kona, það sögðu allir og jafnvel í fyrstu lyfjameðferðinni þinni var talað um hvað þú værir mikil skvísa, alltaf fín og falleg.
Þú varst áræðin, húmorísk, dugleg, hjálpsöm og vinnusöm. Einstök manneskja með opinn faðm og hjarta fullt af hlýju. Ég er afar þakklát fyrir að vera örverpi, allt sem ég fékk að upplifa með þér og pabba, m.a. flytja erlendis til tveggja landa, upplifa nýja menningu og læra ný tungumál – þetta gerðum við saman. Ég er þakklát fyrir allar stundirnar okkar, hvað þú hefur verið börnunum mínum góð, fyrir fallega hjartað þitt.
Þú varst mikil húsfreyja, allt á sínum stað, fötin straujuð og heimilið alltaf fínt. Það fór alveg í þínar fínustu hvað ég er léleg að brjóta saman þvott enda hlógum við ósjaldan að hæfileikum mínum í þeim efnum, ég mun aldrei ná með tærnar þar sem þú hafðir hælana.
Þú varst einstaklega listfeng og lagin við margt. Pönnukökurnar þínar voru óviðjafnanlegar og kökurnar sem þú bakaðir alltaf dásamlegar. Þú varst afburða kokkur og kunnir vel til verka með prjónana. Hannyrðir voru þér hjartans mál og þú prjónaðir af mikilli ástríðu. Þú naust þess að skapa falleg og persónuleg verk og er heimfararsettið sem þú prjónaðir fyrir nýjasta langömmubarnið einstaklega fallegt.
Þú varst næm og tilfinningarík kona og áttir afar auðvelt með að setja þig í spor annarra. Þú barst ávallt umhyggju fyrir öllum í kringum þig og hef ég reynt að taka alla þína góðu eiginleika mér til fyrirmyndar.
Ég á eftir að sakna þess að heyra röddina þína. Þú hringdir á hverjum degi í okkur systur, bara til að athuga hvort allt væri í lagi. Þú umvafðir okkur með hlýju, brosi og nærveru og varst ávallt trygg fjölskyldu og vinum.
Þú kenndir mér svo margt. Að lífið væri ekki alltaf dans á rósum en að það væri alltaf hægt að finna fegurðina í litlu hlutunum. Að fjölskyldan væri það sem skipti mestu máli og að samvera með sínum nánustu og jákvætt hugarfar væru lykillinn að lífsgleði.
Þú verður alltaf með mér, elsku mamma. Í hjartanu mínu, í minningunum, í brosinu sem ég gef börnunum mínum og í hlýjunni sem ég reyni að miðla áfram, hlýju sem ég lærði af þér. Þó að þú sért farin, þá lifir þú áfram í öllu því sem þú gafst og í öllu því sem þú kenndir mér. Ég mun halda áfram að elska þig, sakna þín og heiðra minningu þína – alla daga.
Takk fyrir allt, elsku mamma.
Þín,
Halla María


Þorgerður Stefanía Halldórsdóttir – lífshlaupið

Heimir Þorleifur Kristinsson

Heimir Þorleifur Kristinsson

Heimir Þorleifur Kristinsson – lífshlaupið
