Fara í efni
Minningargreinar

Þór Sigurðsson

Vinur minn Þór Sigurðsson sem var ofsettljósmyndari, safnvörður, húsvörður, hestamaður, sagnamaður og söngvari er nú farinn í Sumarlandið. Hann var ráðinn á Minjasafnið á Akureyri til að leysa mig af í tvö ár, á síðustu dögum júlímánaðar 2002, og sá hann um ljósmyndadeildina næstu árin. Hann var síðan ráðinn í ýmis störf á Minjasafninu eftir að ég kom til baka 2004, eftir það deildum við skrifstofu og var það gaman.

Þau voru mörg símtölin sem hann tók við vini sína um hestamennsku og var tungumálið ákaflega sérstakt, orðin forn og oftast leikur í að raða saman einkennum hesta, holdafari, litarfari, gæðum og geðslagi, orð sem voru á mörkunum að maður skildi, en samt næstum því.

Oft komu inn til okkar skjólstæðingar hans, sem hann hafði séð aumur á, td. var einn, ættaður úr Húnavatnssýslu, sem hann hjálpaði við innkaup á nauðsynjum og skrifaði einnig fyrir hann öll jólakortin, í mörg ár. Auk þeirra komu fjölmargir til hans að spjalla um hestamennsku, eða allt það sem Þór hafði áhuga á. Var það fólk tengt Fnjóskadal, Eyjafirði og síðan úr hans heitt elskaða Vatnsdal í Húnavatnssýslu, þar sem hann hafði farið í sveit á unga aldri.

Söngur var ein af hans náðargáfum, enda með bassarödd mjög góða. Hann var í fjölda kóra og söng við ótal útfarir og var oft pantaður. Fyrir einhverjum árum hafði Haraldur Sigurðsson tekið upp á því að færa Þór geisladiska með söng rússneskra bassasöngvara og töluðu þeir saman um þá eins og hverja aðra heimilisvini. Síðan kom að því að Lalli Sig átti stórafmæli og bað hann Þór að syngja í afmælinu í Oddfellow húsinu. Hóf Þór nú að syngja á rússnesku og hvatti afmælisbarnið hann áfram, og urðu lögin all mörg. Eftir á sagði Þór að hann hefði verið fegnastur að í salnum var ekki neinn sem kunni rússnesku því hann hafi verið farinn að rugla saman lögunum og einnig textunum, en allir héldu að þetta hefði átt að vera svona, var oft hlegið að þessu eftirá.

Sagnamaðurinn Þór var einstakur, og fannst honum allra best þegar hann sagði mergjaðar draugasögur og ef honum tókst vel upp með endinn og gera hlustendum hverft við ljómaði kallinn. Hann tók mikinn þátt í Draugagöngu eða Draugaslóð Minjasafnsins í Innbænum á Akureyri í fjölda ára og þótti fátt skemmtilegra. Hann kunni þjóðsögurnar utan að og vitnaði óspart í þær, og var oft að hugsa um eitthvað samhengi í þeim, sem bara fræðimenn leggja á sig.

Hann var ekki bara alinn upp á Akureyri heldur einnig í Sellandi í Fnjóskadal, yngstur í stórum systkinahópi. Þegar hann var þar gat hann gleymt símanum og verið í eigin heimi að brasa við skógræktina eða endalaust að fást við heimarafstöðina, ríða út og suður og að fást við heyskap, þarna var draumurinn um að verða bóndi honum næstur.

Við áttum að mörgu leyti svipaða göngu í gegnum lífið, hvorugur drukkið og þar með verið ungir bílstjórar fyrir félaga okkar sem þurftu að fara á böll víðsvegar á Norðurlandi, og gátum dansað án áfengis. Báðir höfðum við misst eiginkonu frá ungum börnum sem leiddi til þess að við gátum talað um afleiðingar þess á opinn hátt án allrar viðkvæmni. Þór hjálpaði mér mikið með því að hlusta og ræða málin þegar djúpið á dimmu dögunum sótti að, því sorgarúrvinnsla er ekki sjúkdómur heldur eðlileg afleiðing ástvinamissis. Þarna var Þór sterkastur.

Ég sakna góðs vinar, sem var alltaf jafn gaman að hitta eða spjalla við í síma. Ástvinum hans, Þórdísi, Sigurði, Stefáni og augasteinunum hans barnabörnunum, votta ég mína innilegustu samúð, og er viss um að hann verður með þeim allar stundir.

Hörður Geirsson

Jón Bjarnason

Íþróttafélagið Þór skrifar
12. júlí 2024 | kl. 10:30

Jón Bjarnason – lífshlaupið

12. júlí 2024 | kl. 10:20

Jóhann Sigtryggsson

Magnús Ingólfsson og Ólafur Þór Ævarsson skrifa
09. júlí 2024 | kl. 12:00

Sigríður Árnadóttir

Baldur Már, Andri Snær og Ágúst Stefánssynir skrifa
26. júní 2024 | kl. 06:00

Sigríður Árnadóttir

Friðrika Tómasdóttir skrifar
26. júní 2024 | kl. 06:00

Sigríður Árnadóttir

Stefán, Helgi, Hólmfríður, Sigríður, Eiríkur S. og Jónína Þuríður skrifa
26. júní 2024 | kl. 06:00