Fara í efni
Minningargreinar

Þór Sigurðsson

Orð ná ekki utan um minningar um Vósa frænda, móðurbróður okkar. Vósi var einstakur maður og eins og einn af sonum okkar sagði, „hann var í alvörunni einstakur“.

Sælureitur stórfjölskyldunnar er Selland í Fnjóskadal sem fær töfra sína frá Vósa og náttúrunni. Ekki er hægt að hugsa um Selland án Vósa og Vósa án Sellands. Það eru tvö lögmál í fjölskyldunni, að öll börn elska Vósa frænda og öll börn elska Selland. Þegar við ræddum við börnin okkar var samhljómur hjá þeim öllum, og okkur systkinunum líka, um hvað hann var einstaklega hlýr og góður og við sóttumst eftir því að vera í návist hans. Ef Vósi var ekki í Sellandi þá vantaði eitthvað í Sellandsferðina.

Vósi var líka magnaður sögumaður. Sögurnar urðu ljóslifandi og við börnin trúðum þeim sem heilögum sannleika. Sannfæringarkrafturinn var svo mikill að við vorum sannfærð um að hann hefði barist við beinagrindakónginn með sverðunum sem hanga í stofunni í Sellandi. Hann hafði endalausa ánægju af því að leika við öll börn í fjölskyldunni og kom óumbeðinn til að sækja okkur eða þau og fara með í ævintýraferðir um Selland og nágrenni. Hann var ekki bara góður í að skálda ævintýrasögur heldur var hann líka einstaklega fróður um öll örnefni, holt og hæðir og sér í lagi í Sellandslandi.

Vósi elskaði fátt meira en að vera í náttúrunni og innan um hrossin sín. Við börnin fengu líka að njóta þess að fara á bak og ófáar minningar koma upp í hugann. Hlýjar minningar um hundana Snata og Tinu, hrossin Yngri-Rauð, Fölska og Skjónu svo einhver séu nefnd tengjast öll Vósa. Ekki má gleyma að minnast á söngmanninn Vósa með sína fallegu djúpu bassarödd. Vósi frændi var órjúfanlegur hluti af okkar bestu og sterkustu æskuminningum.

Elsku Stebbi, Siggi og Þórdís, missir ykkar er mestur. Elsku Vósi, við erum óendanlega þakklát fyrir alla þína hlýju og natni í okkar garð.

Kristín (Gitta), Sigurður (Siggi), og Herdís (Heddý), Dídíarbörn

Jón Bjarnason

Íþróttafélagið Þór skrifar
12. júlí 2024 | kl. 10:30

Jón Bjarnason – lífshlaupið

12. júlí 2024 | kl. 10:20

Jóhann Sigtryggsson

Magnús Ingólfsson og Ólafur Þór Ævarsson skrifa
09. júlí 2024 | kl. 12:00

Sigríður Árnadóttir

Baldur Már, Andri Snær og Ágúst Stefánssynir skrifa
26. júní 2024 | kl. 06:00

Sigríður Árnadóttir

Friðrika Tómasdóttir skrifar
26. júní 2024 | kl. 06:00

Sigríður Árnadóttir

Stefán, Helgi, Hólmfríður, Sigríður, Eiríkur S. og Jónína Þuríður skrifa
26. júní 2024 | kl. 06:00