Fara í efni
Minningargreinar

Þór Sigurðsson

- Gísli minn, það amar ekkert að hjá mér; ég hef það bara fínt. Þannig svaraði gjarnan minn gamli skólabróðir og vinur, Þór Sigurðarson, þegar ég spurði frétta af heilsu hans af og til á síðustu misserum. Það var ekki hans stíll að barma sér; hann vildi ekki skapa öðrum áhyggjur. En þrátt fyrir bjartsýnina tæmdist stundaglasið. Þór hafði undanfarin ár glímt við krabbamein og gengið í gegn um marga lyfjakúra, sem tóku sinn toll af líkamsþreki þessa sómadrengs, án þess þó að lyfin næðu að drepa meinið. Fleiri kárínur bættust við, þannig að lokum var orkubankinn tæmdur.

Það fór aldrei mikið fyrir Þór; hann var ekki gjarn á að guma af eigin afrekum. Átti hann þó tíðum innistæðu fyrir slíku. Hann hafði einstaka söngrödd, skrifaði góða prósa og orti ljóð, svo eitthvað sé nefnt. Nei, Þór vildi halda sér til hlés, en hann var alltaf tilbúinn til átaka ef eftir kröftum hans var leitað, án eftirgangs.

Við í þeim eðalárgangi, 1949, höfum haldið margar og góðar veislur á lífsleiðinni. Mér er ein sérlega minnisstæð í tengslum við Þór. Það var í Sjallanum þegar við urðum sextug. Ég var veislustjóri og fékk allt í einu þá flugu í höfuðið, á meðan veislan stóð sem hæðst, að fá Þór til að syngja einsöng fyrir okkur. Ég gekk að borðinu til hans og hafði um það orð, að næst á dagskránni væri Þór Sigurðarson með Bjórkjallarann!

- Já, já, Gísli minn, ég skal gera það, ef þú útvegar mér meðleikara, svaraði Þór glaðbeittur að bragði. Bróðir Grímur Sigurðsson, gítarleikari, var við næsta borð og til í meðleikinn. Þeir bræður gengu á svið án undirbúnings eða æfingar og fluttu Bjórkjallarann með þvílíku trukki, að styrkustu stoðir gamla góða Sjallans nötruðu. Fagnaðarlætin voru slík að söng loknum, að þakið lyftist um nokkur fet!

Þór fékk oft storminn í fangið á lífsleiðinni, þann harðasta þegar Herdís, hún Dísa konan hans, varð að játa sig sigraða af krabbameini. Hann bognaði án þess að brotna og þrátt fyrir kárínur síðustu ára var Þór aldrei ósáttur við skaparann. Það hefur enga þýðingu, sagði hann; lífið verður að ganga fram eins og almættið vill.

Þór var náttúrubarn fram í fingurgóma. Honum leið best austur í Fnjóskadal með sínu fólki, við skógrækt og hestastúss. Ungur var hann léttur á sér eins og hind og hljóp þá berfættur og glaður um skógarlundi Sellands, sem hann hafði tekið þátt í að koma til. Særður naut hann þess síðar að leita þar skjóls, líkt og Skógarhindin hans Davíðs frá Fagraskógi:

Langt inn í skóginn leitar hindin særð
og leynist þar, sem enginn hjörtur býr,
en yfir hana færist fró og værð.
Svo fjarar lífið út...
Ó, kviku dýr,
reikið þið hægt, er rökkva tekur að
og rjúfið ekki heilög skógarvé,
því lítil hind, sem fann sér felustað
vill fá að deyja ein á bak við tré.
 
- - -

Er fuglar hefja flug og morgunsöng
og fagna því, að ljómar dagur nýr,
þá koma öll hin ungu, þyrstu dýr
að uppsprettunnar silfurtæru lind –
öll, nema þessi eina, hvíta hind.
 

Eftirmáli: Þegar ég hafði skrifað þessa grein sendi ég hana til umsagnar til bróðurdóttur Þórs, Valgerðar Bjarnadóttur. Svar hennar barst um hæl: „Þór gerði mjög fallegt lag við Skógarhindina, sem var eitt af hans uppáhaldskvæðum. Hann söng það oft fyrir mig.“

Þetta vissi ég ekki þegar ég fékk þá hugdettu, að enda greinina um Þór á Skógarhindinni. Nú veit ég að hann er ekki farinn langt; hann hefur hvíslað þessu í eyra mér.

Góða ferð kæri vinur.
 
Gísli Sigurgeirsson

Jón Bjarnason

Íþróttafélagið Þór skrifar
12. júlí 2024 | kl. 10:30

Jón Bjarnason – lífshlaupið

12. júlí 2024 | kl. 10:20

Jóhann Sigtryggsson

Magnús Ingólfsson og Ólafur Þór Ævarsson skrifa
09. júlí 2024 | kl. 12:00

Sigríður Árnadóttir

Baldur Már, Andri Snær og Ágúst Stefánssynir skrifa
26. júní 2024 | kl. 06:00

Sigríður Árnadóttir

Friðrika Tómasdóttir skrifar
26. júní 2024 | kl. 06:00

Sigríður Árnadóttir

Stefán, Helgi, Hólmfríður, Sigríður, Eiríkur S. og Jónína Þuríður skrifa
26. júní 2024 | kl. 06:00