Fara í efni
Minningargreinar

Svanur Eiríksson

Þrátt fyrir að elskulegur tengdafaðir minn væri oft búinn að ræða við mig um dauðann og undirbúa sína eigin för, þá er ég alls ekki búin að átta mig á skyndilegu andláti hans. Við hin sem eftir stöndum erum sorgmædd en reynum að sætta okkur við það að Svanur fékk líklega þann dauðdaga sem hann óskaði sér. Hann vildi alls ekki verða byrði á neinum en ég var samt oft búin að segja við hann að hann yrði elstur karla og myndi flytja í kjallarann til mín á tíræðisaldri, – ég heyri hann hlæja.

Mikið verður það tómlegt að koma í Víðilundinn og sjá hann ekki sitja í hægindastólnum sínum að horfa á sjónvarpið og hvað þá að geta ekki farið að rökræða við hann um landsins gagn og nauðsynjar.

Mér finnst ótrúlegt til þess að hugsa að ég hafi þekkt hann hans „hálfu“ ævi eða í rúmlega 40 ár og er þakklát fyrir hvað þau hjónin tóku vel á móti þessari ungu stúlku. Hann reyndi að vísu að „losna við mig“, með því að keyra á mig á fyrstu dögum okkar Hólmars, að vísu sagði hann alltaf að það hefði verið ég sem keyrði á hann. En þetta risti nú ekki djúpt, allt sagt í gríni og væntumþykjan alltaf gagnkvæm.

Í sannleika sagt er ekki hægt að segja að Svanur hafi verið „hvers manns hugljúfi“ en hann gerði oft grín að þessari setningu þegar hann var að lesa minningargreinarnar í Mogganum. Hins vegar var hann mjög litríkur persónuleiki, skemmtilegur, vel lesinn, ættfróður, fjölhæfur og klár en hann var beinskeyttur og hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum. Þegar sá gállinn var á honum hafði hann einstakt lag á því að setja allt í uppnám í veislum þegar hann sló einhverju fram, oft til að ögra, en það fékk líka fólk til að rökræða.

Við áttum margar skemmtilegar samverustundir í gegnum árin og Svanur var alltaf duglegur að hæla mér fyrir góðan mat og flottar veislur.

Tengdaforeldrar mínir heimsóttu okkur tvisvar sinnum þegar við bjuggum í Ameríku og árið 2007 ferðuðumst við loks til Þýskalands þar sem Hólmar bjó með foreldrum sínum á sjöunda áratug síðustu aldar. Það var sérstaklega gaman fyrir þau og Hólmar að koma á þessar „gömlu“ heimaslóðir í München og skemmtilegt fyrir okkur hin að fá sögurnar beint í æð.

Þegar við hjónin tókum upp á því að byrja að ferðast á mótorhjóli, jafnt innanlands sem utan, hafði tengdapabbi gríðarlegar áhyggjur, sérstaklega af mér. Hann sagðist ekki sofa á nóttunni á meðan við værum að þvælast á þessu farartæki og var alltaf þeirri stundu fegnastur þegar við skiluðum okkur heim. Þá fékk ég alltaf innilegt faðmlag sem fullvissaði mig um hvað honum þótti vænt um mig.

Ég fæ seint fullþakkað tengdapabba fyrir alla hjálpina við breytingarnar á húsnæði okkar bæði á Víðivöllum og Byggðavegi. Hann var mjög flinkur arkitekt og fljótur að koma með lausnir. Ég bar oft undir hann eitthvað sem mig langaði til að yrði framkvæmt á heimilinu og þá teiknaði hann það upp og sagði gjarnan að Hólmar yrði fimm mínútur að redda þessu.

Takk elsku Svanur fyrir samfylgdina, þín verður sárt saknað en ég vona að gleði og hamingja umvefji þig á nýjum stað.

Takk fyrir allt.

Þín tengdadóttir,

Eyrún Svava Ingvadóttir.

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Ingibjörg Gústavsdóttir

Úlfar Bragason skrifar
19. ágúst 2024 | kl. 06:00

Kári Árnason

Knattspyrnufélag Akureyrar skrifar
19. júlí 2024 | kl. 11:00