Fara í efni
Minningargreinar

Stefán Þórðarson

Afi var uppfinninga maður, frumkvöðull og allt lék í höndunum á honum. Útsjónarsemi hans var á öðrum mælikvarða og sá hann einhvernveginn við öllu.
 
Er ég ólst upp í Teigi minnist ég þess þegar afi var í bragganum að smíða, slípa og sjóða. Ég man varla eftir honum öðruvísi. Alltaf var kallinn með risa vélar og tæki ýmist inní bragga eða útá hlaði og í mínum barna augum líktist þetta geimskipum. Þarna var hann að kannski smíða færanlega kornþurrkunarvél eða kögglavél svo fátt eitt sé nefnt.
 
Amma Gerða og afi Stebbi gátu nú sennilega ekki verið ólíkari en ég man sérstaklega eftir því að amma sagði einu sinni við mig að afi væri jarðtengingin sín og eftir á að hyggja skilur maður það vel. Afi var nefnilega mjög jarðbundin maður, maður fárra orða jafnvel og var nú ekki að láta mikið fyrir sér fara.
 
Að mínu mati voru þetta einmitt hans stærstu kostir því hann var svo ekta. Hann tók ekki þátt í neinu leikriti, var hann sjálfur en á sama tíma hef ég aldrei séð hann skipta skapi að neinu ráði og stutt var í kímnigáfu og algjör gullkorn. Svo kemur uppí hugann dugnaður, seigla og mikið æðruleysi.
 
Þegar allt er tekið saman fann maður svo vel væntumþykju afa, því hann eins og áður sagði var svo ekta og var ekki að skreyta neitt með innantómum orðum.
 
Þessi frábæru hjón sem bæði voru fyrirferðarmikil í sveitinni á svo ólíkan hátt, hittast nú aftur og verða þar fagnaðarfundir. Hjón sem helguðu líf sitt búskap, listum og uppfinningum. Áttu þau ætíð ofboðslega hlýlegt heimili, veisluhöld voru þar regluleg enda margt um manninn og alltaf var maður velkominn.
 
Mig langaði að hafa þessi minningarorð svolítið ekta og í anda afa Stebba. Ekki skreyta þau endilega of mikið. Mig langar þó að segja: Takk kærlega fyrir afi að taka vel á móti mér og takk fyrir tímann okkar. Þín verður sárt saknað en maður getur yljað sér við góðar minningar og rifjað upp, fyndin hrein og bein gullkorn þín.
 
Hvíldu í friði elsku afi minn Stebbi.
 
Hafþór Magni Sólmundsson

Stefán Þórðarson

Herdís Ármannsdóttir. skrifar
03. september 2025 | kl. 06:00

Stefán Þórðarson – lífshlaupið

03. september 2025 | kl. 06:00

Sveinn Bjarnason

Egill Jónsson skrifar
26. ágúst 2025 | kl. 06:00

Þorgerður Stefanía Halldórsdóttir

Árný Benediktsdóttir skrifar
25. ágúst 2025 | kl. 16:00

Þorgerður Stefanía Halldórsdóttir

Vilborg Erla Sveinbjörnsdóttir skrifar
23. ágúst 2025 | kl. 06:00

Þorgerður Stefanía Halldórsdóttir

Kári Kárason skrifar
23. ágúst 2025 | kl. 06:00