Stefán Þórðarson

Elsku besti tengdapabbi hefur kvatt þessa jarðvist og er nú kominn til tengdamömmu. Það veit ég að nú eru fagnaðarfundir í sumarlandinu.
Stebbi í Teigi, eins og hann var gjarnan kallaður, var sterkur og heill persónuleiki. Hann var ekki mikið fyrir athygli og var aldrei með neina sýndarmennsku. Hann var ekki maður margra orða heldur lét hann verkin tala. Stebbi var maður framkvæmda og sést það vel á öllu sem eftir hann liggur. Hann var mjög handlaginn og óhræddur við að fara ótroðnar slóðir. Byggði hann ásamt konu sinni, Gerðu, upp glæsibýli í Teigi þar sem stunduð var svínarækt og kartöflurækt. Hann smíðaði heykögglaverksmiðjuna sem hann starfrækti í mörg ár, var í fiskeldi og fleira mætti lengi telja. Fyrst og fremst var Stebbi samt vélamaður og lék allt í höndunum á honum.
Tengdapabbi var hjálpsamur með meiru og stæði einhver fjölskyldumeðlimur í framkvæmdum var hann fyrsti maður sem mætti á svæðið og keyrði verkið áfram allt til enda. Ekki var hann lengi að smíða hestakerru fyrir okkur, skipta um nokkra glugga og hurðir, klæða húsin, gera upp gamlan traktor svo eitthvað sé nefnt.
Já, minningarnar eru margar og góðar.
Við Stebbi náðum strax vel saman og sá þráður slitnaði aldrei. Bar ég ætíð mikla virðingu fyrir þessum höfðingja sem var svo ekta, svo hreinn og beinn.
Genginn er yndislegur og traustur maður sem stóð þétt upp við sína. Hann lét aldrei deigan síga og seigla einkenndi hann í hverju því sem hann tók sér fyrir hendur. Eins og gengur fékk Stebbi sín miserfiðu verkefni yfir ævina, þeim mætti hann með æðruleysi og ró, hann var ekkert að stressa sig yfir hlutunum.
Stebbi og Gerða héldu vel utan um hópinn sinn með mildi og kærleik og er ég þakklát fyrir að hafa tilheyrt þeim hópi.
Hvíld í friði elsku Stebbi minn og takk fyrir allt.
Þín tengdadóttir,
Herdís Ármannsdóttir


Stefán Þórðarson

Sveinn Bjarnason

Þorgerður Stefanía Halldórsdóttir

Þorgerður Stefanía Halldórsdóttir
