Fara í efni
Minningargreinar

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir

Fallin er frá Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir, félagi okkar í Framsókn og ein af lykilstoðum félagsins hér fyrir norðan. En Silla, eins og við þekkjum hana öll, var mikil hugsjónamanneskja og barðist sannarlega fyrir betra samfélagi. Silla fæddist hér á Akureyri 8. desember 1950 og var búin að vera félagi í Framsókn síðan löngu áður en skráning félaga var færð í tölvu, sem gerðist árið 1995.

Silla var ekki bara vinur okkar allra heldur var hún líka mikil fyrirmynd fyrir okkur sem vorum í kringum hana. Hún var hugsjónamanneskja sem barðist fyrir réttlæti fyrir öll og lét óhikað í sér heyra ef henni fannst á rétti einhverra brotið. Það gerði hún af ríkri réttsýni, með hlýju hjarta og sterkum vilja. Hún sýndi það með sönnu að það er mikilvægt að láta rödd sína heyrast og tala fyrir þau sem geta það ekki sjálf eða treysta sér ekki til þess. Silla var alveg einstaklega fróð og vel að sér um fólk og sögu hér á Akureyri, hún var ekki kona fárra orða en hún kom ævinlega hreint fram, var heiðarleg og hreinskiptin. Líf hennar var ekki alltaf auðvelt en hún kom börnunum sínum vel til manns og var einstaklega hreykin af afkomendum sínum öllum ásamt tengdabörnum. Það vissum við öll sem vorum þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna með henni, hve hlýlega og fallega hún talaði um fjölskylduna sína.

Hún var mikil smekkskona og alltaf glæsilega til fara en mín fyrstu kynni af henni voru þannig að hún gekk rösklega upp að mér, klappaði mér á bakið og hvatti mig áfram í mínum verkefnum. Ég dáðist að þessari flottu konu þar sem hún stóð í fallegum kjól með tösku í stíl og í fagurgrænum jakka. Það er óhætt að segja að það hafi bara verið ein Silla, þessi fyrstu kynni okkar lýstu henni vel og var góður vísir að okkar sambandi og síðar vináttu. Hún var kjarnakona, alltaf tilbúin með uppbyggjandi orð og hvatningu fyrir okkur hin. Við grínuðumst stundum með það að það væru ekki nema um fjörutíu ára munur á veru okkar í Framsókn, ég leitaði óhikað til hennar þegar ég þurfti ráð eða leiðbeinslu og þegar ég var nýkjörin formaður Framsóknar var hún fyrsta manneskjan sem ég leitaði til. Hún var dugleg að taka þátt í öllu okkar starfi, mætti á alla viðburði, tók virkan þátt í bæjarmálunum og allri pólitík. Hún setti sinn svip á bæjarmálin og það sjáum við víða.

Í dag fylgjum við Sillu okkar til hinstu hvíldar og eftir stendur stórt skarð í okkar röðum. Við í Framsóknarfélagi Akureyrar og nágrennis sendum hennar nánustu aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur, það verður mikill söknuður að hafa Sillu ekki með okkur í starfinu áfram en minningin um kæra vinkonu lifir áfram.

Fyrir hönd Framsóknarfélags Akureyrar og nágrennis.

Alfa Jóhannsdóttir, formaður

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Freyja Rögnvaldsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Daníel Snorrason

Valur Ásmundsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 09:45

Daníel Snorrason

Björn Björnsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 06:05

Daníel Snorrason – lífshlaupið

04. apríl 2024 | kl. 06:00