Fara í efni
Minningargreinar

Sigurður Friðriksson

Elsku pabbi minn er fallinn frá.

Eftir stend ég algjörlega ráðvilltur um hvernig ég á að takast á við sorgina sem fylgir því að reyna að gera sér grein fyrir að þú sért farinn. Pabbi var beinskeyttur og sagði hlutina eins og þeir voru. Honum hugnaðist lítið sjálfsvorkunn og væl enda af þeirri kynslóð sem lítið stóð í slíku. Hann kvartaði aldrei yfir sínum veikindum en pabbi var heilsuveill síðustu ár, sem hentaði illa hraustmenni eins og hann var. Aldrei heyrði maður þó orð um þann sársauka sem hann glímdi oft við og hann hafði alltaf meiri áhyggjur af því að öðrum liði vel. Pabbi starfaði alla ævi við sjómennsku, lengst af sem skipstjóri og var vel liðinn af sínum undirmönnum, sem lýstu honum sem ákveðnum en sanngjörnum sem passaði upp á sína áhöfn. Pabbi passaði allavega svo sannarlega alltaf upp á áhöfnina sína heima við, þ.e. okkur stórfjölskylduna. Það er alveg óhætt að segja að hann hafi sett okkur ofar öllu og alltaf var hægt að leita í pabba faðm með hin ýmsu vandamál og fá ráð og yfirleitt lausnir. Pabbi var ekki maður margra orða en hann var einn af þeim sem að þegar hann talaði þá hlustuðu menn. Það er þyngra en tárum taki að hugsa til þess að nú fæ ég ekki fleiri ráð frá þér. Við ræðum ekki meira um íþróttir sem pabbi hafði mikinn áhuga á og þá helst okkar liði Þór, að sjálfsögðu. Ég svara ekki fleiri spurningum frá þér um hvernig stelpunum mínum gengur í skólanum, boltanum og öllu mögulegu. Ég reyni nú að miðla til þeirra þeim heilræðum sem þú gafst mér á uppvaxtarárum mínum. Að vera heiðarlegur og traustsins verður. Þú kenndir mér að dæma ekki fólk eftir stöðu heldur gjörðum og aldrei líta niður á neinn. Vonandi munu börn mín líta upp til mín á sama hátt og við systkinin litum upp til þín.

Nú ertu farinn í þína síðustu sjóferð og eftir stendur fjölskylda í sárum en fjölskyldan er svo sannarlega þakklát því að hafa átt þig sem eiginmann, pabba, afa, langafa og svo framvegis. Megi sem flestum veitast sú gæfa að hafa mann sem þig í sínu lífi.

Þinn sonur,

Sigurður G. Sigurðsson

Smári Jónsson – lífshlaupið

Fjölskylda Smára skrifar
30. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Freyja Rögnvaldsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Daníel Snorrason

Valur Ásmundsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 09:45

Daníel Snorrason

Björn Björnsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 06:05