Fara í efni
Minningargreinar

Sigurður Friðriksson

Ertu dóttir Sigga Friðriks, var oft spurt? Ég svaraði játandi, já, það sést langar leiðir og þá fylgdi alltaf: Það var gott að vera með pabba þínum á sjó. Hann var heiðarlegur, sanngjarn, fór fram á vinnusemi og var svakalega fiskinn. Ég var alltaf svo stolt þegar ég heyrði þetta og saug upp í nefið, Siggi maðurinn minn líkir mér alltaf mest við pabba þegar ég geri það.

Pabbi var sjómaður í húð og hár og sannkölluð hetja hafsins. Minningarnar hrannast upp. Við á bryggjunni að bíða eftir flautinu, flauta á móti og bíða svo spennt eftir að fá hann heim. Allir sjómannadagarnir, fá ný spariföt, taka þátt í hátíðarhöldunum sem oftast voru þó án pabba sem var á sjónum, því það tíðkaðist í þá daga. Þegar ég fór fyrst út á vinnumarkaðinn voru heilræðin frá pabba að vera samviskusöm, heiðarleg og stunda vinnuna af alúð, þá farnast þér vel, Tóta mín, já, hann var sá eini af þeim fullorðnu sem kallaði mig Tótu.

Pabbi var viskubrunnur og komum við aldrei að tómum kofanum. Sögurnar af sjónum sem við elskuðum að heyra voru margar og sumar ansi skrautlegar og magnaðar. Pabbi var víða til sjós bæði innanlands og erlendis, sem hafði í för með sér flutninga fjölskyldunnar og langar fjarverur sem gerðu biðina eftir honum ansi erfiða. Ég veit að honum fannst það líka en hann sagði alltaf að við þyrftum að skilja þetta, sem hann vissi að við gerðum, svona væri líf sjómannsfjölskyldunnar. Í ræðu sinni einn sjómannadag sagði hann að sá einn sem elskar og oftast ber jafna virðingu fyrir hafinu og sjálfum sér, er sannur sjómaður. Hafið er í senn ógnþrungið og stolt, milt og blítt og þeir sem ánetjast hafinu mestan hluta ævi sinnar og drekka í sig mátt þess og töfra, eru gædd sömu eiginleikum, stundum meðvitað og stundum ekki, þetta eru aðalsmerki sjómannsins. Einnig nefndi hann sjómannskonuna sem ber hitann og þungann af heimilislífinu og axlar með bros á vör ábyrgð beggja aðila, og vottaði henni virðingu sína. Þegar þú hættir til sjós gastu ekki sagt skilið við sjóinn og sigldir Húna II. hér um pollinn og naust vel. Við stórfjölskyldan nutum þess að hafa þig heima, sem var dásamlegt fyrir öll afabörnin að njóta samvista. Minnisstæður og yndislegur tími sem þó var þér erfiður vegna veikinda sem þú tókst með æðruleysi og sagðir þau vera vinnuna þína í dag. Í henni varstu mikið í blóðskilun á Sjúkrahúsinu á Akureyri í góðum félagsskap þinna góðu vinkvenna þar. Við skelltum okkur oft á rúntinn eftir þessa vinnu, ýmist í bakaríið, Nesti og niður á bryggju með ís í hönd. Þú gafst ekki mikið fyrir siglingu á stóru skemmtiferðaskipi því það væri nú lítil tilbreyting fyrir þig.

Það verður skrítið að koma í Skuggann og sjá þig ekki við eldhúsborðið með mömmu, sem ég veit að saknar þín mikið þó hún sé vön einverunni því nú hefur þú sleppt landfestum í hinsta sinn. Ferðinni er heitið á miðin í sumarlandinu. Ég heyri flautið og flauta á móti. Mömmu skal ég hafa við hlið mér eins og ég hef ávallt gert.

Ég kveð þig með miklum söknuði, virðingu og væntumþykju, elsku pabbi minn, Tótan þín.

Þórunn.

Tinna B.Malmquist Gunnarsdóttir

Inga Dís Sigurðardóttir skrifar
29. september 2023 | kl. 16:00

Elín Stephensen

29. september 2023 | kl. 06:00

Helgi Rúnar Bragason

Jana, Atli, Guðný og Kalli skrifa
11. september 2023 | kl. 10:30

Helgi Rúnar Bragason

Íþróttafélagið Þór skrifar
11. september 2023 | kl. 10:00

Helgi Rúnar Bragason – lífshlaupið

11. september 2023 | kl. 09:00

Bára Jakobsdóttir Ólsen

Gylfi Már Jónsson skrifar
06. september 2023 | kl. 06:03