Fara í efni
Minningargreinar

Sigríður Halldóra Hermannsdóttir

Þegar við kveðjum elsku Löggu, föðursystur okkar, leitar hugurinn aftur til æskuáranna. Á sjöunda áratugnum byggðust upp hverfi á suðurbrekkunni á Akureyri þar sem ungar barnafjölskyldur tóku skref inn í nútímann. Mamma og pabbi höfðu tekið höndum saman með Löggu og Ara og byggt myndarlegt þríbýlishús í Byggðavegi 84. Amma Anna bjó í kjallaranum og Lagga með sína fjölskyldu á efri hæðinni.

Það var eitt stórt samfélag þriggja kynslóða í Byggðavegi 84 og mikill samgangur á milli hæða. Ari var ennþá á sjónum og Lagga hafði mörg járn í eldinum, við heimilisreksturinn, barnauppeldi og vinnu. Okkur fannst við alveg einstaklega rík að eiga fjögur frændsystkin í húsinu. Við litum upp til Önnu Guðnýjar, Hemma og Ingu en jafnöldrurnar Matta og Ella voru eins og systur.

Lífsgleði, umhyggja, nánd og vinátta eru orð sem koma upp í hugann þegar við minnumst þessa tíma. Nábýlið bauð oft upp á fjörlegar uppákomur en aldrei urðu alvarlegir árekstrar því kært var á milli fjölskyldnanna tveggja og samkomulagið gott.

Það var gestkvæmt á efri hæðinni og yngsta kynslóðin var alltaf velkomin. Við systkinin vorum daglegir gestir og alltaf tók Lagga á móti okkur með opinn faðm og ljúffengar kleinur. Þegar leið fram á kvöld var safnast saman fyrir framan sjónvarpstækið og horft á Bonanza eða Dýrlinginn. Sjónvarpið var mikið undratæki sem Lagga og Ari höfðu eignast á undan foreldrum okkar. Aðdráttarafl Dýrlingsins fjölgaði ferðalögunum á efri hæðina.

Lagga starfaði alla tíð við verslunarstörf. Hún var dugnaðarforkur, röggsöm og ákveðin, hún var spurul og viðræðugóð og hafði ríka þjónustulund. Árin sem hún starfaði í „Litlu-búðinni“ sem Kaupfélag verkamanna rak í Byggðavegi 92 var gott að geta kíkt við á leiðinni heim úr skólanum og heilsað upp á frænku sína. Alltaf var hún áhugasöm um okkar hagi, spurði frétta um nám og leik og ræddi hvaðeina sem okkur lá á hjarta.

Um miðjan áttunda áratuginn urðu miklar breytingar á samfélaginu í Byggðavegi þegar fjölskyldan á efri hæðinni flutti í Skálagerði 2. Þó heimsóknunum fækkaði var samgangurinn áfram mikill. Oft var komið við í Skálagerði án þess að gert var boð á undan sér og alltaf var okkur tekið opnum örmum. Þá var notalegt að tylla sér í eldhúsið þar sem boðið var upp á ilmandi kaffibrauð og fjörugar samræður. Lagga hafði sterkar skoðanir á málefnum líðandi stundar, svo rifjaði hún upp gamla tíma og spurði fregna af okkur og síðar meir af börnunum okkar. Hún naut þess að segja sögur af barnabörnunum sínum og langömmubörnunum, sem voru stolt hennar og yndi.

Við systkinin geymum í hjörtum okkar allar góðu minningarnar um Löggu, ómetanlegar samverustundir, einstaka góðmennsku, hlýju og væntumþykju í okkar garð. Þremur árum eftir að Ari féll frá hefur Lagga nú sameinast stóru ástinni sinni sem hún saknaði svo mikið. Blessuð sé minning þessara ástkæru hjóna.

Kæru frændsystkin, Anna Guðný, Hemmi, Inga og Matta. Við færum ykkur, mökum ykkar, börnum og barnabörnum, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Elín Björg, Hermann Örn og fjölskyldur.

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Ingibjörg Gústavsdóttir

Úlfar Bragason skrifar
19. ágúst 2024 | kl. 06:00