Fara í efni
Minningargreinar

Sigríður Gunnarsdóttir

Þann 29. nóv. sl. kl. 11.10 kvaddi ég mína elskulegu vinkonu til 65 ára Siggu í Sæbakka (Sigríði Gunnarsdóttur) í síðasta sinn, með þeim orðum að við myndum hittast seinni partinn eins og oft áður og taka gott spjall. Fáeinum augnablikum síðar varst þú komin á Bráðadeild FSA og þaðan með sjúkraflugi á Landspítalann þar sem þú lést þetta sama kvöld.

Það hefur margt drifið á daga okkar öll þessi ár sem ekki verður upptalið hér nema að litlu leyti. Upp úr stendur hvað við reyndum alltaf að hafa gaman af því sem við gerðum, alveg frá barnsaldri og fram til síðasta dags. Hvort sem það var að dorga á bryggjunnni á Dalvík fara á sjó með pabba þínum, göngur og réttir, hornsílaveiðar, berjaferðir og hápunktur sumarsins sem var að fara og veiða í Svarfaðardalsánni. Þvílík dásemd.

Þú lærðir snemma að spila á gítar og við sungum svo undir tók í Sæbakka við mis mikinn fögnuð, sérstaklega þegar gesti bar að garði. Þú skelltir svo reglulega á fóninn ýmsum plötum td. Peter, Paul and Mary, Joan Baez, Dylan, The Birds og inná milli Ingibjörgu Þorbergs með Aravísur.

Þú varst rík af mörgu Sigga mín, ekki síst húmornum, og hann nýttum við óspart á seinni árum. Það sem við gátum rifjað upp og hlegið þegar sá gállinn var á okkur. Svo þurftum við að skipuleggja kaffihúsaferðir, tónleika, málverkasýningar, Reykjavíkurferðir til að hitta vinkonurnar og fleira og fl. enda urðu þau löng sum símtölin.

Okkur var tíðrætt upp á síðkastið um hvað við ætluðum að gera saman núna þegar við værum orðnar eldri borgarar með meiri tíma til tómstunda. Það lá mikið fyrir, við ætluðum jafnvel að endurtaka ferð á Heilsuhælið í Hveragerði, en það sem við ræddum aldrei var hvað tæki við ef aðeins önnur okkur stæði eftir. Nú stend ég í þeim sporum alveg óundirbúin, svipt minni bestu vinkonu sem hefur fylgt mér nánast hvert skref frá barnæsku. En ég minnist orða þinna sem þú sagðir við mig eitt sinn. Hildur mín, maður má ekki gæla of lengi við sorgina .

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi
og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðard)

Elsku Sigga vinkona mín, mikið sem ég á eftir að sakna þín. Takk fyrir allt.

Kæru vinir, Tommi, Tinna, Salóme, Gunni, Bjarney og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur, missir ykkar er mikill, megi allar góðar vættir fylgja ykkur og styrkja.

Hildur Aðalsteinsdóttir og fjölskylda

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Freyja Rögnvaldsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Daníel Snorrason

Valur Ásmundsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 09:45

Daníel Snorrason

Björn Björnsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 06:05

Daníel Snorrason – lífshlaupið

04. apríl 2024 | kl. 06:00