Fara í efni
Minningargreinar

Patricia Ann MacKenzie Jónsson

Elsku mamma.

So long, farewell, auf wiedersehen, goodbye…. Eins og við sögðum svo oft þegar við kvöddumst. Og nú höfum við kvatt í síðasta sinn elsku besta mamma.

Með fyrstu minningum sé ég fyrir mér hvíta hanska, ljósa dragt, hælaháa skó og varalit. Og ilmvatnslyktin. Ég átti að fá að fara með þér í bæinn. Hvernig þér tókst það á hælunum á ómalbikuðu götunum, veit ég ekki. En ég var svo montin að eiga svona fína mömmu. Man líka þegar við systurnar stóðum yfir þér og fylgdumst með þegar þú umbreyttist í gyðju fyrir Lions böllin. Ætluðum allar að eiga “þennan” kjól þegar við værum orðnar stórar.

Takk fyrir að vera til staðar fyrir okkur í æsku. Ég man hvað mér fannst það góð tilfinning að þú varst oftast heima þegar við komum heim úr skólanum. Ekki alltaf að skúra, strjúka og bóna, bara varst á staðnum að bardúsa eitthvað. Man svipinn á þér þegar ég kom óvænt heim þegar frí var í tíma og stóð þig að verki með dekkað morgunverðarborð, te-ið, egg, síld og beikon, og bók í bókastandinum. Allir farnir. Já þú kunnir alltaf að njóta stundarinnar.

Þú barst með þér léttleika hvar sem þú varst. Hafðir gott lag á því að láta okkur hjálpa til með leik. Settir plötur á fóninn, dansaðir stundum og þannig lærðum við að meta allskonar tónlist (þó pabbi væri söngvarinn). Uppáhaldið voru samt Sound of Music og Mary Poppins. Við lærðum öll lögin utan að og syngjum enn þá með okkar afkomendum.

Þú varst líka vinur vina minna og þau tengsl hafa lifað áfram þótt ég flytti að heiman. Þú hafðir áhuga á að kynnast þeim og ungu fólki í kringum þig. Spjalla, spyrja spurninga og fylgjast með nýjungum. Síðustu ár reyndir þú að fræðast um Bitcoin alveg þangað til Gervigreindin tók við.

Þú varst að sjálfsögðu golfari eins og skoskra er siður og ég auðvitað líka. Það var gaman að koma til þín í Garðabæ eftir þriðjudagsgolfið mitt, færa þér ís með dýfu og ræða frammistöðuna þann daginn. Þú fylgdist vel með og samgladdist mér með hvert par og hvað þá fugl!

Elsku mamma. Þú verður mér alltaf nálæg og ég finn fyrir þér í kringum mig og brosi að öllum þínum skemmtilegu frumsömdu frösum sem við systkinin munum halda á lofti.

Lots of love and thanks for everything.

Þín Elva

Patricia Ann MacKenzie Jónsson

Svanhvít Aðalsteinsdóttir skrifar
31. júlí 2025 | kl. 06:00

Patricia Ann MacKenzie Jónsson

Ívar Aðalsteinsson skrifar
31. júlí 2025 | kl. 06:00

Heimir Þorleifur Kristinsson

Stjórn og starfsfólk Iðnaðarsafnsins skrifa
23. júlí 2025 | kl. 09:30

Súsanna Möller – lífshlaupið

18. júlí 2025 | kl. 06:00

Orri Harðarson

Helgi Jónsson skrifar
21. júní 2025 | kl. 14:00