Fara í efni
Minningargreinar

Patricia Ann MacKenzie Jónsson

Mamma, konan sem gaf mér lífið, skilur eftir svo margar minningar að erfitt er að velja úr. Mamma, kölluð Patsy eða Pat ólst upp í Glasgow hjá foreldrum sínum og bræðrunum. Alan og Gordon sem voru á barnsaldri þegar hún flutti til Íslands. Mamma var vel gefin og fróðleiksfús en hlaut aðeins grunnmenntun. Var tíður gestur á bókasafninu og lærði allt lífið. Á yngri árum vann hún í prentsmiðju og við verslunar- og módelstörf m.a. í stórverslun Lewis‘s þar sem hin frjálslega framkoma hennar naut sín til fullnustu. Hún og vinkonur hennar höfðu yndi af að dansa og nýttu til þess hverja lausa stund. Það var þó ekki dansfærni ljóshærða Íslendingsins sem heillaði mest heldur söngur hans. Hún var til í ævintýri, kvaddi heimahagana og flutti til Íslands með pabba þegar ég var ungbarn, inn á tengdafjölskylduna í „Gróf“ þar sem mörg hinna tólf systkina bjuggu en enginn talaði ensku. Komudaginn var stöðugur gestagangur að skoða útlendu tengdadótturina sem virtist allir vera að rífast. Það var víst kosningadagur og pólitíkin heit.

Mamma fór strax að læra íslensku. Hún talaði látlaust við mig í vagninum á leið í búðina eða til skósmiðsins með háhæluðu skóna frá Glasgow sem rauðamölin í Hafnarfirði fór illa með. Hún uppgötvaði að best væri að kaupa fimm stykki af öllu ef hún var óviss um kyn orðanna: fimm bananar, egg eða epli var allt eins.

Við komuna til Akureyrar 1958 þekktu þau engan þar. Pabbi hafði vinnuna, kórinn, og Lions, en á brattann var að sækja fyrir mömmu sem glímdi við íslenskuna í nýju landi með sex börn á níu árum. Margt kom henni spánskt fyrir sjónir, eins og t.d. siginn fiskur með „innbyggðum grjónum“ (fiskiflugnalirfur). Hún lærði sláturgerð en til hagræðingar þvoði hún vambirnar í þvottavél. Hún tileinkaði sér nýjungar var flink að elda og mjög skapandi. Þrátt fyrir annríki á stóru heimili mæddist mamma aldrei og hennar létta lund ávann henni vini jafnt og þétt. Um miðjan dag mátti finna hana uppí sófa með bók, gjarna með breskum húmor, eða grínplötu á fóninum. Um jólin gerðum við kökuhús og hún saumaði eins kjóla á okkur og dúkkurnar. Þegar um hægðist heima kenndi hún ensku og bauð m.a. upp á hádegisverð þar sem gestir æfðu sig í ensku. Hún var í saumaklúbbi, tók þátt í Leikfélagi Akureyrar en stóra ástríðan varð golf sem hún stundaði frá fertugsaldri og hafði alltaf ánægju af.

Mamma efldist í íslenskunni en giskaði oft á hvað orðin þýddu. Húmor hennar fyrir sjálfri hefur skilið eftir hjá okkur mörg kostuleg orðatiltæki s.s. „Guð gaf konan ekki nema tvær ermur.“ Eða þegar hún leitaði að búð sem hún hafði heyrt um í Reykjavík. Hún stoppaði vegfaranda og spurði hvort hann gæti vísað sér á „Hvert í hoppandi“. Sá yppti öxlum en mamma rambaði á áfangastaðinn sem var „Maður lifandi“.

Þegar hún fékk tölvu um sextugt nýtti hún möguleikana óspart og fróðleiksfús hlustaði hún á hlaðvörp af öllu tagi. Hún elskaði að ræða við barnabörnin um hugðarefni þeirra og hvatti þau: „Be curious, stay happy“.

Þú varst ómetanleg elsku mamma.

Toodle-oo the noo.

Þín Svana

Patricia Ann MacKenzie Jónsson

Ásdís Elva Aðalsteinsdóttir skrifar
31. júlí 2025 | kl. 06:00

Patricia Ann MacKenzie Jónsson

Ívar Aðalsteinsson skrifar
31. júlí 2025 | kl. 06:00

Heimir Þorleifur Kristinsson

Stjórn og starfsfólk Iðnaðarsafnsins skrifa
23. júlí 2025 | kl. 09:30

Súsanna Möller – lífshlaupið

18. júlí 2025 | kl. 06:00

Orri Harðarson

Helgi Jónsson skrifar
21. júní 2025 | kl. 14:00