Fara í efni
Minningargreinar

Pálmi Stefánsson

Komið er að kveðjustund Pálma, frænda okkar hjóna. Margar góðar minningar rifjast upp. Við Pálmi vorum systkinabörn og á æskuheimili hans, Litlu-Hámundarstöðum, var ég tíðum heimagangur sem barn og unglingur og þessi fjölskylda nátengd minni og mikil samskipti milli bæjanna. Pálmi var með talsverða sjónskerðingu allt frá barnsaldri, en það var undravert hvað honum tókst að vinna úr því og aldrei varð maður var við það, að hann sæi ekki eins vel og aðrir.

Pálmi eignaðist strax á unglingsaldri harmóníku og varð það til þess að það hljóðfæri fylgdi honum til æviloka. Reyndar búinn að eiga margar slíkar. Hans ævistarf snerist að mestu leyti um músík. Hann spilaði fyrir dansi á mörgum stöðum, allt frá því að spila einn, við annan mann eða í hljómsveitum.

Gömlu dansarnir voru í uppáhaldi hjá okkur báðum og sennilega höfum við hjónin oftast dansað á dansleikjum þar sem Pálmi spilaði fyrir dansinum. Við Pálmi höfum unnið saman að verkefnum í sambandi við gömlu dansana. Pálmi var alltaf tilbúinn að koma út á Strönd og spila fyrir okkur, hvort sem það var á almennum dansleik eða fyrir félögin eða kirkjukórinn í sveitinni. Pálmi var alltaf tilbúinn. Takk fyrir það. Það vill svo til að maðurinn minn, Sveinn Jónsson, er jafn mikið skyldur Pálma og ég. Þeir eru bræðrasynir og hafa átt góðar stundir saman. Eitt sinn stunduðu þeir sögulega grásleppuútgerð ásamt Þorsteini, bróður mínum. Það er stundum rifjað upp og haft gaman af. Með öðrum bróður mínum, Birgi, var hins vegar samstarf í músíkinni, báðir höfðu gaman af að spila á hljóðfæri og að spila fyrir dansi hér og þar. Pálmi flutti ungur úr sveitinni til Akureyrar og þar á hann yndislega konu og þrjú börn sem öll eru með fjölskyldur. Soffía hefur oft verið bílstjórinn á ferðum þeirra, þar sem Pálma var meinað að taka bílpróf, og aldrei á henni að heyra að það væri neitt annað en sjálfsagt og gaman. Við Sveinn viljum þakka fyrir alla samfylgd við frænda okkar og fjölskyldu hans og sendum þeim öllum ásamt öðrum ættingjum og vinum hans samúðarkveðjur. Við kveðjum öll, en hvenær? Ekkert svar.

Hverju verður næsta veröld prýdd?
Verður kannski bjart að búa þar?
Við bara flytjum næst í aðra vídd.
(Vilhjálmur S.V. Sigurjónsson)

Hvíl þú í friði.
Ása Marinósdóttir.

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00

Sigmundur Þórisson

Tómas Lárus Vilbergsson skrifar
04. október 2024 | kl. 06:00

Ásta Þórunn Þráinsdóttir

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:00

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Sigfús Ólafur Helgason skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01

Petra Benedikta Kristjánsdóttir

Vilhjálmur Geir Kristjánsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 06:01