Fara í efni
Minningargreinar

Pálmi Stefánsson

Elsku afi, ég man eftir þér verandi alltaf svo pollslakur hvað sem tautaði og raulaði. Í mínum augum virtist þú sjaldan að taka hlutunum of alvarlega og þú bjóst yfir ró sem er ekki alltaf auðfundin meðal fólks. Hvort sem þú sast með „sjónaukana“ á nefinu horfandi á fréttir eða við matarborðið njótandi hafraköku með rjóma þá virtist þú laus við allan æsing. Það leit út fyrir að þú byggir yfir einhvers konar þekkingu sem ekki allir bera og að þessi þekking hafi gert þér kleift að einfaldlega taka því rólega án þess að feykjast af stað með vindum lífsins. Ég auðvitað fékk ekki tækifæri til þess að kynnast þér ungum svo vel má vera að hafi verið önnur orka yfir þér þá og mig grunar að það hafi verið sú sama orka sem dreif þig áfram til þess að skapa alla þá mögnuðu hluti sem þér tókst að skapa á lífsleiðinni. Ég er svo innilega þakklátur fyrir þær áhættur sem þú tókst og vinnuna sem þú lagðir inn til að ryðja veginn í tónlist sem leiddi til þess að bæði ég og pabbi urðum tónlistarmenn. Ég veit vel að hefði það ekki verið fyrir þína vinnu hefði ég ekki fengið þá frábæru gjöf að eiga að pabba sem nú þegar þekkti til tónlistar (og þar af leiðandi gat lánað mér allar græjurnar sínar). Þrátt fyrir að ég og þú værum báðir tónlistarmenn var oft á tíðum skondið að spjalla saman um músíkina. Ég man til dæmis eftir einu skipti þar sem ég leyfði þér að heyra lag sem ég hafði nýlega samið og eftir að þú hafðir hlustað með heyrnartólin á í rúmar 3 mínútur lauk laginu, þú lagið heyrnartólin frá þér og sagðir einfaldlega: „þetta var skrítið“. Það var allt og sumt.

Þrátt fyrir að við höfum kannski ekki haft sama smekk á tónlist var dásamlegt að okkur hafi tekist að spila saman skömmu áður en þú kvaddir. Það var mikils virði að fá tækifæri til þess að sameina kynslóðirnar þrjár og leika saman ég, þú og pabbi frumsamið lag. Vídjóið finnst á YouTube og nefnist Stefán Elí, Haukur og Pálmi – Chicano

Það hryggir mig að hafa ekki fengið tækifæri til þess að kveðja þig almennilega og það er að mörgu leyti undarlegt að vera ekki heima núna en samtímis veit ég að er akkúrat eins og það á að vera. Ég lít á það sem svo að nú hljótir þú að vera frjálsari en nokkru sinni fyrr njótandi þess að svífa um himinhvolfin laus við lúna líkamann. Mig grunar að þú sjáir nú skýrt hversu mikið af fegurð og gleði þú leiddir af þér og hversu dásamleg áhrif þú hafðir á fólkið í kringum þig. Ég sendi þér þar af leiðandi kosmískt knús vitandi það að þrátt fyrir andlát líkamans lifir andinn enn.

Ég elska þig afi,
Stefán Elí

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Freyja Rögnvaldsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Daníel Snorrason

Valur Ásmundsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 09:45

Daníel Snorrason

Björn Björnsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 06:05

Daníel Snorrason – lífshlaupið

04. apríl 2024 | kl. 06:00