Fara í efni
Minningargreinar

Ólafur Gísli Hilmarsson

Hvernig má það vera að við erum í þeim sporum í dag að fylgja Óla síðasta spölinn. Hann sem aldrei hafði kennt sér meins er allt í einu tekinn frá fjölskyldu og vinum innan við þremur mánuðum eftir að hafa greinst með illvígan sjúkdóm. 

Óli var alla tíð mjög kraftmikill og margar sögur til því til staðfestingar. Foreldrar okkar höfðu líklega meira en nóg fyrir stafni með atorkusaman barnahópinn. Það var alltaf líf og fjör í Munkaþverárstrætinu á þessum árum, mikið af börnum og margir ættingjar búsettir í hverfinu. Valdi og Gilli frændi eru tveimur árum eldri en Óli og það kom því oft þeirra hlutskipti að leyfa honum að fylgja sér eftir. Þeir fóru eitt sinn í hjólaferð niður á eyri en Óli gat ekki farið með þar sem hann átti ekki tvíhjól. Kraftmikla miðjubarnið lét ekki segja sér slíkt og hélt á eftir þeim á þríhjóli. Það er skemmst frá því að segja að pabbi, sem var staddur í áhaldahúsi bæjarins við Þórsstíg, sá okkar mann hjóla þar hjá en hann hafði þá hjólað á malarvegum ótrúlega vegalengd. Málið var auðvitað leyst með nýju tvíhjóli.

Íþróttaiðkun var stór hluti af æsku okkar. Pabbi kenndi okkur snemma á skíði og má segja að við höfum nánast alist upp í Hlíðarfjalli. Óli var fjölhæfur íþróttamaður og sýndi mikla hæfileika í þeim íþróttagreinum sem hann stundaði. Hann var mikill Þórsari og spilaði lengi handbolta og fótbolta með félaginu. Golf stundaði hann síðar á lífsleiðinni og deildi þeim áhuga með föður sínum og bróður. Hann lagði sig auðvitað allan fram í þeirri grein líkt öðrum og keppnisskapið var á sínum stað. Óli náði sem dæmi að fara þrisvar holu í höggi.

Það var aldrei lognmolla í kringum Óla. Lífið hjá okkur systkinunum var ekki alltaf tóm hamingja og það slettist auðvitað stöku sinnum upp á vinskapinn eins og gengur. Óli var alltaf hreinn og beinn, sagði það sem honum brann í brjósti og setti hlutina ekki í neinn búning. 

Óli var vinamargur og ávallt til í skemmtun í góðra vina hópi. Hann var líka með eindæmum hjálpsamur og alltaf reiðubúinn að rétta út hjálparhönd. Hann var hamhleypa til allra verka, jafnt úti sem inni. Það þurfti ekki að biðja Óla um aðstoð, hann bara mætti. Bílar áttu að sjálfsögðu líka að vera glansandi hreinir, líka í falsinu og frægt þegar hann þvoði bílinn sinn þrisvar sama daginn. 

Það var mikill happadagur fyrir Óla þegar hann og Eva felldu hugi saman. Þau hafa verið mjög samstíga alla tíð og fylgt börnum sínum vel eftir í hverju því sem þau hafa tekið sér fyrir hendur. Óli hefur sem dæmi brugðið sér í mörg hlutverk tengd íþróttaiðkun barnanna, sem þjálfari, fararstjóri og nú síðast formaður barna- og unglingaráðs í handbolta hjá Aftureldingu við góðan orðstír. 

Síðustu dagarnir voru Óla erfiðir og ljóst að hann ætlaði ekki að gefast upp. Hann var staðráðinn í að sigra en sjúkdómurinn gaf honum aldrei grið. 

Eftir sitja fjölskylda og vinir með mikla sorg í hjarta. Við systkinin þökkum Óla samfylgdina og munum passa upp á Evu og yndislegu fjölskylduna ykkar. Takk fyrir allt elsku Óli.

Þorvaldur, Kristín og fjölskyldur

Ólafur Gísli Hilmarsson

Gunnlaugur Þráinsson skrifar
30. apríl 2025 | kl. 12:00

Ólafur Gísli Hilmarsson

Hanna Dóra Markúsdóttir skrifar
30. apríl 2025 | kl. 12:00

Ólafur Gísli Hilmarsson

Íþróttafélagið Þór skrifar
30. apríl 2025 | kl. 12:00

Kristján Gunnarsson

Rúnar Ingi Kristjánsson skrifar
08. apríl 2025 | kl. 06:00

Kristján Gunnarsson – lífshlaupið

08. apríl 2025 | kl. 06:00