Fara í efni
Minningargreinar

Ólafur Gísli Hilmarsson

Blessuð sé minning Óla frænda: Ólafs Gísla Hilmarssonar.

Ég var staddur í Róm í lok janúar þegar Óli frændi hringdi: „Ég var að greinast með krabbamein!“ Aðeins þremur mánuðum síðar sit ég og skrifa þessi minningarorð um hann.

Lífið er alltaf að koma á óvart, sólskin í Róm og stutt símtal breytir öllu. Óli tók þessu verkefni af hörku eins og öllum þeim sem hann tókst á við. Æðrulaus og sannur og kom sér beint að efninu. Það var hans leið í lífinu; bæði í leik og starfi.

Við erum frændsystkin: Þorvaldur jafngamall mér, Ólafur tveimur árum yngri og svo Kristín systir þeirra. Alin upp af mæðrum sem voru frænkur, jafnaldra og óaðskiljanlegar frá fæðingu til dauðadags. Oft mikið fjör og mæður okkar ekki alltaf hressar með uppátækin. Munkaþverárstræti, Espilundur og Jörfabyggð; Akureyri var okkar. Þegar ég flutti svo suður sá mamma um fréttaflutning af strákunum. Svo komu þeir suður líka og þá vorum við mikið saman. Óli var heimagangur í Hverafoldinni. Hann bankaði ekki heldur gekk bara inn, enda ávallt hluti af fjölskyldunni. Börnin mín, Gauti og Sandra eiga góðar minningar af Óla frænda. Hann var þeim sérstaklega góður enda barngóður með eindæmum.

Heill og traustur, fyrir honum voru allir jafnir og hann vinamargur.

Að loknum Tækniskólanum var hann óviss um næstu skref. Mig vantaði prentumsjónarmann í áhöfnina á auglýsingastofunni Góðu fólki. Óli Hill var kominn með sumarvinnu, mættur fyrstur og fór síðastur. Okkar maður kom á fullri ferð inn í auglýsingabransann og gaf sig allan í verkefnið. Á fyrstu viku var hann búinn að hitta allar prentsmiðjurnar, kynnast öllum og læra allt. Kominn með bandamenn um alla borg. Þetta átti vel við hann og ekkert gefið eftir.

Í fyrstu var samstarfsfólkið með smá fyrirvara gagnvart þessum fyrirferðarmikla „frænda“. Fyrir honum voru allir hásetar, allir jafnir, tímasetningar áttu að standa og engin grið að fá hjá Óla Hill. Hann varð strax hrókur alls fagnaðar og góður félagi innanhúss sem utan. Smá partý eða golf? Hann var mættur. Alltaf fjör og góðar minningar. Hann fann sig í þessum markaðsbransa og starfaði þar lengi við góðan orðstír.

Oft var fjör á Góðu fólki og eitt sinn fór hópurinn á Duran Duran í Egilshöll. Þar hitti Óli hana Evu sína og datt þar í lukkupottinn. Eva Sif er yndisleg og einstök kona, kletturinn í hans lífi og þau náðu strax vel saman. Fljótlega komu tvær yndisstúlkur, Eva Kristín og Emma Guðrún, fyrir átti Eva Ölmu og Daníel. Betri pabba var ekki hægt að hugsa sér, missir þeirra er mikill.

Við vorum tvö systkinin, ég og Ásta, hún lést eftir stutta baráttu við krabbamein í september síðastliðnum. Þá hittumst við Óli og áttum góða stund, ræddum málin, lífið og tilveruna af alvöru. Já, við Óli og Þorvaldur erum nánir frændur og mér hefur alltaf fundist þeir vera mínir bræður.

Að kveðja Óla er mér og börnum mínum mjög þungt, við eiginlega trúum þessu ekki.

Elsku Eva Sif, Eva Kristín, Emma Guðrún, Daníel og Alma, megi góður Guð vaka yfir ykkur.

Minningin lifir um lífsglaðan, skemmtilegan orkubolta, elskulegan og mjúkan mann með stórt hjarta.

Blessuð sé minning Óla frænda: Ólafs Gísla Hilmarssonar.

Gunnlaugur Þráinsson

Ólafur Gísli Hilmarsson

Íþróttafélagið Þór skrifar
30. apríl 2025 | kl. 12:00

Ólafur Gísli Hilmarsson

Þorvaldur Hilmarsson, Kristín Hilmarsdóttir og fjölskyldur skrifa
30. apríl 2025 | kl. 12:00

Ólafur Gísli Hilmarsson

Hanna Dóra Markúsdóttir skrifar
30. apríl 2025 | kl. 12:00

Kristján Gunnarsson

Rúnar Ingi Kristjánsson skrifar
08. apríl 2025 | kl. 06:00

Kristján Gunnarsson – lífshlaupið

08. apríl 2025 | kl. 06:00