Fara í efni
Minningargreinar

Margrét Hrefna Ögmundsdóttir

Elsku hjartahlýi húmoristinn okkar.

Minningarnar um þig munu ylja okkur um ókomin ár, rétt eins og prjónaskórnir sem þú prjónaðir úr gömlum garnendum fram til hins síðasta, enda nýtin með eindæmum.

Þú kenndir okkur að það eigi alltaf að borða vel á bæjum, og það gerðum við svo sannarlega í Goðabyggðinni, hvort sem það voru kókosbollurnar sem við gerðum svo oft saman, Nesquik og ristað brauð á viðarbrettunum eða einhverjar „ósköp klénar og óætar lufsur“ eins og þú lýstir oft dýrindis heimabakaða sætabrauðinu þínu. Takk fyrir allar pönnsurnar, súkkulaðirúsínurnar, laufabrauðið og páskaeggin sem þið afi gáfuð okkur barnabörnunum ár hvert.

Þú kenndir okkur líka gjafmildi, nægjusemi og að bera umhyggju fyrir öðrum. Í jólapakkanum leyndust gjarnan gjafabréf fyrir geitum eða hænum handa þeim sem minna máttu sín, og okkur barnabörnunum þótti alltaf vænt um þær gjafir. Þú varst fyrirmynd í svo mörgu, góðhjörtuð og falleg í gegn.

Þú varst líka alltaf til í ævintýraleiðangra, hvort sem það var spontant Ítalíuferð fyrir sex árum að heimsækja Snorra eða lautarferð í Álfabyggðina fyrir nokkrum vikum síðan. Það gladdi okkur mikið þegar þú mættir í þrítugsafmælið hennar Hrefnu í sumarbústaðnum Jörfa, þá tæplega níræð og lést alls ekki stoppa þig að þar væri einungis bráðabirgðabrú og ófært yfir ána. Þú skoppaðir yfir brúna meðan aðrir tóku andköf. Nærvera þín gerði allt betra og skemmtilegra.

Stella litla spurði morguninn eftir að þú kvaddir af hverju hún heitir því nafni, en það er einmitt þér að þakka. Þið afi gáfuð mömmu okkar nafnið Oddný Stella þar sem þú hélst upp á það fallega nafn, og nú heitir önnur hver kona (og reyndar líka seglskúta) í fjölskyldunni Stella.

Það gladdi okkur systurnar mikið hvað þú varst ánægð með grænu heimafötin sem við keyptum á allar dömurnar í fjölskyldunni, þau hafa verið einkennisföt okkar allra síðustu árin og fóru þér svo vel. Nú sitjum við hér í grænu fötunum og skálum fyrir þér, „til lífs og gleði“ líkt og þú varst vön að segja. Við verðum alltaf þakklátar fyrir það hversu margar gæðastundir við fengum með þér, elsku Magga amma.

„Þetta batnar allt, það hlýtur að gera það,“ sagðirðu eftir áfallið, og nú ertu komin til afa Snorra og þar er ró og friður.

Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt.

Þínar,

Hrefna Rut og Unnur Stella

Jón Bjarnason

Íþróttafélagið Þór skrifar
12. júlí 2024 | kl. 10:30

Jón Bjarnason – lífshlaupið

12. júlí 2024 | kl. 10:20

Jóhann Sigtryggsson

Magnús Ingólfsson og Ólafur Þór Ævarsson skrifa
09. júlí 2024 | kl. 12:00

Sigríður Árnadóttir

Baldur Már, Andri Snær og Ágúst Stefánssynir skrifa
26. júní 2024 | kl. 06:00

Sigríður Árnadóttir

Friðrika Tómasdóttir skrifar
26. júní 2024 | kl. 06:00

Sigríður Árnadóttir

Stefán, Helgi, Hólmfríður, Sigríður, Eiríkur S. og Jónína Þuríður skrifa
26. júní 2024 | kl. 06:00