Fara í efni
Minningargreinar

Magnús Guðmundsson

Magnús Guðmundsson fæddist 30. maí 1933 og lést 16. janúar 2022.

_ _ 

Kynni okkar Magnúsar hófust um eða fyrir 1960 en þá var ég á skíðanámskeiði hjá honum og til að byrja með var kennt í brekkunni sunnan við stúkuna á KA velli. Hann hafði þá verið í Bandaríkjunum og kennt bæði á skíði og í golfi. Hann kom hins vegar reglulega heim og starfaðí m.a. í lögreglunni bæði nokkur ár áður en hann fór utan og síðar a.m.k. tvö sumur sem afleysingarmaður. Meðan hann starfaði sem fastur maður í lögregluliðinu fór hann í lögregluskólann og lauk honum. Þegar hann var að koma heim frá USA nýtti hann sér oft að koma með ný skíði, gjarnan nokkur pör og útvegaði skíðamönnum hér það nýjasta á markaðnum í USA. Eitt sinn fékk ég hjá honum ný og glæsileg HEAD skíði með MARKER öryggisbindingum sem voru þá að ryðja sér til rúms.

Maggi var duglegur lögreglumaður og vel liðinn af starfsfélögum sínum svo og þeim sem lögreglan þurfti að hafa afskipti af. Menn vissu hins vegar að hann var hraustur og fáir vildu í áflog við hann. Lögreglan sem þá var til húsa í Smáragötu 1 austan við íþróttavöllinn þurfti oft að fara í útkall í Alþýðuhúsið sem var örskammt frá stöðinni. Maggi átti það til að hafa afturhurð lögreglubílsins opna og nánast standa á afturstuðaranum meðan ekið var þessa stuttu leið. Eitt sinn fór hann í slíkt útkall ásamt vini sínum Páli Rist. Þegar að Alþýðuhúsinu kom voru hópslagsmál þar á planinu og Maggi stökk strax af afturstuðaranum og inn í hópinn og fór að stilla til friðar. Páll sem að vanda var pollrólegur fór nú að reyna að stilla til friðar og fór að þvögunni sem þarna var. Hann sá handlegg mjög aðsópsmikinn standa út úr þvögunni og tók um hann og snéri lítillega uppá hann. Heyrði hann þá að Maggi kallaði innan úr þvögunni, „láttu mig vera Palli“. Palli sleppti þá takinu og fljótlega komst á friður á planinu og þeir félagar Palli og Maggi fór aftur heim á stöðina. Þá gat Maggi ekki orða bundist og spurði Palla af hverju hann hefði tekið sinn handlegg en ekki einhvern annan. „Ég tók bara þann sem vitlausastur var,“ sagði Palli sallarólegur.

Eitt sinn var tilkynnt um að verið væri að brjótast inn í útibú KEA í Hlíðargötu. Maggi fór þangað við annan mann og þegar þeir koma þangað sjá þeir að maður hleypur suður Hlíðargötuna. Maggi stökk út úr bílnum og hljóp á eftir manninum. Þegar þeir komu suður undir Lögbergsgötu hafði Maggi náð honum og í staðinn fyrir að handtaka hann strax þá hljóp hann samsíða honum um stund og spurði, „getur þú ekki hlaupið hraðar“. Þá gafst hlauparinn strax upp og baðst vægðar.

Á skíðalandsmótinu 1962 var Maggi fenginn til að leggja brautir í alpagreinum. Við skátar vorum þá að vinna sjúkragæslu o.fl. á mótinu og m.a. áttum við að hjálpa Magga að troða brautirnar. Við vorum hins vegar ósáttir við að þurfa að fara af skíðunum og troða sérstaklega beygjurnar í stórsvigi bara á skíðaskónum. Þetta fannst okkur einhverra hluta vegna vera vitlaust. Maggi svaraði okkur hins vegar því að brautirnar hér í fjallinu ættu að vera mjög góðar og þær ættu að vera á heimsmælikvarða.

Nú seinni árin þegar Maggi kom í heimsókn kom hann gjarnan í heimsókn á lögreglustöðina en ég var eini maðurinn sem hann þekkti. Eitt sinn hafði hann son sinn með sér og síðar dóttur sína. Ég gat sýnt þeim gamlar myndir frá veru Magga í lögreglunni og myndir frá hans gamla vinnustað. Eitt fannst þeim ótrúlegt sem ég sagði þeim sem var það að þegar ég byrjaði hjá lögreglunni átján ára gamall fékk ég gamlan lögreglubúning sem Maggi hafði átt. Þau horfðu á pabba sinn tágrannan og mig með allt of mörg aukakíló hristu bara hausinn.

Eitt sinn gaf ég Magnúsi lögregluskírteini frá íslensku lögreglunni og var það sérstaklega merkt honum. Honum þótti mjög vænt um þessa gjöf og sagði mér síðar að hann hefði það á náttborði sínu og færi sjaldan að sofa nema handfjatla það og hugsa heim. Nú er þessi hrausti maður horfinn yfir móðuna miklu á áttugasta og níunda aldursári. Hann skilur eftir sig miklar minningar og mikinn og langan íþróttaferil. Ég votta börnum hans og fjölskyldum þeirra djúpa samúð. Hvíl þú í friði kæri vinur og haf þökk fyrir allt og allt.

Ólafur Ásgeirsson

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Freyja Rögnvaldsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Daníel Snorrason

Valur Ásmundsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 09:45

Daníel Snorrason

Björn Björnsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 06:05

Daníel Snorrason – lífshlaupið

04. apríl 2024 | kl. 06:00