Fara í efni
Minningargreinar

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Við kynntumst Fríðu þegar hver og ein okkar hóf störf í Lundarskóla á Akureyri, en Fríða var ritari skólans og var komin til starfa á undan okkur öllum. Það var á þessum góða vinnustað sem bókaklúbburinn okkar, Lespíurnar, varð til og Fríða var frá upphafi ómissandi hluti af þessum félagsskap.

Í starfi sínu sem ritari var hún hjarta skólans, róleg og yfirveguð og með lausnir á hinum ýmsu áskorunum. Hún var einstaklega hógvær og hæglát en um leið afskastamikil, hress og skemmtileg, með mikinn húmor sem gæddi samverustundirnar.

Fríða var með eindæmum listfeng og handlagin. Allt lék í hreinlega höndunum á henni. Heimili þeirra hjóna var afburða fallegt og nostrað var við hvern hlut. Fríðukonfektið var hennar einkennismerki og framleiddi hún þvílíkt magn af því fyrir góðgerðarstarfið sem hún sinnti svo ötullega. Við fengum alltaf að njóta góðs af Fríðukonfektinu kringum jólin og oft voru öskjurnar faldar fyrir fjölskyldumeðlimum því við vildum sjálfar fá að njóta hvers mola.

Fríða saumaði líka og vakti aðdáun okkar m.a. með fallegum brúðarkjól. Hún var einnig einstaklega hagmælt og samdi gjarnan vísur fyrir ýmsa viðburði. Vísurnar voru hnyttnar og skemmtilegar, þar sem hún lýsti atvikum eða persónum á glaðlegan hátt. Henni var svo ótrúlega margt til lista lagt og það var eins og sólarhringurinn hennar væri lengri en annarra.

Fríða las alltaf mikið. Þegar við Lespíurnar hittumst mætti hún gjarnan með góðan bunka af bókum sem hún hafði lesið og sagði frá þeim og tókst þannig að vekja áhuga okkar hinna á fleiri bókum.

Lengi vel átti það fastan sess hjá okkur að fara í húsið hennar Fríðu á Ólafsfirði. Þar borðuðum við saman, spjölluðum fram á nótt og nutum samverunnar. Hlé hafði orðið á þessari hefð í fáein ár en síðastliðið vor ákváðum við að endurvekja þessa skemmtilegu hefð. Fríða var auðvitað fyrst komin á staðinn, búin að baka með kaffinu og tilbúin að taka á móti okkur. Þetta varð síðasta samverustundin okkar Lespíanna með Fríðu, dýrmæt minning sem við munum geyma í hjörtum okkar.

Fríða virtist alltaf eiga einstaklega gott samband við fólkið sitt. Hún sagði okkur gjarnan frá lífi þeirra og afrekum af stolti en þó á sinn hógværa hátt. Þeirra missir er mikill. Við sendum Jónasi og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur og þökkum allar þær góðu stundir sem áttum með Fríðu.

Anna, Arna, Bergljót, Björg, Heiða Kristín, Kristín, Margrét Rún og Þorgerður

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Anna Gunndís Guðmundsdóttir skrifar
25. september 2025 | kl. 08:30

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Sigríður María Bjarnadóttir og Vilborg Karlsdóttir skrifa
25. september 2025 | kl. 06:00

Jón Björnsson

Héðinn Styrmir Jónsson skrifar
12. september 2025 | kl. 06:00

Heimir Þorleifur Kristinsson

Guðrún Guðmundsdóttir skrifar
08. september 2025 | kl. 12:00

Stefán Þórðarson – lífshlaupið

03. september 2025 | kl. 06:00