Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Elsku mamma mín
Ég á ekki orð til að lýsa því hve erfitt er að þurfa að kveðja þig svona snöggt. Þú áttir svo mörg ár eftir. Þú varst alltaf svo hraust og sterk.
Þennan nýja veruleika virðist ógerandi að meðtaka. Þið pabbi gáfuð okkur gott líf. Okkur skorti aldrei neitt og vorum hvött áfram í því sem við tókum okkur fyrir hendur.
Ég er svo þakklát fyrir okkar góðu tengsl. Þið systkinin voruð alla tíð svo samrýmd og allur þeirra krakkahópur er eins og einn risastór systkinahópur, sem er mér svo kær.
Ég er svo þakklát fyrir allt sem þú gafst mér og allt sem þú kenndir mér. Fyrir að kenna mér að vera þakklát. Fyrir að kenna mér að tala alltaf fallega um fólk, sjá alltaf það góða í öllu og öllum.
Þú varst svo handlagin, hjartahlý og góð. Allir fallegu kjólarnir sem þú hefur saumað, og allar flíkurnar sem við drösluðum með okkur norður til að láta stytta, þrengja, laga, því þær væru miklu betur gerðar þannig heldur en ef ég gerði það sjálf. Allt fallega konfektið sem þú gerðir og gafst við hvert tækifæri.
Þú varst svo róleg en afkastaðir svo miklu án þess að nokkur tæki eftir að þú værir eitthvað að gera, töfraðir fram veislur eða saumaðir fín föt.
Brosið þitt blíða og glottið þegar þú vissir að pabbi væri að grínast í okkur og við trúðum öllu sem hann sagði. Úr aftursætinu í bílnum sáust kinnbeinin þín lyftast og þá vissum við að hann var að plata.
Ég mun sakna þess að fá ekki nýtt ljóð í næsta jólakorti, eða næsta stórafmæli.
Ég mun sakna þess svo mikið að fá ekki fallega konfektið þitt. Við gerum kannski bara ljótt konfekt fyrir næstu jól, en það verður þá samt vonandi jafngott og þitt. Það fyrsta sem barnabörnin spurðu um eftir að þú kvaddir okkur var hvort við ættum uppskriftirnar af Fríðukonfektinu.
Þú varst svo einlæg, svo ljúf og yndisleg kona, þú skildir eftir fallegt ljós og hlýju í hjörtum allra sem kynntust þér á lífsleiðinni.
Eins erfitt og það er núna að sætta sig við það sem ég fæ ekki breytt og trúa að lífið verði sanngjarnt og ljúft, þá ætla ég að reyna að muna þín orð og halda áfram með bjartsýni og fallegar minningar að vopni.
Og minna sjálfa mig á fallega ljóðið um daginn í dag og alla daga:
Ég vakna þennan morgun og vel að hann sé góður
vel að hann sé yndislegur, myrkur og hljóður
ég vel að kúra um stund og staðnæmast við það
hve stórkostlegt sé lífið ef fátt amar að.
Ég ákveð því að velja að vandamálin fá
vistuð séu hjá mér til þess eins að ljá
tilverunni ennþá fleiri tilbrigði og fleti
ég tek þeim opnum örmum svo nýtt mér þau ég geti.
Og eftir litla stund ég vel að fara á fætur
faðma þennan morgun og allar hans rætur
hita mér gott kaffi af kærleik þess ég nýt
kex smyr með osti í blöðin svo ég lít.
Að endingu ég segi við þig sem þetta lest
þetta er góður dagur, hafðu það sem best
ég óska þess að hugsanir fallegar þig finni
ég faðmlag þér sendi og kveð þig að sinni.(Unnur Sólrún Bragadóttir)
Hvíldu í friði, elsku mamma.
Þín Vala


Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Hallfríður Lilja Einarsdóttir – lífshlaupið

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Jón Björnsson
