Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Elsku Fríða mín.
Ef hún bara vissi um alla hlýjuna sem við finnum fyrir þegar við hugsum til hennar núna. Yndisleg, dásamleg, góðhjörtuð, svo hlý, falleg og góð. Sú allra ljúfasta og besta. Einstök manneskja.
Hún tók mig að sér ásamt elsku Jónasi. Eftir skóla sofnaði ég á sófanum yfir Guiding Light. Ég setti í uppþvottavélina, sem var eina húsverkið sem ég tók að mér, en var þó aldrei beðin. Aldrei var ég viss hvort hreint eða óhreint væri í vélinni því Fríða skolaði allt svo vel. Ég gætti þess að raða í hana alveg eins og hún. Óaðfinnanlega – eins og allt annað sem hún gerði.
Fríða hugsaði svo vel um okkur Jónas að hvorugt kunnum við að sjóða kartöflur.
Hún skammaði mig bara tvisvar og í bæði skiptin átti ég það skilið. Í fyrra skiptið hafði ég rifið hverja flík úr fataskápnum og sett í haug á rúmið sem líktist Súlum. Ég hringaði mig utan um fatahrúguna og svaf þannig í tvær vikur. Fríðu fannst það ekki fyndið.
Í seinna skiptið skipti ég um aðalmynd á heimilistölvunni: mynd af mér úr draugahúsinu við busun í MA. Kasóléttur, alblóðugur draugur með túperað hár. Ég heyri hana enn segja: „Þetta er ógeðslegt.“
Í þriðja skiptið sem ég heyrði Fríðu byrsta sig var þegar Kalli prentari var alveg að gera út af við okkur og hún lét hann heyra það. Þá var hann búinn að koma ítrekað og öskra inn um bréfalúguna að við ættum að lesa Fálkann. Svo tróð hann blöðunum inn um lúguna og arkaði svo yfir götuna og heim til sín.
Það sem hún sagði við Kalla var eitthvað sem var gott að heyra og eitthvað sem ég þurfti að heyra. Bæði það sem hún sagði en líka hvernig hún sagði það. Það ætla ég að geyma í hjartanu og fyrir okkur tvær.
Annars byrsti Fríða sig aldrei í mín eyru og það var það sem ég þurfti.
Ljóð, svuntur, útsaumuð handklæði og konfektmolar. Fríða var vandvirk og gladdi með einstökum gjöfum. Allt var fallegt, litríkt, rólegt og á réttum stað. Útvarpið á, fréttir eða hugljúfir tónar, og kapall á borðinu. Hjúpsúkkulaðið bráðnar, beyglaður gaffall, einbeitt, himinblá augu og lítið bros ef einhver stal mola.
Ég er Fríðu svo þakklát fyrir að hafa siðað mig til, alið mig upp og kennt mér að vera almennileg manneskja. Því það var það sem hún var. Einstök og almennileg manneskja.
Ég er þeim báðum svo þakklát fyrir að hlusta og hlæja, vera til staðar og grípa mig þegar ég féll niður eins og Lísa í Undralandi niður kanínuholuna. Niður, niður, niður. Ég væri líklega enn að hrapa – því ég vissi það ekki þá að ég væri að hrapa. Það er Fríðu og Jónasi að þakka að ég lenti á báðum fótum þar sem allt er bjart.
Jónas var hennar skjöldur og hún var hans skjól. Í Brekkugötu fann ég minn griðastað, töfraskóg og felustað. Þar fann ég yl, hvíld og kyrrð, þar fann ég ró og rétta leið.
Leggjum spilin á borðið, kapallinn heldur áfram, við stokkum aftur, spilum annan ef hann gengur ekki upp. Svindlum við? Kannski stundum. Ég loka augunum, hlusta á hljóðið í spilunum og fæ mér einn mola enn.
Takk fyrir að vera líka mamma mín.
Þín fósturdóttir,
Anna Gunndís Guðmundsdóttir
(Dunda)


Hallfríður Lilja Einarsdóttir – lífshlaupið

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Jón Björnsson

Heimir Þorleifur Kristinsson
