Fara í efni
Minningargreinar

Magnús Geir Guðmundsson

Kveðja frá Íþróttafélaginu Þór

Í dag, mánudaginn 2. október, fer fram frá Akureyrarkirkju útför Magnúsar Geirs Guðmundssonar sem svo sannarlega má kalla Þórsara og einn af okkur alla tíð.

Magnús gat ekki vegna sjónskerðingar sinnar allt sitt líf, tekið þátt í íþróttum eins og bræður hans og frændfólk gerðu, og gera enn og það að sjálfsögðu undir merkjum Þórs, en hinsvegar var hugur Magnúsar alltaf við íþróttir og hann fylgi Þór að málum eins og hann átti kyn til komin af mikilli Þórsfjölskyldu af Oddeyri.

Magnús var sannarlega dæmi um mann sem stundaði sínar íþróttir í huganum og sýndi okkur að allir geta verið með og dyggari stuðningsmaður Þórs er vandfundinn.

Magnús tók þátt í umræðum um málefni félagsins á samfélagsmiðlum, var einkar málefnalegur og ritfær og studdi okkur Þórsara í stóru sem smáu og sannarlega var hugur hans alla tíð í okkar hópi, og gladdist hann alltaf er vel gekk og hvatti okkur til dáða þegar á brattann var að sækja.

Væntumþykja Magnúsar til félagsins var svo áþreifanleg í öllu hans tali og skrifum og sýndi það sig þó mest og best er Magnús samdi óð til Íþróttafélagsins Þórs í tilefni 100 ára afmælis þess 6. júní 2015.

Það á vel við á þessari kveðjustund sem sannarlega kom bæði óvænt og allt of fljótt að láta ljóðið fylgja hér með.

Góður félagi og mikill stuðningsmaður okkar Þórsara er fallinn frá og við allir sem unnum Íþróttafélaginu Þór þökkum Magnúsi Geir Guðmundssyni samfylgdina og biðjum algóðan Guð að blessa minningu hans.

Íþróttafélagið Þór sendir bræðrum Magnúsar sem og öllum öðrum ástvinum hans okkar innilegustu samúðarkveðju

Minningin um góðan dreng mun lifa.

Íþróttafélagið Þór
_ _ _

Afmælisóður

Íþróttafélagið ÞÓR eitt hundrað ára, 6. júní, 2015

Nú hugur er glaður á hátíðarstund,
hann látum nú reika um fortíðargrund
uns numið er staðar við stórmerkan fund,
stofnað var ÞÓR!
Þar kornungir drengir með kröftuga sýn,
komu sér saman um markmiðin brýn
neyta ei tóbaks né innbyrða vín,
í nautnanna flór.

Nei, tilgangur félags var töfranna list
og trúin á kappið innst sem yst.
Leiðtoginn merkur og formaður fyrst,
Friðrik var Einarsson.
Óx svo og dafnaði á Eyrinni skjótt,
ungherjalið og safnaði þrótt
komast já vildi til farsældar fljótt,
fullt af afrekavon.

Og víst hafa unnist afrekin merk,
okkar í minni geymast þau sterk
en félags mest gæfa þó fjöldans er verk
svo frjóvgaðist garður.
Þar víst hefur marga, meyjan og sveinn,
markað sín spor, það er sannleikur hreinn
þú allavega nú þekkja ættir einn,
ÞÓRsari harður.

Áfram síðan veginn með óbilandi dug
arka skulum léttstíg og bjartsýn í hug.
Vísa öllum trega og vonleysi á bug,
og verða stór.
Framtíðin hún bíður með fjölbreyttasta leik
félagar þá eflaust vöðum eld og reyk.
Á hundrað ára sögu horfum stolt og keik:
HÚRRA FYRIR ÞÓR!

Höfundur: Magnús Geir Guðmundsson f. 19.04. 1966 - d. 20.09. 2023

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Freyja Rögnvaldsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Daníel Snorrason

Valur Ásmundsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 09:45

Daníel Snorrason

Björn Björnsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 06:05

Daníel Snorrason – lífshlaupið

04. apríl 2024 | kl. 06:00