Fara í efni
Minningargreinar

Kristmundur Stefánsson

Elsku Kristmundur bróðir hefur kvatt langt um aldur fram eftir hetjulega baráttu við krabbamein. Hann stóð storminn meðan stætt var, vann fram undir það síðasta og keyrði sig áfram með aðdáunarverðum krafti þar til yfir lauk - okkur öllum fyrirmynd um að láta ekki mótlæti slá sig út af laginu og halda alltaf fast í húmorinn.

Krissi var ein af stoðunum í mínu lífi, alltaf til staðar - svo úrræðagóður og traustur er eitthvað bjátaði á. Mikið lán að eiga hann að. Öll hans drift og ákveðni kom sér alltaf vel í að brýna mig áfram gegnum lífið, var mér traustur í uppeldinu jafnt í ákveðni sinni og lífsgleðinni sem einkenndi hann alla tíð. Vorum um margt ólíkir en samt alltaf sterk taug milli okkar - hlýjan í bræðralaginu snart mig alltaf djúpt. Minnti mig oft á Línu ömmu - sama eljan, jákvæður hugur, kraftur og seigla. Krissi var alltaf fyrirmynd í því að láta bæði hjartað ráða för og húmorinn krydda lífið.

Í hugann koma upp minningar; þegar Krissi fann mig í Brekkugötu eftir strokið heiman úr Þórunnarstrætinu kornungur, stundirnar hjá honum og afa og ömmu í Vél og Raf, er hann reyndi að smita mig af hestabakteríunni (án árangurs) með því að setja mig í massa kvíðahnút á hestbak en náði mun betur til mín með að fara með mig á rúntinn og keypti Mix og hamborgara með frönskum á milli þegar hann kom af sjónum, ljómann þegar hann kom úr utanlandsferðunum með glás af gjöfum og nammi úr tollinum og fór með mig á bannaða mynd í bíó.

Minnist góðu stundanna í Smárahlíð þegar ég gisti hjá litlu stórfjölskyldunni er Krissi, Lína amma og Lína systir & co bjuggu saman og ég var þar löngum stundum, þegar Krissi kom fyrst með eldbakaða pizzu úr vinnunni á Uppanum (mikil upplifun), hláturinn og gleðin yfir vídeó og rokklögum, sögurnar og gleðin, allar ferðirnar þegar Krissi keyrði vörubílinn með allt í botni, þegar hann riggaði upp margrétta fermingarveislunni minni með Gunna vini sínum og fann lífsfjölina sem bóndi í sveitinni sinni auk þess að verða besti stjúpi í heimi.

Þegar búrekstri lauk kom Krissi aftur í bæinn og sameinaði mörg verkefni með mikilli útsjónarsemi - á réttri hillu sem farsæll leigubílstjóri, lagði hönd á plóg á Bautanum og í hestunum með vinahjónum sínum Helgu og Guðmundi, í góðri og gefandi áralangri vinnu hjá Líflandi sem undir lokin varð sáluhjálp hans í veikindastríðinu, og sem húsvörður á gistiheimili með ungum skiptinemum - auðgaði líf þeirra með húmor sínum og ákveðni. Það gaf honum mikið að fara um Evrópu til að hitta Villu-vinina; sérstöku ástfóstri tók hann við Ítalíu - í Genúa fann hann gleði og innri frið. Gleymi aldrei langa samtalinu okkar þegar hann dvaldi þar jól ein og naut nýrra ævintýra. Þessar stundir gáfu honum nýja lífsfyllingu.

Ég kveð elsku Krissa minn með þakklæti fyrir allar góðu minningarnar en um leið mikilli sorg í hjarta yfir því að hann fékk ekki fleiri ár. Hann hafði svo margt að lifa fyrir og átti svo margt eftir. Missirinn er þungur og sár en ég held áfram lífsgönguna með ákveðni hans og léttleika að leiðarljósi.

Stefán Friðrik Stefánsson

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Freyja Rögnvaldsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Daníel Snorrason

Valur Ásmundsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 09:45

Daníel Snorrason

Björn Björnsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 06:05

Daníel Snorrason – lífshlaupið

04. apríl 2024 | kl. 06:00