Fara í efni
Minningargreinar

Karólína Margrét Másdóttir

Elsku mamma, það er skrýtinn veruleiki sem blasir við okkur bræðrum að þú sért búin að kveðja. Við þekkjum ekkert annað en að þú sért stór þáttur í okkar lífi þar sem þú hefur fylgt og stutt okkur alla okkar tíð.

Heilsteyptari manneskju er erfitt að ímynda sér, náungakærleikurinn var ávallt í fyrirrúmi og öllum ljóst að þú þoldir ekki frekju og yfirgang. Þá þykir okkur einstaklega vænt um hve dugleg þú varst að koma þér inn í íþróttaheim okkar strákanna þar sem þú studdir ævinlega við bakið á okkur. Það skipti þig miklu máli að við strákarnir værum duglegir og nýttum okkar hæfileika til fulls.

Við erum svo ótrúlega þakklátir fyrir fórnfýsi þína og fundum vel fyrir því að þú settir okkur bræður ávallt í forgang. Þú ert okkur stórkostleg fyrirmynd og þín lífsgildi um vinnusemi, metnað og kærleik er eitthvað sem við tileinkum okkur.

Þú lagðir þig ávallt alla fram við það sem þú tókst þér fyrir hendur og hafðir mikinn metnað fyrir því að skila af þér góðu verki. Við fjölskyldan erum gríðarlega náin og það er ekki síst fyrir þína tilstilli og hvernig þú hélst utan um okkur.

Þú sást alltaf til þess að okkur skorti ekki neitt og lagðir mikið upp úr því að gefa okkur hollan og næringarríkan mat í ríkulegu magni. Þú elskaðir að taka á móti fólki, ekki síst með fjölmörgum vel útilátnum veisluréttum. Hógværðin alltaf í fyrirrúmi þó líf og sál væri lögð í öll verk.

Það var þér afar mikilvægt að rækta fjölskylduböndin vel og stóðst fyrir mörgum góðum samverustundum með stórfjölskyldunni. Nú er komið að okkur að stíga upp og halda uppi heiðri þínum, viðhalda þessum sterku böndum og sjá til þess að við munum áfram standa þétt saman.

Það er erfitt að hugsa til þess að lífið haldi áfram án þín en á sama tíma erum við ákaflega þakklátir fyrir þig og allar minningarnar sem við eigum saman. Þær lifa í okkur og við verðum áfram duglegir að passa upp á hvern annan í þínum anda.

Mamma við elskum þig.

Baldur Már, Andri Snær og Ágúst

Smári Jónsson – lífshlaupið

Fjölskylda Smára skrifar
30. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Freyja Rögnvaldsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Daníel Snorrason

Valur Ásmundsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 09:45

Daníel Snorrason

Björn Björnsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 06:05