Fara í efni
Minningargreinar

Kara Guðrún Melstað

Ég kynntist Alla og Köru í gegnum handboltann hjá KA upp úr 1990. Á þeim sex árum sem Alli þjálfaði liðið komu fjölmargir titlar í hús og stemningin í KA-húsinu var hreint ótrúleg. Hún verður aldrei endurtekin því í dag væri ekki leyfilegt að troða upp undir 1.600 manns inn í þetta litla íþróttahús eins og gert var aftur og aftur á gullaldarárunum.

Við sem sátum í stjórn handknattleiksdeildarinnar áttuðum okkur ekki á því strax – frekar en önnur lið sem hafa ráðið Alla til starfa síðan – að með ráðningu hans fengum við tvo fyrir einn, eða öllu heldur tvö fyrir einn. Kara stóð alltaf þétt við hlið síns manns og studdi dyggilega í öllu sem viðkom handboltanum. Þess vegna segi ég gjarnan „þeirra ferill“ þegar rætt er um glæstan feril Alla sem þjálfara. Það má líka orða það svo að þótt Alli ráði innan vallar hafi Kara gjarnan ráðið utan vallar, að stórum hluta. Hið sama einkenndi þau hjónin bæði: Vinnusemi, reglusemi og aftur vinnusemi. Þáttur Köru í einstökum þjálfaraferli Alla er ómetanlegur.

Annað vil ég nefna í þessu samhengi. Menn tóku eftir því – allan þjálfaraferil Alla í Þýskalandi, þessari stærstu og erfiðustu deild handboltans í heiminum – að hann hafði alltaf færri aðstoðarmenn en hin liðin. Það var kannski í sjálfu sér ekki alveg rétt ályktað, menn gleymdu einfaldlega að telja Köru með! Eitt af því sem hún gerði alla tíð listavel var að taka unga og óharðnaða leikmenn, sem Alli fékk til liðs síns, undir sinn verndarvæng. Hún hjálpaði þeim að aðlagast nýjum aðstæðum og breyttri tilveru og gekk þeim alyngstu nær því í móðurstað, hlý og umhyggjusöm eins og alltaf. Það var henni einhvern veginn eðlislægt. Hún missti foreldra sína ung að árum og hélt þá utan um yngri systkini sín. Það sama gerði hún þegar þau Alli stofnuðu fjölskyldu, hún hlúði að börnunum þeirra og seinna barnabörnum af ástúð og umhyggju.

Starfs míns vegna hef ég oft verið í Þýskalandi á liðnum áratugum. Ég hef líka farið á marga handboltaleiki þar sem Alli var við stjórnvölinn. Í þessum handboltaferðum mínum bjó ég oftast á heimili þeirra Alla og Köru og kynntist þá enn betur hversu náið og þétt þau unnu saman. Ég hef átt margar gleðistundir með þeim hjónum eftir leiki en aldrei ofmetnuðust þau þrátt fyrir mikla velgengni – og svo var fljótlega farið að hugsa um næsta leik. Kara vissi vel hvað ég gat orðið stressaður í mestu háspennuleikjunum og í þeim tilfellum sem við sátum ekki saman og horfðum á leikinn, spurði hún mig að leik loknum: „Fórstu fram á gang, Mái minn?“ Spurningunni fylgdi gjarnan bros og síðan hinn fallegi og smitandi hlátur Köru. Oftar en ekki varð ég að svara þessari spurningu játandi.

Ég kveð Köru með söknuði og virðingu og þakka samfylgdina og vináttuna. Ég sendi Alla hugheilar samúðarkveðjur sem og börnum þeirra, Elvari, Aðalheiði og Andra, mökum þeirra og börnum, systkinum Köru og öðrum ástvinum. Blessuð sé minning Köru Melstað.

Þorsteinn Már Baldvinsson

Þór Sigurðsson

Valgerður H. Bjarnadóttir skrifar
10. júní 2024 | kl. 11:00

Þór Sigurðsson

Kristín, Sigurður og Herdís skrifa
10. júní 2024 | kl. 10:30

Þór Sigurðsson

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 10:30

Þór Sigurðsson

Hörður Geirsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 09:30

Þór Sigurðsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 06:00

Þór Sigurðsson – lífshlaupið

10. júní 2024 | kl. 06:00