Fara í efni
Minningargreinar

Kara Guðrún Melstað

Elsku Kara, nú er allt breytt og verður aldrei eins. Það er óendanlega sárt að kveðja þig, þú varst svo margt, gast sett á þig hvaða hatt sem er, hvenær sem er. En þó það sé sárt að kveðja, þá erum við svo þakklát á sama tíma fyrir allt það sem þú varst okkur.

Ég man hvað ég var spennt og stressuð að kynna Einar fyrir ykkur Alla í Kiel. Okkar beið, eins og þér einni var lagið, heitur matur og kassi af bjór úti á svölum. Svo sátum við og spjölluðum fram á kvöld. Morguninn eftir er morgunn sem ég gleymi aldrei. Ég kem fram á undan Einari og þú ert búin að hella upp á kaffi, vindur þér strax í það sem ég var stressuðust fyrir: „Einar virkar bara vel á mig, það lítur út fyrir að hann geti verið róteindin í lífi þínu og þú verið svona rafeindin sem svífur í kringum hann. En eitt – á hann ekki betri skó? Ég er búin að taka skóna hans, skipta um reimar, setja ullarinnlegg í þá en það dugar ekki til, við förum í bæinn á eftir og kaupum á hann nýja skó, humm ók?“

Þar með var Einar búinn að standast prófið inn í fjölskylduna án frekari umræðna ef við bara fyndum á hann betri skó. Eftir þetta áttum við margar góðar stundir saman í Kiel. Enda eins og þið systur allar eruð, bætið hver aðra upp hvar sem þið eruð staddar í heiminum. Þú varðst þarna hálfgerð mamma mín og varst búin að vera á mínu utanlandsbrölti og fyrsta tengdamamma Einars.

Alla mína ævi hefur þú kennt mér svo margt, alla mögulega praktíska hluti en upp úr stendur lífsviðhorfið. Kvöld eitt í Wendgräben þegar þú sagðir við okkur: „Krakkar, vitið þið að við Alli höfum rætt það að við höfum engan tíma til að bíða eftir því að verða gömul til þess að njóta lífsins, við vitum ekki hversu lengi við höfum hvort annað og þess vegna gerum við „allt“ sem okkur langar núna.“ Þú hlóst á eftir, ég heyri þig ennþá hlæja. Því að jú, þú framkvæmdir alltaf það sem þú sagðir, dreifst í hlutunum og lést ekkert stoppa þig. Ekkert var ómögulegt. Eins og þegar við gróðursettum þrjú hundruð sígrænar tveggja metra háar plöntur á einum degi sem Alli hafði fengið á tilboði í Hollandi. Þann morgun vaktir þú okkur með því að banka á hurðina og segja: „Krakkar, ég þarf að fá ykkur til að hjálpa mér smávegis, gengur það? Það er komið kaffi.“ Í þessari sömu ferð okkar í Wendgräben, þegar Vala var líka komin, rissaðir þú upp startkostnað og mögulegar tekjur af gistirekstri í Bjarmó og þar með var það bara ákveðið. Svo einfalt var þetta alltaf hjá þér og ég trúi því að ég sé með þessi gen þín. Ég hef alltaf verið svo stolt af því þegar fólk segir: „Nú ertu alveg eins og Kara frænka þín.“

Það eru forréttindi að hafa haft þig í lífi okkar og sárt að hugsa til þess að þú sért farin. Hugurinn leitar á þessum erfiðu tímum til nánustu fjölskyldu þinnar sem hefur misst eiginkonu, móður, ömmu, systur og einstaka manneskju. Þeirra missir er sárastur og skarðið sem eftir situr verður ekki fyllt. Lífssaga þín er svo sannarlega merkileg og ómetanleg. Við munum ylja okkur við minningarnar um ókomna tíð og halda heiðri þínum á lofti.

Eilíft þakklæti, hvíldu í friði elsku frænka.

Þín,

Halla Sif & Einar Rafn.

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Freyja Rögnvaldsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Daníel Snorrason

Valur Ásmundsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 09:45

Daníel Snorrason

Björn Björnsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 06:05

Daníel Snorrason – lífshlaupið

04. apríl 2024 | kl. 06:00