Fara í efni
Minningargreinar

Hreiðar Jónsson

Margs er að minnast frá þeim tæpu 50 árum síðan ég hitti Johnson sem hann var oftast nefndur í góðra vina hópi. Ég flutti að sunnan til að fara í MA 1974 og var að velkjast í vafa um hvort handboltafélagið á Akureyri ég ætti að ganga til liðs við. Ég fór fyrst og fylgdist með æfingu hjá KA og leist ekki alltof vel á og fór því og fylgdist með æfingu hjá Þórsliðinu. Þar var Johnson þjálfari og eftir að ég hafði rætt við hann í nokkrar mínútur þá var það fullkomlega ljóst í mínum huga að Þór yrði fyrir valinu. „Þú mætir á næstu æfingu,“ sagði Johnson með ákveðinni röddu og ég sá svo sannarlega ekki eftir því. Félagsskapurinn var frábær og þar eignaðist ég vini sem ég held ennþá sambandi við þó að ég hafi flutt frá Akureyri 1979. Johnson tók mér mjög vel sem og liðsfélagarnir. Það var ekki sjálfgefið að 16 ára menntskælingi að sunnan væri jafn vel tekið og raunin varð á. Glaðværð og mikill húmor var ríkjandi innan þessa liðs og alltaf var farið í Sjallann eftir alla heimaleiki. Johnson var mikil húmoristi og hann sá fyndnar hliðar á hlutunum. Fyrsta árið fór ég í jólafrí en Þór borgaði undir mig ferð norður á milli jóla og nýjárs, þegar KR kom í heimsókn. Johnson kom út á flugvöll og sótti mig. Ég byrjaði á bekknum, var síðan settur inn á og byrjaði á því að stugga við KR-ingi í fyrstu vörninni. Var þá rekinn útaf og kom ekki meira inn á þeim leik! Líklega borgaði sig ekki fyrir félagið að fjárfesta í þessari flugferð og Johnson gerði grín að þessu seinna. Vinskapurinn hélst við Johnson alla tíð og hann hafði mikil áhrif á mann á þessum uppvaxtarárum. Á mörgum stúdentsafmælum gisti ég hjá Johnson og var þar alltaf vel tekið og gaman að viðhalda vinskapnum við hann. Johnson gat verið erfiður í samskiptum og átti í baráttu við Bakkus um langt skeið sem bæði þjónaði honum en var líka hans húsbóndi á tímabili. Ég færði honum 12 ára Whiskey, líklega 1998. Hann var þá hættur að drekka áfengi og drakk ekki dropa eftir að hann tók þá ákvörðun og endaði með að skila mér flöskunni 20 árum síðar! Johnson var frábær sögumaður og það sem einkenndi hann var réttlætiskennd. Hann þorði að segja sína meiningu og hann bar virðingu fyrir mönnum sem þorðu að standa fyrir sínum skoðunum. Johnson var fyrst og fremst skemmtilegur félagi og góður vinur og það var ekki um að ræða neitt kynslóðabil þótt nokkrir áratugir væru á milli okkar. Ég veit að margir vinir mínir fyrir norðan eru sammála því. Við kveðjum eftirminnilegan mann en minning Hreiðars Jónssonar mun lifa áfram í lífi okkar sem kynntumst honum.

Ég votta börnum hans, Ingólfi og Höddu og fjölskyldum þeirra, samúð mína.

Einar S. Björnsson

Þorgerður K. Jónsdóttir

Herdís Ármannsdóttir skrifar
07. desember 2023 | kl. 06:00

Þorgerður K. Jónsdóttir

Hafþór Magni Sólmundsson skrifar
07. desember 2023 | kl. 06:00

Dagbjört Pálsdóttir

Íþróttafélagið Þór skrifar
10. nóvember 2023 | kl. 10:30

Dagbjört Pálsdóttir

Þóra Sif Sigurðardóttir og Jóhanna Berglind Bjarnadóttir skrifa
10. nóvember 2023 | kl. 09:30

Dagbjört Pálsdóttir

Samfylkingin á Akureyri skrifar
10. nóvember 2023 | kl. 09:00