Heimir Þorleifur Kristinsson

Við kveðjum, með sorg og söknuði, son okkar Heimi Þorleif sem lést 7. júlí sl. á heimili sínu umvafinn ást og kærleika. Eðliskostir Heimis einkenndust af ljúfmennsku, heilindum og umhyggju fyrir fjölskyldu sinni og samferðafólki. Heimir var afar gestrisinn og var höfðingi heim að sækja, heimili þeirra Lindu var þeirra aðalsmerki þar sem gleði og kærleikur ríkti. Það var hans ánægja að bjóða fjölskyldunni í mat, hann var mjög fær í því að grilla mat og nutum við þess að koma að skreyttu veisluborði og góðum sósum sem Linda gerði og allskonar grillmat sem Heimir töfraði fram.
Heimir var snillingur í höndunum og smiður af Guðs náð. Hann sagði þegar hann var 3 ára „ég ætla að verða smiður“ og stóð við þessi orð.
Hann var afar hjálpsamur við okkur foreldrana í gegnum árin og erum við honum mjög þakklát fyrir það.
Ég ætla að vitna í bók sem Heimir gaf okkur í jólagjöf þegar hann var 12 ára sem heitir Spámaðurinn eftir Kahlil Gibran.
„Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín. Þegar sál þín vegur gull og silfur á metaskálum, hlýtur gleðin og sorgin að koma og fara.“
Ó himins blíða hjartans tár
er hjúpar sorg, þótt blæði sár,
þín miskunn blíð, hún mildar barm,
hún mýkir tregans sára harm.
þú ert það ljós, það lífsins mál,
er ljúfur drottinn gefur sál.
Nú hljóð er stund, svo helg og fríð,
að hjarta kemur minning blíð.
Hún sendir huga bros þitt bjart,
blessar, þakkar, þakkar allt.
Hún minnir sál á sorgaryl,
sendir huggun hjartans til.Steinunn Þ. Guðmundsdóttir
Heimir er nú horfinn til lands sólarinnar, þar sem birtan og kærleikurinn bíður hans.
Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Mamma og pabbi


Heimir Þorleifur Kristinsson – lífshlaupið

Patricia Ann MacKenzie Jónsson

Patricia Ann MacKenzie Jónsson

Patricia Ann Mackenzie Jónsson – lífshlaupið
