Heimir Þorleifur Kristinsson

Við kveðjum með sárum söknuði elskulegan bróðir okkar. Hann var aðeins 57 ára í blóma lífsins og kvaddi eftir erfiða baráttu við krabbamein.
Heimir var sannur fjölskyldumaður, hlýr og lífsglaður. Hann var elstur okkar þriggja systkina og áttum við systurnar ávallt traustan og góðan bróður sem við gátum alltaf leitað til. Það eru forréttindi að hafa átt bróður eins og Heimi, litum upp til hans og hann kenndi okkur einnig svo margt. Hann var einstaklega handlaginn og var alltaf að búa eitthvað til. Gera eitthvað sniðugt og sá möguleika í hlutum sem aðrir komu ekki auga á. Allt sem hann gerði var gert af miklum metnaði, fagmennsku og vandvirkni.
Heimi fylgdi léttleiki og gleði hvar sem hann var. Hann hafði einstaka kímnigáfu, glettni í augunum og var mjög stríðinn, það gerði hann að sérstaklega skemmtilegum frænda. Dætur okkar leituðu mikið til hans og var mikið hlegið þegar þær hittu frænda. Það var ekki bara stríðnin og glensið heldur fylgdist hann líka með þeim af miklum áhuga og kærleika.
Það er margs að minnast og erum við systur afar þakklátar fyrir allar góðu minningarnar. Það eru ófá matarboðin, ferðalögin, sumarbústaðaferðirnar og spilakvöldin sem koma upp í hugann. Heimir var mikill grillari og matgæðingur og voru þau hjónin miklir gestgjafar. Hann hafði sérstaklega gaman af því að taka á móti fólki og voru matarveislurnar líka einstök upplifun. Maturinn og borðskreytingarnar á allt öðru plani, það var alltaf vá þegar þú komst til þeirra. Með dýrindis mat var sérvalið vín sem var parað saman og endaði kvöldið á gæða viskíi. Heimir var mikill áhugamaður um viskí og átti sér hobby herbergi þar sem viskí safnið fékk að njóta sín.
Heimir var mikið jólabarn og á þessum tíma ársins var hann í essinu sínu. Hann var byrjaður að telja niður um mitt sumar og alltaf jafn mikil tilhlökkun. Hann naut sín best með alla fjölskylduna samankomna yfir hátíðarnar en undirbúningur og aðdragandi jóla var honum ekki síður skemmtilegur.
Honum fannst fátt skemmtilegra en að ferðast og fór margar ferðir með fjölskyldu og vinum. Á sólarströnd með góða steik, eðal vín og góðan félgsskap þá naut hann sín best. Við minnumst sérstaklega ferðar í Karabíska hafið síðastliðið haust sem við systkinin fórum í ásamt Lindu mágkonu. Þar áttum við sérstaklega góðar og dýrmætar stundir og gerðum vel við okkur í mat og drykk og skoðuðum okkur heilmikið um.
Heimir hafði meðfædda réttlætiskennd og á sínum fyrstu starfsárum fór hann fljótlega að sinna trúnaðarstörfum og stéttarfélgsmálum á vinnustað. Hann hefur alltaf brunnið fyrir jafnrétti, jöfnuði, samvinnu og samkennd. Við áttum oft fjörugar umræður um daginn og veginn og það sem var efst á baugi í þjóðfélginu, ekki alltaf sammála en enduðum alltaf í sátt.
Við kveðjum góðan bróður en þakklæti og minningar lifa áfram
Elsku Linda og Kamilla, megi ljós og hlýhugur umvefja ykkur og kærleikurinn ykkur vernda.
Jóhanna Björk og Hildur Ýr


Heimir Þorleifur Kristinsson – lífshlaupið

Patricia Ann MacKenzie Jónsson

Patricia Ann MacKenzie Jónsson

Patricia Ann Mackenzie Jónsson – lífshlaupið
