Fara í efni
Minningargreinar

Heiðdís Norðfjörð

Það er mikil gæfa fyrir þá sem vakna heilbrigðir og hressir hvern morgun og geta haldið glaðir út í daginn. Elsku Heiðdís systir mín átti því miður ekki því láni að fagna hin síðari ár. Það var erfitt að sjá þessa góðu og fjölhæfu konu hverfa inn í tómleika hugar og athafna.

Við áttum bernskuárin okkar saman með mömmu og pabba á Ægisgötu 25 á Akureyri og ég á góðar minningar frá þeim tíma. Heiðdís passaði mig þá eins og sjáaldur auga síns og við lékum okkur mikið saman í Heiðdísarhúsi sem stóð á lóðinni og pabbi hafði smíðað. Við hjálpuðum líka til í garðvinnunni heima, en mamma og pabbi voru natin við garðræktina og fengu verðlaun fyrir fallegasta garðinn árið 1955. Mamma kenndi okkur mikið af kvæðum og vísum sem við lásum og sungum saman. Mér eru ofarlega í minni Gutta- og Aravísur og kvæðið skemmtilega, „En hvað það var skrýtið“. Heiðdís var líka iðin við að segja mér sögur um allt mögulegt sem hún bjó oft til, stundum jafnóðum og það var sagt. Skálda- og leikhæfileikar hennar komu fljótt fram og söngur átti hug hennar alla tíð.

Pabbi okkar féll frá í mars árið 1957 og var þá að vinna að uppsetningu á Gullna hliðinu í tilefni 40 ára afmælis Leikfélags Akureyrar. Við Heiðdís fórum oft með pabba í leikhúsið og ég minnist umræðna um áhuga hennar á að leika engil í leikritinu, en af því varð ekki. Eftir andlát pabba okkar, fluttum við mamma til Reykjavíkur, en Heiðdís var þá heitbundin Gunnari sínum og varð eftir á Akureyri. Við hittumst þó oft og ýmist fórum við mamma norður eða að þau komu suður. Sumarið eftir að pabbi lést fór ég í sveit að Háagerði í Eyjafirði og þá kom Heiðdís reglulega til mín og við fórum í bíltúr í Vaglaskóg og víðar. Þegar sveitardvöl minni lauk sótti hún mig og sagði; „Jæja Nonni minn, nú skulum við kaupa eitthvað fallegt handa mömmu“. Heiðdís vildi alltaf gleðja aðra og það var henni mjög eðlislægt. Við fórum í KEA búð sem var beint á móti hótel KEA og fundum þar fallega Jesúmynd sem ég fór með suður og gaf mömmu.

Í gegnum tíðina hefur Heiðdísi verið margt til lista lagt og hún hafði ríka sköpunarhæfileika. Meðfram störfum sínum samdi hún nokkrar vinsælar barnabækur og falleg ljóð. Hún annaðist dagskrárgerð hjá ríkisútvarpinu um skeið og í hvert sinn sem ég heyrði hana lesa upp, komu í huga minn upphafsorð ljóðsins um Sólskríkjuna, „Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein“, en rödd Heiðdísar var einmitt svo hugljúf og hrein. Hún las einnig sögur og ævintýri inn á fjölmargar snældur og samdi lög við eigin texta og annarra, sem flutt hafa verið á hljómplötum og snældum. Þekktust eru lög Heiðdísar við ævintýrið um Pílu pínu eftir Kristján frá Djúpalæk. Þau komu út á hljómplötu árið 1980 og seinna skrifaði hún leikrit við sögu Kristjáns og það var mikið gleðiefni þegar leikritið um Pílu pínu var flutt hjá Leikfélagi Akureyrar árið 2016. Heiðdís hefur hlotið viðurkenningar fyrir ritstörf sín og framlag til menningarmála, meðal annars frá Menningarsjóði Akureyrar árið 2010 fyrir mikilvægt framlag til menningarlífs á Akureyri.

Heiðdís var alla tíð einlægt trúuð og var lengi meðhjálpari í Akureyrarkirkju. Hún spilaði og söng mörg falleg lög og sálma á píanóið heima. Meðal þess var sálmurinn Amazing Grace sem hún hélt mikið upp á. Hún gerði eftirfarandi íslenskan texta við sálminn sem hún nefndi Vorkoma.

Nú birta fer í bæ og sveit
því bráðum kemur vor,
þá vermir okkur vorsól heit
og veitir kraft og þor.

Og vorið nýja vekur sýn
þá vaknar allt og grær,
og blærinn ilminn ber til þín
sem bjó hann til í gær.

Þá hjörtun ungu örar slá
því ástin tekur völd,
með blik í augum blíð er þrá
hin björtu fögru kvöld.

Framkoma og fas Heiðdísar var ávallt einlægt og hlýlegt, oft stutt í góðlátlega glettni og gamansemi. Þegar eitthvað bjátaði á var hún tilbúin til að hughreysta og hvetja til dáða. Hugarfarið mátti lesa út úr ljóðum hennar og sögum og hér er dæmi um fallega jólakveðju sem hún samdi:

Við hlýjar kveðjur sendum
er syngja í ykkar hjörtum
og seiða fram í hugann
gleði, heims um ból.

Um lítinn dreng í jötu,
sem augum brosir björtum,
þá blika himins stjörnur
því komin eru jól.

Margar góðar minningar rifjast upp og það voru alltaf gleðistundir þegar við fjölskyldurnar hittumst og ávallt hefur samband okkar einkennst af mikilli einlægni og væntumþykju.

Heiðdís varð áttræð á vetrarsólstöðudaginn 21. desember síðast liðinn. Við héldum alltaf upp á þennan dag sem markar bjartari tíma framundan og vorkomu innan tíðar. Síðustu ár hefur Heiðdís notið góðrar umönnunar á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri þar sem eiginmaður hennar til rúmlega sextíu ára, Gunnar Jóhannsson dvelur einnig. „Sárt er að missa sína“ segir í saknaðarljóði Gínu mömmu í sögunni um Pílu pínu og á þessum tímamótum má sannarlega taka undir þau orð.

Við Lóa vottum elsku Gunnari og sonum þeirra og fjölskyldum innilega samúð og Guðsblessunar. Blessuð sé minning elsku Heiðdísar.

Jón Norðfjörð
(Nonni litli bróðir)

  • Jón Norðfjörð óskaði eftir því að birtar yrðu myndir með greininni og sjálfsagt er að verða við þeirri bón.

Heiðdís og Jón bróðir hennar á öskudaginn 1951 - Heiðdís með Jón í kerru - Við Heiðdísarhús á lóðinni við Ægisgötu 25.

Heiðdís með foreldrum sínum - Hjónin, Jón Norðfjörð og Jóhanna Ingvarsdóttir, í verðlaunagarðinum við Ægisgötu 25 árið 1955 - Heiðdís með föður sínum í Lystigarðinum 1945.

Systkinin með móður sinni; Sverrir, Jón, Jóhanna Ingvarsdóttir, Heiðdís og Ingibjörg - Heiðdís og móðir hennar við píanóið.

Heiðdís og Gunnar með frumburðinn - Hjónin með synina þrjá, Gunnar, Jón og Jóhann - Heiðdís og Heiðdís yngri.

Guðmundur Tulinius

Jón Hlöðver Áskelsson og Sæbjörg Jónsdóttir skrifa
28. mars 2024 | kl. 12:05

Guðmundur Tulinius – lífshlaupið

28. mars 2024 | kl. 12:00

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir

Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Ingibjörg Isaksen skrifa
04. mars 2024 | kl. 09:30

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir

Alfa Jóhannsdóttir skrifar
04. mars 2024 | kl. 06:00

Hermína Jónsdóttir

Daði, Freyr og Katrín skrifa
01. mars 2024 | kl. 10:05